„Mikið hefur mætt á höndum þínum sem af er ári. Sápa, þurrka, spritta. Versla í matinn. Sápa, þurrka, spritta. Bora í nef (já 91% viðurkennir að bora í nef). Sápa, þurrka, spritta. Opna dyr. Sápa, þurrka ...
Eftir þjösnaganginn er hætt við að einhverjir fingur séu farnir að taka á sig mynd Dauðadalseyðimerkurinnar, tala ekki um ef þú hefur viðkvæma húð. Handþvottur hreinsar hendurnar af veirum sé rétt að verki staðið en getur valdið sprungum og þurrki,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli:
Sprungin húð er sjaldan hættuleg en ferlega óþægileg. Húðin er alsett taugaendum sem skynja minnsta veikleika og senda skilaboð til heilans um að ekki sé allt með felldu. Líkamsskynjunarsvæðið í heilanum sem tekur á móti taugaboðum frá höndunum er stórt. Ef skynsvæðið fyrir búkinn væri á við Vestmannaeyjar væru hendurnar allt Ísland. Eða þar um bil. Það skýrir hvers vegna sár meiða meira á fingrum en búk.
Sápuþvottur og sýra
Tíður handþvottur veldur þurrki. Handþvottur hreinsar burt fitulagið af húðinni svo hún á erfiðara með að halda raka.
Tíður sápuþvottur getur einnig breytt sýrustigi húðarinnar og húðflóru. Þar sem það getur tekið húðina nokkra klukkutíma að ná réttu sýrustigi eftir sápuþvott er hætt við að ójafnvægi myndist í húðflórunni ef þú þværð þér nokkrum sinnum yfir daginn – með tilheyrandi þurrki eða bólgu.
En ekki viljum við hætta að þvo okkur. Hvað er þá til ráða?
Alvörustöff
Til að komast að því skoðaði ég vefsíðu amerískra húðsjúkdómalækna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, Mayo clinic og fleiri síður. Það er alltaf jafn áhugavert að rekast hvergi á þátt næringar.
Sem er áhugavert í sjálfu sér því hið hefðbundna vestræna mataræði skortir oft þau næringarefni sem húðin þarf til að halda góðu rakastigi. Húðin verður ekki til úr engu. Hún þarf sérstök næringarefni til að starfa eðlilega. Ef við hugsum um ysta húðlagið sem múrsteinsvegg þar sem steinarnir eru frumur og sementið fituefni, þá þarftu gott byggingarefni til að veggurinn standi af sér veður og vind. Þú þarft alvörustöff.
Að finna eigin farveg
Ég þekki af eigin raun þurrsprungna fingur. Eftir að stúdera lífeðlisfræði og tilraunir hef ég ekki fengið slæman þurrk síðan ég tók til minna ráða (7-9-13). Húðin verður vissulega þurr á köflum en þá duga einföld ráð. Eins og með allt í þessu lífi erum við öll mismunandi og það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig – og öfugt. En það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú vilt prófa þig áfram með að auka raka í húðinni svo hendurnar megi verða mjúkar sem silki.
- A-vítamín sér til þess að frumurnar í ysta húðlaginu endurnýja sig eðlilega – að múrsteinsveggurinn sé reglulega húðaður. Skortur á A-vítamíni getur valdið því að sár gróa hægt og jafnvel ýtt undir exem. Þetta vítamín er fituleysanlegt og geymt í lifur, þannig að lifrarpylsa gefur þér góðan skammt. Gulrætur, paprika og sætar kartöflur gefa þér karótín, sem líkaminn getur nýtt að hluta til við að framleiða A-vítamín. Ensímið sem umbreytir karótínum í A-vítamín er þó mismunandi virkt milli manna.
- Ómega-3 er mikilvægur hlekkur í frumuhimnunni og múrsteinsvegg húðarinnar. Algengt er að fá ekki dagsþörf með vestrænum mat og því getur hjálpað að taka það sem fæðubótarefni. Ég mæli með kaldpressaðri úr sjávarríkinu því líkaminn á erfiðara með að nýta ómega úr jurtaríkinu. Ef þú ert á blóðþynningu þarftu að ráðfæra þig við lækni áður en þú tekur ómega-3 því hún getur þynnt blóðið enn frekar.
- Kollagen er meginuppistaða leðurhúðar sem einnig inniheldur hýalúrónsýru sem bindur vatn þúsundfalda þyngd sína. Sumir finna mun á húðinni eftir að taka kollagen og ég er þar á meðal.
- Seramíð. Ég tek reglulega astaxantín og seramíð sem eru mikilvægur hluti af sementinu sem heldur múrveggnum saman í ysta húðlaginu. Seramíð geturðu fengið með eggjum, sojabaunum og sætum kartöflum.
- Góðgerlar. Vísbendingar eru um að góðgerlar með Lactobacillus brevi og Lactobacillus plantarium geti aukið raka í húð eftir tólf vikna inntöku.
- Drekka tært vatn. Miðaðu við að þvagið sé ljósgult en ekki eins og dökkt öl. Ef þú drekkur kaffi eða alkóhól þarftu líklega meira, því það er þvaglosandi. Sama gildir um safa eða gosdrykki.
- Rakatæki getur hjálpað því þegar kalt er úti og við skrúfum upp ofna þá þornar loftið enn meira.
- Feitt rakakrem. Eftir handþvott skaltu bera á þig krem til að loka inni rakann í húðinni og koma í veg fyrir uppgufun. Ég er meira fyrir náttúruleg efni eins og sheasmjör sem virkar svipað og önnur feit krem sem oft er mælt með. Húðin er í raun eins og munnur og tekur upp efnin sem á hana eru borin.
- Hrein olía. Ef húðin er þurr getur hjálpað að bera olíu á húðina áður en þú ferð í bað eða sturtu til að gefa húðinni fitusýrur og koma í veg fyrir að hún tapi eigin fitusýrum við þvottinn. Eins geturðu borið olíu á húðina eftir sturtu. Gættu þess bara að olían innihaldi ekki aukefni eða ilmefni sem geta gert húðina enn þurrari.
- Stillum hitann í hóf. Í heitu vatni skolast fitan af húðinni eins og feiti í uppvaski. Því er best að hafa vatnið ekki of heitt og baða sig ekki lengur en fimm til tíu mínútur.
- Sápustykki þurrkar venjulega minna en fljótandi sápa sem inniheldur alls konar ilmefni og aukefni svo hún mygli ekki. Þessi efni geta verið ertandi og valdið þurrki.
- Tannín sem finnast m.a. í rauðvíni, svörtu og grænu tei og hýðinu á hnetum eins og möndlum og valhnetum er þekkt fyrir að þurrka húðina.
- Ávextir, grænmeti, hnetur án hýðis og fræ gefa þér mikið af steinefnum og næringarefnum fyrir húðina. Nú er góður tími til að elda heitar súpur úr grænmeti, baunum og jafnvel beinasoði til að fá amínósýrur fyrir kollagen.
- Ef þú gerir mataræðisbreytingar getur tekið tvo til þrjá mánuði að sjá árangur.
- Hanskar halda hita á fingrunum og sjá til þess að húðin fái blóðflæði og öll næringarefnin sem ég geri nú ráð fyrir að séu á leið til húðarinnar þinnar.
Nú vona ég bara að þú hafir tök á að dekra svolítið við húðina, til að þér líði sem best í eigin skinni og getir notið þess að þvo silkimjúkar hendurnar.