Alma Geirdal fékk brjóstakrabbamein og læknaðist af því og var heilsuhraust í tvö ár eða þangað til hún greindist aftur og nú krabbameinið búið að dreifa sér. Hún sagði sögu sína í Mannlífi sem kom út í dag.
„Mér líður ekkert rosalega vel í dag. Almennt er ég ótrúlega brött andlega, ég hef einhvern veginn náð að vera mjög jákvæð í gegnum þetta þó að ég sé raunsæ,“ segir Alma. „En líkamlega líður mér ekki vel, ég fór í aðgerð í desember og er að jafna mig eftir hana, þá lamaðist smágirnið í mér. Og í morgun fékk ég þær fréttir að meinið hefði stækkað. Í dag er krabbameinið búið að dreifa sér milli vöðva á svæðinu þar sem vinstra brjóstið var, tvö mein eru í hægra lunga og eitt í holhönd. Þetta er fjölgun á æxlum á sex vikum, þannig að andlega hliðin er ekki mjög sterk í dag. Líkamlega líður mér aldrei vel, eftir að þetta ferli hófst, þessi önnur atrenna,“ segir Alma í samtali við Mannlíf.
Hún greinir frá því að hún sá á mjög sterkum lyfjum.
„Ég er á sterkum lyfjum sem hjálpa gegn sársauka, en ég á aldrei verkjalausa mínútu. Ég er aldrei undir fimm, og yfir daginn er ég svona milli sex og átta,“ segir hún og vísar þar í fyrrnefndan mælikvarða. „Svo bættist þessi aðgerð við, ég er með stóran skurð eftir hana, 18 spor bara á maganum. Ég hef verið með æxli í bringunni á milli brjóstvöðva, það hefur verið að stríða mér og meiðir mig mikið núna.“