Það er merkileg staða að vera í veikindaleyfi, sérstaklega þegar maður er alin upp af kynslóð sem grundvallaði sjálfsmynd sína á því, að vera að störfum. Við erum að tala um fólkið sem var fætt fyrir miðja síðustu öld. Fólkið sem ól upp miðaldra kynslóð Íslendinga í dag og einstaka örverpi eins og mig. Fólkið sem tók aldrei sumarfrí af því að maður í manns stað var ekki möguleiki nema þá að hafa sér það til afsökunar að hafa hreinlega dáið. Fólkið sem taldi orðið NEI benda til veikleika og sjálfhverfu en orðið JÁ vera öxulinn í tannhjóli lífsins. Já það er pínulítil áskorun verð ég að segja að vera alin upp af þessari kynslóð og fara svo bara í veikindaleyfi af því að maður er búinn á því.
Á liðnu ári gekk ég í gegnum ýmsar sammannlegar þrautir eins og skilnað, sorg og missi. Ekkert meira eða minna en margur er að upplifa hvern einasta dag. Eini munurinn á þessum brotsjó og öðrum sem ég hef hingað til mætt er að í fyrsta skipti upplifði ég að vera ekki endilega eins mikilvæg og ég hafði áður talið mig vera. Sú upplifun grundvallast á því að þegar maður skilur og er í þokkabót gerandi þeirra breytinga sér maður í fyrsta skipti svart á hvítu hverja þykir raunverulega vænt um manneskjuna sem maður er og hverja hugmyndina um mann. Og þeirri lífsreynslu fylgir ekki bara sársauki heldur líka töluvert frelsi, já kannski hef ég aldrei verið jafn frjáls eins og á þessum fallegu haustdögum í veikindaleyfi með alla mína sögu að baki.
Nú fyrst skiptir engu máli hvað öðrum finnst um mig, heldur hvort ég hreinlega þoli sjálfa mig. Og þegar reynslan hefur afhjúpað veruleikann þá stendur ekkert annað eftir en að gera upp sig hvort maður sé til í að vera til eins og titill á nýrri og ágætri ljóðabók hljómar. Stutta svarið er að ég er til í að vera til, bara með töluvert nýjum áherslum. Í fyrsta lagi er ég til í að vera til þótt ekki líki öllum við mig, ég er til í að vera til þrátt fyrir að vera breysk og mistæk manneskja, ég er til í að vera til þótt ég þurfi stundum að játa mig sigraða, ég er til í að vera til þótt ég eigi það til að verða örmagna á sál og líkama, ég er til í að vera til þótt sumir þurfi að bera með mér byrðarnar.
Ég hlakka til að koma aftur til starfa eftir leyfið, ekki vegna þess að ég sé nú þegar svo úthvíld eða uppgerð, þvert á móti, vegna þess að ég held, veit ekki en held að dómharka mín fari dvínandi með hverjum brotsjónum sem gusast yfir og kannski sé það grunnurinn að því að gera eitthvað pínulítið gagn í þessu furðulega starfi sem enginn skilur alveg til hlítar en virðist samt enn vera nauðsynlegt þrátt fyrir allt. Og svo held ég að það verði líka gaman að vera prestur þegar maður hefur loks fattað að maður er ekki ómissandi og það þarf ekki öllum að líka vel við mann en að allir eigi skilið ást og hlýju, líka þau sem eru eins og ég.