Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice Twenty four years, just waiting for a chance ...

Margir kannast við þetta textabrot með Smokie.

Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir miðaldra kona og fasteignasali í sínum nýjasta pistli

Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir 12 mánuði. Núna rúmum 3 árum síðar er ég loksins að komast í jafnvægi. Ég hef sagt það ítrekað að ef ég vissi að það myndi taka mig 3-5 ár að núllstilla mig og komast í jafnvægi þá hefði ég aldrei nennt í þess vegferð. Þetta hefði verið of mikil vinna, of miklar fórnir. Þegar ég lít til baka þá hafa þessi 3 ár liðið gífurlega hratt og ég er svo þakklát fyrir að hafa ekki vitað betur.

Hvaða máli skiptir það hvað þetta tekur langan tíma? Núna veit ég að þetta er ævilangt verkefni og ég nýt þess að fínstilla mig. Finna út hvað virkar og hvað virkar ekki. Fyrir mig snýst þetta um að njóta ferðarinnar (lærði það loksins). Þegar ég lít til baka þá tók það mig 20 ár að komast á þennan stað. Líklega er það frekar óraunhæft að ætlast til að geta lagað allt á 12 mánuðum.

Það voru 2 stórir áfangar hjá mér í vikunni.

Ég sá 68.9 kg á vigtinni. Í heila viku hef ég verið undir 70 kg sem bendir til þess að líkaminn sé farinn að samþykkja þessa tölu og sé kominn í ákveðið jafnvægi með hana. Ég hef ekki séð 68.x á vigtinni síðan 1999.

Ég kom gamla giftingarhringnum mínum upp. Hann var klipptur af mér þegar Viktor Logi var smábarn eða fyrir ca 18 árum og hann passaði aldrei aftur. Hvers vegna var hann klipptur af? Ég hafði sofnað með hann og vaknaði með þrútna fingur eins og svo oft áður. Nöglin var orðin blá og það var hjartsláttur í fingrinum. Þetta varð valið um að klippa hringinn af  fingrinum eða fórna fingrinum. Ég neitaði að láta stækka hann, ætlaði alltaf að passa aftur í hann. Fannst að ef ég myndi láta stækka hann þá væri ég að samþykkja nýjan veruleika sem ég var ekki tilbúin til að gera. Núna get ég ekki notað hringinn sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, hann er of stór. Margir spyrja sig núna, hvað ertu að dandalast með giftingarhringinn þinn, skildir þú ekki fyrir mörgum árum? Jú, ég skildi 2015 og ég er ekki eingöngu með minn, ég er með báða. Þegar þú skilur þá er augljóst að þessi hringur verður aldrei aftur notaður. Þessir hringar eiga hinsvegar spennandi framtíðarsýn. Þeir verða bræddir upp og endurgerðir í skartgrip fyrir dóttur okkar þegar hún eldist.

Borða túnfísk og skyr í öll mál og þyngjast

1998 fór ég í kerfisfræðinám. Þá var elsti sonur minn 2ja ára. Á meðgöngunni með hann þyngdist ég um 85 kg og það tók ca 2 ár að komast næstum því í sömu þyngd og ég var fyrir meðgöngu. Námið var krefjandi og stundum þurfti að læra frameftir. Ég var ekki alveg sú skipulagðasta með mataræði á þessum árum og fannst fínt að hlaupa yfir í Kringlunni og fá mér eitthvað snarl. Vinnuálag, lélegt mataræði og hreyfingarleysi skilaði því að ég þyngdist aðeins um veturinn, ekkert hættulegt svona 3-4 kíló en þarna var ég farin að nálgast 70 kílóin og ákvað að vinda ofan af þessu um sumarið. Fékk mér einkaþjálfara, var dugleg að mæta í ræktina og borðaði eftir hans plani sem í minningunni var skyr og túnfiskur. Um haustið hafði ég bætt á mig 4-5 kílóum og ég fór vel yfir 70 kíló. Það var ekki fyrr en í þessari viku að ég komst aftur undir 70 kíló. Í rúm 20 ár reyndi ég allskonar til að létta mig en það skilaði aldrei langtíma árangri. Ég ræddi þetta við einkaþjálfarann. Jú, vöðvar eru þyngri en fita, þetta kemur örugglega fljótlega. Mörgum árum seinna var ég hjá öðrum einkaþjálfara. Það fyrsta sem hann sagði var, „það er óeðlilegt hvað þú ert með framstæðan kvið, þú ert örugglega með mjólkuróþol. Ég myndi ráðleggja þér að fara í mælingu.“ Það kom á daginn að ég var með mjólkuróþol og borða skyr í öll mál var því líklega ekki það besta fyrir mig. Auðvitað hefði ég átt að vera með gagnrýna hugsun þetta sumar. Ég hefði átt að spyrja meira. Hvernig get ég þyngst um 5 kíló á einu sumri með því að gera allt rétt? Það þýðir samt ekkert að ergja sig á fortíðinni. Að horfa í baksýnisspegilinn er líklega ein versta nýting á tímanum sem ég veit um. Treystu mér, ég var sérfræðingur í því.

Vigtin er bara mælitæki

Mörgum finnst ég manísk með þessa vigt og þetta sé engan veginn heilbrigt en þetta er mín leið til að halda mér á tánum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hamingjan er ekki mæld í kílóum og ef ég væri eingöngu að einblína á útlitið þá væri ég fullkomlega sátt í eigin skinni.

Hins vegar er ég komin með allskonar markmið sem mig dreymdi ekki einu sinni um þegar ég lagði af stað í þessa vegferð mína. Fyrsta markmiðið sem ég náði var að klára 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu og ég var ekki einu sinni síðust. Þegar ég kom í mark áttaði ég mig á því að ég gæti svo miklu meira en mig grunaði. Þrautir eins og að hlaupa maraþon og fara í hálfan járnkarl (sem ég hélt alltaf að væri fyrir hina) var eitthvað sem ég var núna sannfærð að ég gæti. Eina sem ég þyrfti að gera væri að æfa mig og bæta mig.

Ég ætla að klára Landvættinn. Þetta eru 4 þrautir og að hlaupa 25 km utanvegahlaup reynir minna á liðina og ég fer hraðar ef ég er léttari.

Ég er með markmið að hlaupa 5 km undir 25 mínútum og 10 km undir 55 mínútum. Tölfræðin segir að ég bæti mig um 1 mínútu fyrir hver 2 kíló sem hverfa. Ég á best 29.19 í 5 km og 58.49 í 10 km. Merkilegt að ég náði mínum bestu 5 km fyrir stuttu. Eftir 2 mánuði með rólegri neföndun og betra mataræði náði ég mínu hraðasta 5 km hlaupi. Ætli það sé einhver tenging þarna?

Ég ætla að hlaupa Laugaveginn, klára hálfan járnkarl og hlaupa maraþon. Hvenær, ekki alveg meitlað í stein. Útafdottlu er pínu erfitt að tímasetja svona markmið. Hins vegar veit ég að þegar ég farin að hlaupa tugi kílómetra í einu þá skiptir hvert kíló máli. Ekki bara vegna þess að ég get hlaupið hraðar heldur líka vegna þess að það reynir minna á liðina. Ég er búin að hlaupa síðan ég var tæp 90 kíló þannig að ég veit þetta á eigin skinni.

Þessi markmið setja fókusinn á að komast í mjög gott form og ein afleiðing af því hjá mér er einfaldlega að vigtin sýnir lægri tölu. Í hvert skipti sem vigtin fer niður um kíló veit ég að það verður auðveldara fyrir mig að ná markmiðum mínum. Reyndar er það þannig að ég er alltaf miklu miklu lengur að fara niður í næsta tug en næsta kíló. Það er eins og líkaminn streitist á móti og vilji halda sér á þessum stað. Þessum stað sem hann þekkir og veit hvernig virkar.

70 kíló sálrænn þröskuldur

70 kíló hefur verið sálrænn þröskuldur hjá mér. Múrinn sem ég var eiginlega farin að selja mér að ég gæti líklega aldrei brotið.  Eftir að ég byrjaði að þyngjast, hef ég aldrei komist aftur undir 70 kg. Alveg sama hvað ég gerði þá var 70 kg ákveðinn múr sem ég náði ekki að brjóta. Ég hef verið 70 kg og þyngri síðan 1999. Þyngst varð ég 95 kíló 2017. Allt í einu sé ég að þetta er raunhæft að brjóta þennan múr en það tekur tíma og það er allt í lagi. Ég hef nægan tíma. Lífið er langhlaup ekki spretthlaup.

Það eru ekkert allir sammála mér og það er allt í lagi. Þetta eru mín markmið, mitt líf, mín heilsa og mín vegferð. Allir pistlar sem ég skrifa eru útfrá minni reynslu. Mér dytti aldrei í hug að segja að allir ættu að fara í X þyngd eða stunda þessa hreyfingu eða borða svona. Það er eins og að segja að allir ættu að keyra um á rauðum bíl.

„Þínir þrír pistlar sem ég hef lesið setja mikila áherslu á þyngd, tölu á vigtinni. Þessir þrír pistlar sem ég hef lesið kemur þú fram með þá hræðilegu framtíðarsýn að vera þung að eilífu og hvað það væri hræðilegt líf.“

Málið er einfalt. Ég þekki hvernig það er að vera of þung og hversu erfitt það var. Fyrir mér er það hræðileg framtíðarsýn og ég ætla ekki þangað aftur. Að vakna þrútin og koma ekki upp hringjum. Að vera svo stirð í öllum liðum að það er erfitt að fara framúr. Að senda börnin með vinum sínum og þeirra foreldrum í fjallgöngu af því að þú treystir þér ekki til að fara með þeim. Það brýtur pínu niður mömmuhjartað að geta ekki gert hluti sem foreldrar vina þeirra gera auðveldlega.

Vigtin er bara eitt af mörgum tækjum sem ég hef til að mæla árangur. Ég vigta mig daglega, sumir vikulega og aðrir aldrei. Það eru engar reglur hvað virkar. Trixið er að finna hvað virkar fyrir þig.

Ástandsmæling hjá Greenfit

Ég vil ekki fara aftur í gamla farið.Til að halda mér á mottunni þarf ég að passa mig, vera pínu manísk. Mér finnst það í góðu lagi. Mér líður vel svona. Ég er búin að læra að það eru rosalega margir litlir hlutir sem skila langtímaárangri og ég er stöðugt að gera tilraunir hvað virkar og hvað virkar ekki. Þetta árið ákvað ég að keppa ekki í neinum þrautum. Mig langar ekki að vera á stórum mannamótum og valdi frekar að fínstilla mig. Ég datt í lukkupottinn þegar Greenfit opnaði í sumar. Ég fór í ástandsmælingu hjá þeim og það kom ýmislegt í ljós sem var ekki nógu gott. Súrefnisupptakan mín er léleg (kom mér ekki á óvart). Það háir mér á æfingum þannig að ég er núna að hlaupa á lágum púls og nota netöndun til að bæta mig. Oft er ég aðeins út á túni með hvað ég er að gera þannig að ég á aðra skoðun bókaða í lok nóvember og þá sjáum við hvort að þessi tilraun mín hafi skilað einhverjum árangri eða hvort að ég þurfi að fínstilla mig ennþá meira. Ég hef nægan tíma, ég hef allt lífið til að fínstilla mig. Ég fór líka í blóðprufur hjá Greenfit og þar kom ýmislegt miður gott í ljós. Helst má nefna að kólesterolið var komið í 8 og fastandi blóðsykur í 5.7. Ég fór því á hreint mataræði og það kom í ljós að það hentar mér svo ansi vel. Eftir 5 vikur fór ég aftur í mælingu og þá var bæði kólesterol og blóðsykur búið að lækka. Sem aukabónus fóru líka 6 kíló á 2 mánuðum og ekki bara það heldur fór þau af þessum leiðindasvæðum sem er svo erfitt að semja við um að segja upp leigunni. Eina vandamálið við þetta er að öll fötin mín urðu óþægilega stór en það er allt í lagi. Það eru allir að vinna heima og þægilegar kósýbuxur svínvirka og svo eru allir með grímu úti þannig að það veit enginn hver er á bakvið þessa grímu lengur. Reyndar eru allir líkamshlutar ekki eins samvinnuþýðir. Ég var búin að gera óuppsegjanlegan þinglýstan leigusamning og þrívottaðan til öryggis við ákveðinn líkamshluta að það færi ekki meira af þessu svæði. Það er ekki hægt að stóla á neitt lengur. Hann minnkar eins og annað og ég segi bara, guðsélof fyrir Push Up og Victoria Secret.

Þegar kona fastar óvart

Þegar ég borða hreint þá líður mér betur. Líkaminn er í betra jafnvægi, ég sef betur og kvöldsnarlið heyrir sögunni til. Ég byrjaði líka óvart að fasta. Ég hef aldrei haft mikla trú á föstum og fundist þeir sem fasta pínu skrýtnir. Hver neitar sér sjálfviljugur um mat, skil þetta ekki. Ég er samt kurteis og smelli alltaf like hjá þeim. Þegar ég byrjaði að borða hreint þá datt út kvöldsnarlið mitt. Mig langaði ekki í það. Það gerði það að verkum að ég vaknaði aldrei sturluð af hungri á morgnana. Hef einmitt ekki heldur skilið skrýtna fólkið sem neitar sér um morgunmat. Það er jú mikilvægasta máltíð dagsins. Kærastinn sagði reglulega, það þarf að passa að fóðra ljónið á morgnana. Það sem gerðist eftir að kvöldsnarlið datt út var að ég vaknaði í miklu meira jafnvægi og var ekki svöng. Ég gat því farið út að æfa á morgnana (sumir kalla þetta á nóttunni, bara af því að ég vakna 04:45 am, ekki pikkvilla, í alvörunni fjögurfjörutíuogfimm), tekið gott hlaup og jafnvel styrkaræfingu og borðað svo milli 8 og 9. Þá er ég búin að fasta í 12-13 tíma og líður stórkostlega vel.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á ég ekki í Greenfit né fæ greitt fyrir að nefna þau í mínum bloggum. Ég er ekki heldur að selja nein námskeið hjá þeim. Hvers vegna tala ég þá svona mikið um þau? Það er algjörlega af sjálfhverfum ástæðum. Ég þarf á Greenfit að halda og því betur sem þeim gengur því auðveldara er mitt líf. Ég ætla að fara reglulega í test hjá þeim til að sjá gildin mín og finna leiðir til að besta mig og mína heilsu. Þarna segja margir, Ásdís þetta er svo dýrt, heildarskoðun kostar 60.000 kr. Ég veit og 60.000 er ansi mikill peningur til að punga út. Hins vegar þegar ég hugsa um öll fötin sem ég hef þurft að kaupa í gegnum tíðina þegar ég bætti á mig og svo fötin sem ég keypti þegar ég grenntist og svo fötin sem ég keypti þegar ég bætti aftur á mig þá eru það töluvert hærri upphæðir. Ég þurfti að losa mig við alla skó eftir að ég grenntist. Hvað meinar þú, minnkuðu fæturnir?. Já, um næstum því eina stærð. Þetta var samt ekkert Öskubuskudæmi. Ég lét hvorki taka af mér tá né hæl. Það sem gerðist hinsvegar þegar ég fitnaði þá þrútnuðu fæturnir og smátt og smátt stækkuðu skórnir á breiddina en ekki lengdina. Þegar ég grenntist þá minnkaði samhliða því þrotinn á fótunum og skórnir urðu alltof víðir. Það þarf ekki mörg skópör til að vinna upp þennan pening. Hvað þá þegar ég tel öll önnur föt sem ég þurfti að láta fara. Ég horfi á Greenfit sem fjárfestingu í minni heilsu og nauðsynlega viðbót við mitt líf.

Hausinn á þér hefur ekkert stækkað?

Ég komst í stúdentsdraktina mína um daginn og var sjúklega ánægð með það. Þetta er 31 árs gömul drakt og hún smellpassaði á mig. Ég hef alltaf geymt hana þar sem amma heitin saumaði hana og hún hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig. Reyndar komst ég líka í kjólfötin sem ég saumaði í MA og hef ekki heldur tímt að henda. Ég var að ræða þetta við Viktor Loga. Ég sagði, ég lánaði stúdentshúfuna mína um daginn og fékk hana til baka. Ákvað fyrst að ég var að ganga frá henni að prófa stúdentsdraktina mína og hún smellpassaði. Viktor leit á mig og sagði, „er það eitthvað merkilegt. Það er ekki eins og hausinn á þér hafi stækkað?“ Þá kom í ljós að 18 ára drengur veit ekkert hvað stúdentsdrakt er og setti þetta í samhengi við húfuna. Honum fannst það ógurlega ómerkilegt að móðir hans passaði ennþá í stúdentshúfuna 31 ári síðar.

Hljóðbækur

Önnur ástæða fyrir því að ég er svo dugleg að vísa á Greenfit er að þau eru sérfræðingar. Ég veit hvað virkar fyrir mig en ég get ekki ráðlegt þér hvað virkar fyrir þig. Þegar ég fer út að hlaupa eða ganga núna hlusta ég á hljóðbækur. Ég innbyrði bara hluta af því sem ég heyri. Ég nenni ekkert að taka af mér vettlinga á köldum morgnun til að spóla til baka en ég næ inntakinu og í hverri hljóðbók tek ég 1-2 hluti sem ég vil prófa fyrir mig. Ég var að ræða ákveðna hljóðbók við Lukku og hún sagði. „Þessi bók er svo stútfull af góðu efni að ég hlustaði 2var á hana til að missa ekki af neinu.“ Þess vegna vísa ég á Lukku, hún hlustar 2var á bækurnar sem skipta máli og getur því ráðlagt þér miklu betur en ég.

Bækur sem ég hef hlustað á upp á síðkastið og mæli með eru:

The Obesity Code: Dr.Jason Fung

Why we get sick: Benjamin Bikmann

Give and Take eftir Adam M. Grant

Originals: Adam Grant

The 5 Second Rule: Mel Robbins

Núna er ég að hlusta á Breath: James Nestor

Ef ég ætti að velja eina bók þá myndi ég byrja á Breath eða The Obesity Code

Ég held að lykilinn að góðri heilsu liggi hjá okkur og okkar ákvörðunum. Ég er ennþá að finna út úr því hvernig ég virka og hvað hentar og hvað hentar ekki. Ég sé sjálfa mig í golfi um nírætt.Mig langar að vera hressa amman sem fer út í fótbolta með barnabörnunum eða dreg þau upp á Esjuna í gönguferð. Hjóla í Elliðadalinn með nesti. Þetta er mín framtíðarsýn og þangað stefni ég einn dag í einu.

Lífið snýst um ákvarðanir. Við erum alltaf einni ákvörðun frá algjörlega breyttu lífi. Ég er búin að finna mína vegferð og hlakka til að sjá hvar ég verð eftir 3 ár.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram:

 

View this post on Instagram

... 'Cause for twenty four years I've been living next door to Alice Twenty four years, just waitin' for a chance ... Margir kannast við þetta textabrot með Smokie. Það hefur komið upp í huga mér ítrekað síðustu ár eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi. Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir 12 mánuði. Núna rúmum 3 árum síðar er ég loksins að komast í jafnvægi. Ég hef sagt það ítrekað að ef ég vissi að það myndi taka mig 3-5 ár að núllstilla mig og komast í jafnvægi þá hefði ég aldrei nennt í þess vegferð. Þetta hefði verið of mikil vinna, of miklar fórnir. Þegar ég lít til baka þá hafa þessi 3 ár liðið gífurlega hratt og ég er svo þakklát fyrir að hafa ekki vitað betur. Hvaða máli skiptir það hvað þetta tekur langan tíma? Núna veit ég að þetta er ævilangt verkefni og ég nýt þess að fínstilla mig. Finna út hvað virkar og hvað virkar ekki. Fyrir mig snýst þetta um að njóta ferðarinnar (lærði það loksins). Það voru 2 stórir áfangar hjá mér í dag. Ég sá 68.9 kg á vigtinni. Í 5 daga í röð hef ég verið undir 70 kg sem bendir til þess að líkaminn sé farin að samþykkja þessa vigt og komin í ákveðið jafnvægi með hana. Ég hef ekki séð 68.x á vigtinni síðan 1999. Ég kom gamla giftingarhringnum mínum upp. Hann var klipptur af mér þegar Viktor var ungabarn fyrir ca 18 árum og hann passaði aldrei aftur. Ég neitaði að láta stækka hann, ætlaði alltaf að passa aftur í hann. Fannst að ef ég myndi láta stækka hann þá væri ég að samþykkja nýjan veruleika sem ég var ekki tilbúin til að gera. Núna get ég ekki notað hringinn sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, hann er of stór. Lífið snýst um ákvarðanir. Við erum alltaf einni ákvörðun frá algjörlega breyttu lífi. Ég er búin að finna mína vegferð og hlakka til að sjá hvar ég verð eftir 3 ár. #miðaldrakonan #baraeittlif #afþvíéggetþað

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Nov 9, 2020 at 2:26am PST

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda