Frestun getur leitt til kvíða og þunglyndis

Finnur þú fyrir frestunaráráttu?
Finnur þú fyrir frestunaráráttu? Mynd/Erwan Sulistiyo

„Frestunarárátta; hvað er það nákvæmlega og hvernig byrjar slík árátta? Veist þú hverju þú frestar sem bitnar á heilsu þinni? Er það ræktin í næsta mánuði, eða byrja að borða hollar í þarnæsta mánuði og svo framvegis? Við byrjum oftast á því að fresta einum „litlum hlut“ og smátt og smátt fjölgar þessum litlu hlutum og áður en maður veit af er hugurinn enn á fyrsta reikningnum sem var ekki borgaður, tímaskýrslunni, ræktinni sem maður er áskrifandi að fjárhagslega en ekki líkamlega, ritgerðinni sem þarf að skrifa og svo næst eru það lyfin sem voru ekki sótt í apótekið og svo framvegis,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur í sínum nýjasta pistli: 

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.

Þegar einstaklingar eru farnir að missa yfirsýn yfir það sem hefur verið frestað þá getur það orðið að leiðinlegum vítahring verkkvíða og frestunar. Lífið stoppar því miður ekki á meðan við erum að ákveða hvenær við ætlum að byrja hugsa um heilsuna okkar eða klára BA-ritgerðina.

Í hvert skipti sem við frestum einhverju sem er okkur gagnlegt og mikilvægt þá erum við að svíkja okkur sjálf. Oft og tíðum bitnar þetta líka á öðrum í kringum okkur og þá erum við farin að svíkja þá líka. Ef það gerist ítrekað þá brotnar eitthvað innra með okkur og vanlíðan kemur inn sem hliðarverkun. Þetta eitrar svo út frá sér og sjálfstraustið hlýtur einnig hnekki því að við verðum fyrir vonbrigðum með okkur sjálf.

Enn fremur getur þetta farið að bitna á enn fleirum í kringum okkur því að vanlíðan reynir alltaf að troða sér upp á yfirborðið með einum eða öðrum hætti. Vanlíðan getur brotist fram í að við verðum stutt í spuna eða jafnvel reið við annað fólk.

Þegar þetta ástand hefur varað lengi þá getur depurð komið í kjölfarið. Allt í einu eru þessir nokkrir hlutir sem voru bara þrír í byrjun orðnir 10 og þá getur lífið allt í einu orðið svo yfirþyrmandi að það lamar í stað þess að vera hvetjandi. Þunglyndi hangir mjög oft saman við frestun verkefna.

Það fresta allir einhverju, en á meðan það er ekki að bitna á fjárhagnum, fólkinu þínu, heilsunni þinni eða tímanum þínum er það svo sem í lagi. En ef það er að bitna á einhverju af þessu þá er það orðið vandamál.

En hvað er til ráða?

Fyrsta skrefið er að vera meðvitaður um hverju þú ert að fresta og hvaða áhrif það er að hafa á líf þitt. Meðvitund skapar breytingar.

Í öðru lagi getur þú skrifað niður allt það sem veldur þér hugarangri og þú veist að þarfnast tíma og athygli þinnar. Þetta getur verið erfitt en um leið og þú horfist í augu við ótta þinn þá missir hann vald sitt. Hlutirnir eru líka oftast miklu stærri uppi í höfðinu á þér en á blaði.

Í þriðja lagi þá þarf að fara yfir listann og byrja á auðveldasta verkefninu. Í kjölfarið getur þú byrjað að vinna þig þannig upp að erfiðari verkefnum. Aðgerðir slá á kvíðann og vanlíðan og auka sjálfstraust og gleði þegar þú ert komin/n í gang.

Trúðu mér að þegar þú ert búin/n með listann þá verður þungu fargi af þér létt og þú getur farið að einbeita þér að hlutum sem skipta meira máli í þínu lífi en einhver tímaskýrsla, rækt eða aðferðafræðikafli.

Ef þér fallast enn hendur leitaðu þér þá hjálpar, því að byrja er oft erfiðast. Taktu ákvörðun núna að hætta að fresta og taka til verka.  

Ef þér liggur eitthvað á hjarta getur þú sent fyrirspurn HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda