Heilsa Hönnu Þóru tók stakkaskiptum á ketó

Hanna Þóra Helgadóttir byrjaði á ketó árið 2018.
Hanna Þóra Helgadóttir byrjaði á ketó árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hanna Þóra Helgadóttir er flugfreyja hjá Icelandair en í frítíma sínum veit hún ekkert skemmtilegra en að búa til nýjar góðar ketóuppskriftir. Hanna Þóra breytti um mataræði fyrir 16 mánuðum en áður en hún byrjaði á ketó var hún að bugast vegna orkuleysis og blóðleysis. Auk þess voru aukakílóin farin að trufla hana. „Ég fann að það var kominn tími til að breyta til,“ segir Hanna Þóra breyttan lífsstíl. 

„Þegar ég byrjaði á þessu mataræði ákvað ég að gefa þessu 21 dag til þess að ákveða hvort þetta væri eitthvað sem ætti við mig. Eftir þann tíma fann ég svo sannarlega þessa tilfinningu sem ég finn enn þann dag í dag. Sú tilfinning að vilja halda mínu striki áfram í ketósu. Þetta verður bara auðveldara þegar líður á og ég hef algjörlega náð að finna staðgengil fyrir þá matvöru sem ég saknaði í upphafi. Maður lærir að lesa næringargildi matvara og átta sig hreinlega á því hvað maður er að innbyrða,“ segir Hanna Þóra.

Hanna Þóra finnur mun á líðan sinni eftir að hún …
Hanna Þóra finnur mun á líðan sinni eftir að hún byrjaði á ketó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkamleg og andleg heilsa batnaði 

Árangurinn lét ekki á sér standa hjá Hönnu Þóru. 

„Síðan ég byrjaði á ketó hef ég misst 17 kíló en það sem hefur komið mér mest á óvart er að bæði andleg og líkamleg heilsa hefur tekið stakkaskiptum. Ég finn ekki lengur fyrir blóðleysi og einnig sef ég mun betur.“ 

Hanna Þóra hafði prófað aðra „kúra“ en ekkert virkaði jafn vel og ketó. Á ketó getur hún borðað allt sem henni finnst gott.

„Ég hafði prófað danska kúrinn fyrir nokkrum árum og á tímabili var ég mikið að telja kaloríur. Það sem ketó hefur umfram annað mataræði er að allur maturinn sem má borða á ketó er sá matur sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Steik og bernaise og ég er alsæl,“ segir Hanna Þóra og segist vera með það mottó að borða einungis góðan mat. Það gerir hún svo sannarlega á ketó.

Fann ástríðu sína á ketó

„Sá munur sem ég finn mest fyrir er öll orkan sem fylgir þessu mataræði og blóðleysið heyrir sögunni til. Áður en ég byrjaði á ketó var ég hreinlega orðin frekar þung á mér og hafði verið í miklum vandræðum vegna blóðleysis með tilheyrandi orkuleysi og vanlíðan. 

Bara það að þetta mataræði haldi blóðinu í jafnvægi er nóg fyrir mig til að vilja halda áfram. Ég er að þessu fyrir heilsuna og kílóin eru aukaatriði en jú vissulega er munur að vera léttari og líða betur í eigin skinni.“

Með fram því sem orkan jókst hjá Hönnu Þóru fór hún að hreyfa sig meira. Hún hefur mætt í líkamsrækt í heitum sal í World Class síðan í haust. Hún segir einnig skapandi hugsun hafa aukist. Það sést einna best á Instagram-síðu hennar þar sem hún deilir girnilegum ketó-uppskriftum. Segist Hanna Þóra hafa fundið ástríðu sína í að búa til góðar uppskriftir og deila með öðrum.

Hanna Þóra býr reglulega til hökkkex og múslí.
Hanna Þóra býr reglulega til hökkkex og múslí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hennar uppáhaldsmatur er heimagerðir Buffalo-kjúklingavængir sem hún segir hrikalega góða og afar fljótlega. Hún segist einnig baka ketó-hrökkkex í hverri viku og búa til ketó-múslí sem hún setur yfir grískt jógúrt.

Gott að vera tilbúin þegar svengdin bankar upp á

Það getur reynst erfitt að vera á sérstöku mataræði þegar hátíðarhöld eru annars vegar. Helga Þóra segir þó að jólin 2019 hafi verið auðveldari en jólin þar áður.

„Jólin 2019 voru mun minna mál en árið á undan en jólin 2018 var ég meira að upplifa þá tilfinningu að vera að missa af einhverju af því ég var að sleppa einhverju sem var kolvetnaríkt. Núna um jólin var ég mun rólegri yfir þessu öllu og hélt mínu striki öll jólin enda algjörlega búin að átta mig á því að það mataræði sem lætur mér líða vel kemur einnig til með að hringja inn jólin með mér. Ég bý bara til minn eigin jólaís og gotterí sem er sykurlaust og ketóvænt.“ 

Hanna Þóra er flugfreyja og er komin upp á lagið með að ferðast á ketó.

„Ég gisti erlendis að meðaltali þrisvar sinnum í mánuði og því skiptir máli að geta aðlagað sig því sem í boði er hverju sinni á hverjum áfangastað fyrir sig. Margir áfangastaðir hafa mjög spennandi matvöruverslanir og þá get ég verið heillengi að dunda mér við að skoða allskonar vörur og fá innblástur fyrir nýjar uppskriftir til að setja inn á Instagram og bloggið.

Það að vera með smávegis nesti sem hentar við höndina þegar svengdin bankar upp á er að mínu mati eitt af því mikilvægasta þegar kemur að ketómataræðinu. Það er svo auðvelt að detta í sukkið á þessum tímapunkti dagsins þegar maður er svangur og ómögulegur.“

Hanna Þóra nýtur þess að búa til uppskriftir í eldhúsinu …
Hanna Þóra nýtur þess að búa til uppskriftir í eldhúsinu heima hjá sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er ketó fyrir alla?

„Við erum alls ekki öll eins og það sem hentar einum hentar alls ekki öðrum. Við þurfum öll að bera ábyrgð á okkar eigin heilsu og vellíðan og hollt mataræði getur skipt sköpum þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Það þurfa allir að finna hvað hentar þeim og þeirra líkama en maður veit ekki nema prófa.

Þeir sem vilja prófa eiga ekki að hika við það og gefa þessu 21 dag með góðri samvisku og sjá hvernig þeim líður eftir þann tíma. Hverju höfum við að tapa?“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda