Hjólaði 500 kílómetra milli jóla og nýárs

Hjólakappinn Daði Hendricusson.
Hjólakappinn Daði Hendricusson. Ljósmynd/Aðsend

Daði Hendricusson er viðskiptafræðingur og Íslandsmeistari í hjólreiðum í meistaraflokki. Markmið hans fyrir árið 2021 er að verja Íslandsmeistartitilinn. Til þess að ná árangri og gera hreyfingu að lífsstíl segir hann gott að æfa með skemmtilegu fólki og með hvetjandi þjálfara. 

„Ég er með æfingaprógramm frá hjólreiðafélaginu Tindi sem innifelur 10 til 15 klukkustunda hjólreiðar á viku og nota það meðal annars þegar ég kenni hjólatíma í World Class. Eftir að Covid lokaði líkamsræktarstöðvum hef ég að mestu hjólað úti, en í versta vetrarverðrinu hjóla ég inni á „trainer“,“ segðir Daði um hvernig hann æfir. 

Daði segist ekki fylgja sérstöku matarprógrammi en reynir að borða holla og fjölbreytta fæðu. 

„Yfir jól borðum við ekki þennan saltaða og reykta mat sem belgir mann út heldur borðum við í staðinn kalkún, nautakjöt, rjúpur og humar. Kosturinn við mikið æfingaálag er að maður getur leyft sér meira í mat og drykk því maður brennir öllu jafn óðum. Það hjálpaði reyndar til að taka þátt í áskorun um að hjóla 500 kílómetra milli jóla og nýárs sem ég kláraði með glans. Maður vill samt alltaf ná meiri árangri og því ætla ég að taka aðeins til í mataræðinu eftir áramótin.“

Til þess að ná árangri er gott að setja sér markmið. Daði stefnir á að verja Íslandsmeistaratitil sinn í sínum flokki í hjólareiðum árið 2021.

„Til að viðhalda áhuganum er mikilvægt að hafa gaman af æfingunum en lykillinn þar er að æfa með skemmtilegu fólki. Eins er kostur að hafa þjálfara sem hvetur mann áfram, sem í mínu tilfelli er Thomas Skov Jensen.

Á margra ára ferli í þjálfun hef ég séð að helstu mistökin sem fólk gerir er að byrja of skarpt og gefst því fljótt upp. Það er mun vænlegra að setja sér raunhæf markmið í byrjun, en þannig er auðveldara að viðhalda áhuganum og smám saman tileinka sér nýjan lífsstíl,“ segir Daði. 

Daði segist alltaf hafa verið meðvitaður um heilsuna og í gegnum tíðina prófað margar mismunandi íþróttir. Hjólaáhuginn kviknaði þegar hann var að kenna spinning í World Class árið 2010. 

„Það leiddi til þess að ég var plataður í WOW Cyclothon-hjólakeppnina þar sem við unnum blandaða flokkinn. Eftir það varð ekki aftur snúið og hjólreiðar hafa átt hug minn allan. Markmið mitt fyrir 2021 er að verja Íslands- og bikarmeistaratitla mína í meistaraflokki götuhjólreiða, en samkeppnin er hörð og margir sterkir hjólarar að koma upp úr yngri flokkum.“

Daði er Íslandsmeistari í götuhjólreiðum.
Daði er Íslandsmeistari í götuhjólreiðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda