Karen Sigurðardóttir hefur glímt við yfirþyngd allt sitt líf. Fyrir nokkrum árum vaknaði hún í dauðu hjónabandi og uppgötvaði að hún kunni ekki einu sinni að elska sjálfa sig, hvað þá maka sinn. Eitthvað breyttist við þetta og eftir mikla sjálfsvinnu er hin 35 ára gamla Karen ánægðari með sjálfa sig, 43 kílóum léttari og stefnir á hálfmaraþon þegar hún verður fertug.
Karen segir að rót vandans liggi í æsku hennar en hún varð fyrir slæmu einelti þar sem hún bjó sem barn. Eins og algengt var í þá daga var öllu sópað undir teppið í stað þess að taka á vandamálinu í skólanum og heima fyrir.
„Eftir það þá átti ég mjög erfitt uppdráttar, ég var mjög félagslega einangruð og hugsa að ég hafi alltaf leitað í mat sem huggun sama hvað það var,“ segir Karen. Draugar fortíðar hennar eltu hana á fullorðinsárunum, auk vandamála í hjónabandinu leið henni illa í vinnunni.
Reis upp úr fórnarlambshlutverkinu
Karen segir að líkami hennar hafi lengi verið eins og hálfgert jójó. Stundum náði hún af sér 10 til 15 kílóum en bætti þeim þó alltaf aftur á sig.
„Þetta er búin að vera lífslöng barátta hjá mér en ég hef samt aldrei tekið þátt í neinum af þessum tískukúrum því í raun hafði ég aldrei nægilega mikla trú á sjálfa mig hérna áður fyrr til þess að prufa. Ég var vön að tala mig það mikið niður að ég myndi hvort eð er aldrei geta þetta.“
Þegar Karen fór að vinna í sjálfri sér efldist sjálfstraustið og hlutirnir fóru að gerast. Hún segist hafa komist að því að hún hefði verið í fórnarlambshlutverki allt sitt líf.
„Það var allt öllum öðrum að kenna og ég þurfti sko ekki að taka neina ábyrgð því þetta var nú allt bara vegna þess að fólk var svo vont við mig. Í raun og veru var það ég sem var minn versti óvinur því ég var sú eina sem var að setja hömlur á sjálfa mig og sú sem dæmdi mig hvað harðast. Á þessum tímapunkti hófst gífurleg sjálfsvinna, ég byrjaði að lesa mér til um „Law of Attraction“. Svo gaf vinkona mín mér bókina Lífsreglurnar fjórar í afmælisgjöf sem í raun opnaði huga minn upp á gátt en ég mæli eindregið með henni fyrir alla, stóra sem smáa. Ég hefði samt aldrei náð þessum árangri í þessari vinnu ef það væri ekki fyrir bestu vinkonu mína. Hún er akkerið mitt og í raun gaf mér ekki færi á því að gefast upp þó að ég hafi gert tilraunir til þess oft og mörgum sinnum. Sem betur fer þá komst ég yfir þennan ósýnilega hól og um leið og mér byrjaði að líða betur þá byrjuðu kílóin að renna af jafnvel þó að ég hafi ekki verið á fullu í ræktinni á þessum tíma.“
Breytti lífsstílnum
Fimm ár eru síðan Karen fór að léttast hægt og rólega. Auk þess að fara í gífurlega mikla sjálfsvinnu breytti hún ýmsu öðru í lífsstílnum.
„Ég byrjaði á því fyrst að minnka skammtana mína en ég borða allan mat og hef ekki verið að banna mér neitt þó svo að ég reyni hiklaust að velja hollari kosti. Ég hef tekið út nánast allt nammi þó svo maður leyfir sér stundum. Ég hef fundið fyrir því að ef ég banna mér eitthvað þá á ég miklu frekar til að falla.
Ég hef alltaf reynt að fara í ræktina þó svo að ég hafi líka, líkt og margir aðrir, verið að styrkja líkamsræktarstöðvar á landinu án þess að mæta. Ég viðurkenni að ég hef verið mun duglegri núna í seinni tíð en hugsa nú líka að hérna áður fyrr hafi það verið að hluta til skömm eða feimni sem hélt mér frá líkamsrækt. Þegar manni líður illa með sjálfan sig finnst manni allir vera að fylgjast með manni þegar maður er í ræktinni.“
Er breytt manneskja
Karen finnur mikinn mun á sér í dag og áður en hún byrjaði að breyta lífsstílnum.
„Ég finn mikinn mun á líkamanum en ég var alltaf með þráláta bakverki sem hafa minnkað til muna þó að þeir séu nú ekki alveg farnir en það eru mun fleiri betri dagar en voru áður. Annar stór munur sem ég hef fundið er að það er auðveldara að vakna á morgnana, ég breyttist hreinlega úr 100% B-manneskju í 100% A-manneskju.
Ég er mun hamingjusamari í dag en ég var áður, sérstaklega eftir að ég lærði það að ég er nokkuð mögnuð mannvera og að ég hef fullt fram að bjóða. Það er svo magnað að þegar maður fer að taka ábyrgð á eigin lífi og líðan einhvern veginn verður allt auðveldara. Auðvitað eru dagar sem eru erfiðari en aðrir en með jákvæðu hugarfari eru manni flestir vegir færir.
Ég finn að eftir að ég tileinkaði mér jákvæðari hugsun er lífið mun skemmtilegra. Ég er mun tilbúnari að fara út fyrir kassann og að koma mér á framfæri því ég er ekki eins hrædd við höfnun og hérna áður fyrr.“
Karen hefur náð ótrúlegum árangri á síðustu árum og þá ekki aðeins þegar kemur að líkamlegu hliðinni heldur andlegu hliðinni líka. Hún ætlar sér þó enn lengra en segist aldrei hafa verið eins nálægt markmiði sínu en akkúrat núna.
„Ég á eftir að missa um það bil 10-15 kíló. Svo þegar því er náð þá er bara að setja sér fleiri góð markmið og hef ég þegar sett mér það markmið að hlaupa hálfmaraþon árið sem ég verð fertug,“ segir Karen að lokum, sjálfstraustið uppmálað.