Matur sem getur haft áhrif á þunglyndi

Ljósmynd/Dan Gold/Unsplash

„Þunglyndi er oft og tíðum meðhöndlað með samtalsmeðferð eða lyfjum en mataræði er að auki einn mikilvægur þáttur sem getur haft veruleg áhrif á ekki eingöngu líkamlega heilsu heldur einnig geðheilsuna okkar,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Þrátt fyrir að það vanti fleiri rannsóknir á þessu sviði þá hafa einhverjar rannsóknir sýnt tengsl á milli mataræðis í formi forvarna gegn þunglyndi og hvernig mataræði getur dregið úr einkennum þunglyndis.

Bólgur í líkamanum hafa oft verið tengdar við krabbamein, hjartasjúkdóma og alzheimer en rannsakendur eru einnig byrjaðir að skoða hvernig bólgur hafa áhrif á þunglyndi.

Samkvæmt einni rannsókn getur ákveðið mataræði gefið heilanum þá næringu sem hann þarf til að draga úr líkum á þunglyndi og jafnvel meðhöndla einhver einkenni þunglyndis eftir að það er byrjað.

Að sjálfsögðu eru þættir sem er erfitt að stjórna líkt og gömul áföll eða erfðatengdir þættir en mataræði geturðu vel stjórnað og haft áhrif á.

Seratónín er boðefni sem hjálpar okkur að hafa stjórn á svefni, matarlyst, skapi og sársauka sem dæmi. Þetta boðefni er mjög háð því að meltingarvegur okkar starfi rétt.

Í rannsóknum hafa ólíkar tegundir af mataræði verið bornar saman með tilliti til áhrifa á andlega heilsu og það sem hefur verið að koma rosalega vel út er Miðjarðarhafsmataræðið. Einkenni þunglyndis minnkuðu verulega hjá þeim sem fóru á slíkt mataræði í samanburði við þá sem voru á vestrænu mataræði. Líkur á þunglyndi minnkuðu um 25-35% hjá þeim sem tileinkuðu sér Miðjarðarhafsmataræðið.

Rannsakendur telja að meginástæðan sé sú að Miðjarðarhafsmataræðið inniheldur mikið af hreinum mat án aukaefna. Meginuppistaðan í mataræðinu er grænmeti, ávextir, hnetur, fræ, kartöflur, heilhveiti, kryddjurtir, fiskmeti og extra ólífuolía. Þetta mataræði inniheldur auk þess mikið af ómega 3, sem talið er geta minnkað bólgur í líkamanum. Þar að auki eru kjötvörur og mjólkurvörur í mjög hóflegu magni. Unnar kjötvörur og sykur eru ekki hluti af mataræðinu.

Byrjaðu að veita því athygli hvernig matur hefur áhrif á líðan þína. Reyndu að borða hreinni mat með því að byrja að lágmarka unnar kjötvörur, mjólkurvörur, hvítt hveiti og sykur. Allt hjálpar og mundu að breytingar taka tíma. Ef þú borðar unna kjötvöru fjórum sinnum yfir vikuna og nærð að minnka það niður í þrjú skipti ertu strax á réttri leið. Það eru litlu skrefin sem skapa stóru breytingarnar á endanum.

Þú ættir að finna mun á þér fljótlega ef þú byrjar að taka til í mataræðinu. Það sem ég hef tekið sérstaklega eftir hjá þeim sem ég er með í heilsumarkþjálfun er að þegar einstaklingar byrja að borða hreinni matvöru og fara svo aftur út í „gamla mataræðið“ finna þeir skaðlegu áhrifin svo greinilega. Ég var t.d. með eina sem borðaði mikið af hvítu hveiti og mjólkurvörum, skipti því svo út fyrir grófara hveiti og kókosmjólk. Þegar hún ætlaði svo að „dekra“ við sig eftir að hafa borðað mjög hreint mataræði í mánuð með bakarísferð brást líkaminn við með magaverkjum og uppþembu.

Með því að tileinka þér hreinna mataræði bætirðu bæði líkamlega og andlega heilsu, fyrirbyggir sjúkdóma og hver þarf ekki á aukinni orku að halda í þessu hraða samfélagi sem við búum í?

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent fyrirspurn HÉR

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda