Þarmarnir eru alls ekki eins og Las Vegas

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

„„Til er orðatiltæki í Bandaríkjunum sem segir: „Það sem gerist í Vegas fer ekki út fyrir Vegas.“

Þegar ítalski meltingarsérfræðingurinn Alessio Fasano, sem nú starfar við Mass General-barnasjúkrahúsið í Boston og kennir barnalækningar við læknadeild Harvard, heldur fyrirlestra segir hann hins vegar gjarnan: „Hið sama á ekki við um þarmana og Vegas, því það sem gerist í þörmunum fer út fyrir þá.“

Með því er hann að vísa til þess að ef þarmar okkar eru lekir eða gegndræpir síast matur, bakteríur og ýmislegt annað sem komið hefur inn í líkama okkar út í gegnum þarmaveggina og út í blóðið og fer á flakk um líkamann,“ segir Guðrún Bergmann í sínum nýjasta pistli: 

Frumkvöðull í rannsóknum á glútenóþoli

Fasano er hrífandi fyrirlesari sem leggur hjarta sitt í það sem hann er að gera. Hann er í dag í fremstu röð í heiminum í rannsóknum á glútenóþoli og áhrifum glútens á þarmana. Árið 1996 stofnaði hann The Center for Celiac Research, en þar fara fram rannsóknir, byggðar á klínískri tækni, og kennsla í greiningu, meðferð og leiðum til að koma í veg fyrir sjúkdóma sem rekja má til glútens, þar á meðal glútenóþol (celiac disease), glútennæmi (non-celiac gluten sensitivity) og hveitiofnæmi.

Fasano lærði barnalækningar í Napólí á Ítalíu, en þaðan var hann ráðinn til læknadeildar háskólans í Maryland árið 1993. Þar hóf hann fljótlega rannsóknir á glútenóþoli í börnum, þrátt fyrir nokkra andstöðu kollega sinna. Hann lét hana ekki draga úr sér kjarkinn og byltingarkenndar niðurstöður úr rannsóknum hans birtust árið 2003, en í þeim kom fram að einn af hverjum 133 Bandaríkjamönnum þjáist af sjálfsónæmissjúkdómum.

Þarmarnir eru helst ónæmisvörnin

Flestum þykir lítið til þarmanna koma, en þeir eru þó mun merkilegri en áður var talið. Þeir eru um sex metra langir og innan í þeim er fjöldinn allur af litlum totum, sem auka yfirborð þeirra svo þeir eigi auðveldara með upptöku á fæðunni sem við neytum. Ef þarmarnir væru teknir og ristir í sundur eftir endilöngu og strekktir út myndu þeir ná yfir heilan tennisvöll, en tennisvellir eru almennt 23,70 m á lengd og 8,25 m á breidd.

Fasano vísar gjarnan í fyrirlestrum sínum, eins og Hallgrímur heitinn Magnússon læknir gerði oft, til Hippókratesar, sem sagði árið 460 f. Krist að alla sjúkdóma mætti rekja til þarmanna! – og hann er ekki í vafa um að þarmarnir séu mikilvægasta líffæri líkamans, þar sem flókið vistkerfi starfar við að verja líkama okkar utanaðkomandi árásum. Komist hins vegar ójafnvægi á það vistkerfi er fjandinn laus.

Kenningar Hippókratesar

Þótt Hippókrates hafi verið með þessar kenningar sínar fyrir um 2.500 árum er ekki svo langt síðan nútímavísindi fóru að beina sjónum sínum að þörmunum og því hlutverki sem þeir gegna í heilsufari mannsins.

Þeir fyrstu til að uppgötva að þarmarnir mynduðu ekki heilan órofa vegg með ytra yfirborði sínu voru japanskir vísindamenn, sem voru að rannsaka Crohns-sjúkdóminn og orsakir hans.

Fram að þeim tíma hafði verið litið svo á að þarmaveggirnir væru svo þéttir að þeir hleyptu engu í gegnum sig og að meginhlutverk meltingarvegarins væri takmarkað við meltingu og upptöku á næringarefnum, vatni og rakakleyfum efnum.

Zonulín við stjórnvölinn

Frá því japönsku vísindamennirnir uppgötvuðu að þarmarnir virtust geta opnað hlið milli frumna í veggjum sínum og hleypt út um þau efnum út í blóðið og lokað þeim svo aftur leið nokkuð langur tími þar til frekari skýringar fundust. Það voru einmitt Fasano og hans teymi sem uppgötvuðu að boðefnið sem opnar og lokar hliðunum er zonulín.

Frekari rannsóknir Fasanos hafa svo leitt í ljós að meltingarvegurinn sinnir allt öðru og mun mikilvægara hlutverki en áður var talið. Þarmarnir eru í raun mikilvægasti tengiliður okkar við umhverfið og umhverfið er allt sem ofan í okkur fer. Varnarkerfi þarmanna er alltaf í gangi, því þeir eru sífellt að meta hvort það sem við borðum sé vinveitt eða óvinveitt líkamanum, svo hann geti viðhaldið jafnvægi á milli þols og óþols gagnvart utanaðkomandi mótefnavökum. 

Hlutverk Zonulíns

Hlutverk zonulíns er að opna hliðin sem eru á milli frumnanna í þarmaveggnum í skamma stund eða um 20 mínútur, hleypa ákveðnum efnum í gegn og loka svo. Sé hins vegar um leka þarma að ræða gliðnar þetta net í þarmaveggjunum og það myndast stærri op, sem hleypa í gegn próteinum eins og glúteni, ómeltum matarögnum, bakteríum og ýmsum eiturefnum, sem þá komast út í blóðið og leiða til ónæmissvörunar.

Við taka bólgur, fæðuóþol, vandamál tengd ónæmiskerfinu og að lokum sjálfsónæmi. Allt þetta veldur ofurálagi á kerfi líkamans, meðal annars á lifrina, sem reynir stöðugt að hreinsa þessi óhreinindi úr blóðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda