Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, markþjálfi og doktor í matvælafræði, er lifandi sönnun þess að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Doktor Siggú, eins og hún kallar sig, setti sér markmið fyrir tíu árum að verða doktor, eignast þrjú börn, eignast einbýlishús, öðlast hugarró og komast í gott form. Í dag hefur hún náð öllum þessum markmiðum og ekki vegna þess að hún fæddist með silfurskeið í munninum. Siggú náði markmiðum sínum með þrautseigju og ákveðni.
„Ég er alkóhólisti og búin að vera edrú í 15 ár. Þegar ég varð edrú þá byrjaði ég að lifa lífinu má segja og ég byrjaði í háskólanum,“ segir Siggú þegar blaðamaður hringir í hana dimman desembermorgun og spyr hvernig allt byrjaði.
„Ég hef alltaf verið í sjálfshjálparfræðum. Ég byrjaði að lesa Brian Tracy og fylgjast með Tony Robbins þegar ég var yngri. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að það væri allt hægt ef viljinn væri fyrir hendi. Ég ákvað að sannreyna þetta með því að verða doktor. Mér fannst ég ekkert vera rosalega klár, ég upplifði mig ekki sem einhvern svaka doktor. En ég hugsaði bara það er allt hægt og af hverju ekki ég? Þess vegna fór ég í þessa vegferð að verða doktor.“
Siggú bjó sér til draumakort (e. vision board) fyrir 11 árum, þá þrítug. Hún límdi myndir á kortið sem táknuðu allt sem hún vildi áorka og náði hún öllum markmiðunum sem voru á draumakortinu á aðeins tíu árum.
„Núna er ég komin á þann stað að ég er búin að ná þessum markmiðum. Ég er orðin doktor, búin að eignast þrjú börn, búin að kaupa mér einbýlishúsið og koma mér í þetta geggjaða form fertug, auk þess sem ég tók þátt í fitness. Ég notaði fitnessið sem hvatningu til þess að koma mér í geggjað form.“
Jákvæðnin streymir frá Siggú þar sem hún situr hinum megin á símalínunni í einbýlishúsinu sem hún sá svo lengi fyrir sér. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig hún fór eiginlega að þessu öllu, af hverju hún gafst hreinlega ekki bara upp.
„Þetta er bara spurning um að taka ákvörðun. Þetta er eitthvað sem ég vil, punktur. Eina leiðin til að mistakast er að hætta við eða gefast upp,“ segir Siggú og þegar hún er minnt á að það sé auðvelt að gefast upp stendur ekki á svörum. „Þetta er bara spurning um að temja sér sjálfsaga og þrautseigju. Þetta er allt í hausnum á okkur. Ég á nokkrar bækur þar sem ég skrifa niður markmið. Það sem ég geri er að ég skrifa allt niður í nútíð. Eins og ég sé búin að ná markmiðinu. Ég er í geggjuðu formi, ég er doktor svo dæmi sé tekið. Ég teikna líka myndir sem tákna myndir af því sem mig langar í.“
Siggú bætir því við að hún sé dugleg, skipulögð og hugrökk. Hún hefur tamið sér að fara út fyrir vellíðunarrammann í lífinu. Hún segir það lykilatriði að setja sér markmið, að vita hvert maður stefnir. Ef fólk veit ekki hvert það vill fara þá endar það bara einhvers staðar sem það sá ekki fyrir, og oftar en ekki á stað sem það raunverulega vill ekki vera á.
Að sögn Siggúar þýðir ekki að segja: „Ég ætla borða hollt fæði og hreyfa mig mikið.“ Fólk á það til að hamast í nokkra daga en dettur svo í gamla farið. Að sögn hennar þarf fólk fyrst og fremst að ná tökunum á hugsun og tilfinningum. Það þarf að breyta gömlu hugsanamunstri í nýjar og jákvæðari hugsanir.
„Það er hægt að þjálfa upp jákvæða hugsun alveg eins og maður þjálfar líkamann til að vera sterkari,“ segir Siggú sem leggur mikla áherslu á andlega heilsu og segir grundvallaratriði að hafa hana góða til þess að hægt sé að ná árangri á öðrum sviðum lífsins. Sjálf hugleiðir Siggú daglega og hefur samið og flutt nokkrar leiddar hugleiðslur.
„Leiddar hugleiðslur eru frábærar til að hjálpa fólki sem er óvant því að hugleiða til að komast í þetta yndislega slökunar vellíðunarástand sem hugleiðslan gefur,“ segir Siggú og bendir á að það sé hægt að nálgast margar leiddar hugleiðslur á Youtube.
Sjálf hefur Siggú farið úr því að vera í yfirþyngd yfir í það að keppa í fitness. Hún grenntist um 20 kíló og hefur viðhaldið kjörþyngdinni í þrjú ár. Eftir að Siggú eignaðist þrjú börn með stuttu millibili var komið að því að klára það markmið að komast í gott form.
„Ég var komin í yfirþyngd, þyngdist mikið í kringum barneignir. Ég hef alltaf verið þybbin nema í kringum tvítugt þegar ég var í talsverðu rugli. Ég var bara komin með ógeð á því. Ég nennti ekki að vera þybbin, ég nennti ekki að vera í yfirþyngd. Mig langaði að vera grönn og létt á mér. Mig langaði líka að vera skvísa. Mig langaði að upplifa mig kynþokkafullla á ný. Ég var alveg hætt að upplifa mig kynþokkafulla. Mér finnst það vera réttur kvenna og karla að upplifa sig kynþokkafull af því við erum kynverur. Að sjálfsögðu er fullt af fólki kynþokkafullt þó að það sé í yfirþyngd. Það er ekki málið. Það er viðhorfið sem maður hefur gagnvart sjálfum sér sem er það sem skiptir máli.“
Á vefsíðunni Betri lífsstíll býður Siggú upp á sex vikna einstaklingsmiðaða lífstílsþjálfun fyrir fólk sem vill breyta um lífsstíl og léttast varanlega. Þar nýtir hún bæði menntun sína og eigin reynslu. Hún segir að enginn sé eins og einhver annar og því ekki hægt að láta alla borða það sama eða senda alla á eins æfingar. Því sérhannar Siggú lífstílsplön fyrir hvern einstakling sem kemur í þjálfun. Hún framkvæmir einnig mælingar, er með persónulega ráðgjöf, markþjálfun, hvatningarefni og notar leiddar hugleiðslur í þjálfuninni.
Siggú er einnig að skipuleggja námskeið fyrir mæður sem hún nefnir Útgeislun & kynþokki þar sem lögð verður áhersla á að finna kynþokkann aftur. Segir hún að margar konur séu í þeim sporum sem hún var í, að gleyma sjálfri sér í uppeldi og vinnu og eru hættar að upplifa sig kynþokkafullar. Siggú segir kynþokkann koma innan frá.
Dr. Siggú er mjög virk á Instagram þar sem hún kallar sig dr.siggu.coach. Þar blandar hún saman andlegum málefnum, lífsstílspælingum og kynþokkafullri ímynd sinni. Hún er einnig með síðu á Facebook sem nefnist Dr. Siggú.
Margt fólk setur sér áramótaheit og markmið fyrir nýtt ár í lok árs. Siggú hefur gengið vel að ná markmiðum sínum en segir ekki svo vitlaust að setja sér markmið fyrir hvert og eitt ár sem og fyrir næstu fimm og tíu ár. Þrátt fyrir að hún hafi náð þeim markmiðum sem hún setti sér fyrir tíu árum er hún ekki komin á endastöð.
„Málið er að það er ekkert lokatakmark. Þú ert aldrei búin. Þú ert aldrei komin upp á fjallstindinn og ætlar bara að vera þar. Þetta er stöðugt ferðalag og galdurinn er að njóta ferðalagsins. Það er list að njóta og við þurfum að læra það. Það er í rauninni tilgangurinn með lífinu, að njóta og skapa.“
Nú er Siggú meðal annars með það markmið að vinna fyrir sjálfa sig og við það sem hún elskar, að hjálpa öðru fólki að ná árangri. Siggú vann að doktorsverkefni sínu hjá Matís og var komin í flotta stöðu á hugréttarsviði hjá Matís og í lögfræðinám kostað af stofnuninni. Maðurinn hennar var heimavinnandi og sinnti börnum og búi á meðan hún stefndi hraðbyri á mikinn frama í atvinnulífinu. Fótunum var hins vegar kippt undan Siggú einn daginn þegar hún var í sumarfríi. Hún var kölluð inn og sagt upp ásamt nokkrum öðrum vegna fjárhagserfiðleika.
„Ég kom heim til mín og gekk inn í húsið og var með ákveðna tómleikatilfinningu en það var brjálæðislega gott að koma heim og finna að þetta allt var mitt og það gæti enginn tekið það frá mér. Þetta var sérstök upplifun og í rauninni algjört áfall að missa vinnuna á þennan hátt. Eftir þetta fór ég að hugsa: „Hvað vil ég gera? Er ég að fara sækja aftur um vísindastöðu eða fara í hugréttarmál? Á ég að athuga með stöðu við háskólann?“ Ég fann mjög sterkt að ég var ekki þar sem ég vildi. Mig langaði að gera eitthvað allt annað. Ég áttaði mig á að mig langaði að hjálpa öðru fólki að ná þessum árangri sem ég hef náð.“
Nú rúmlega tveimur árum eftir uppsögnina er enn einn draumur Siggúar að verða að veruleika með vefsíðunni Betri lífsstíl. Getur hún þakkað réttu hugarfari, dugnaði og hugrekki að draumurinn er að rætast.
„Þetta er það sem mig langar að gera núna og þá mun ég gera allt sem þarf til þess að klára það mál. Ég er ekki uppi á neinum tindi með hús og þrjú börn og allt klappað og klárt. Núna líður mér meira eins og ég sé að byrja. Það er svo margt spennandi fram undan,“ segir Siggú að lokum.
Siggú talaði um áföll sín og sigra af yfirvegum og óbilandi jákvæðni. Eitthvað sem bæði lífið og andleg iðkun kenndi henni. Blaðamaður kveður Siggú þennan desembermorgun með meiri trú en oft áður um að markmið komandi árs og áratugar eigi eftir að rætast.