Sóley Dröfn Davíðsdóttir forstöðusálfræðingur Kvíðameðferðarstöðvarinnar var að gefa út bókina Náðu tökum á þyngdinni. Ólíkt mörgum bókum sem fjalla um sama efni nálgast Sóley efnið út frá hugarfari og breyttum venjum enda sérfræðingur í hugrænni atferlismeðferð.
Sóley ákvað að skrifa bókina þar sem hún segir eiginlega ekkert fjallað um hvernig sálfræðileg meðferð vegna ofþyngdar gengur fyrir sig. Í bókinni kynnir hún mikilvægasta vopnið í baráttunni við aukakílóin; mannshugann. Þetta vopn gleymist gjarnan að sögn Sóleyjar.
„Hugarfarið er ofboðslega mikilvægur þáttur í þessu. Næstum því öll megrunarúrræði ganga út á það að setja okkur einhverjar utanaðkomandi skorður. Að forðast kannski einhvern ákveðinn mat eða matarflokka og fylgja einhverju prógrammi eftir. Það virkar ágætlega á meðan þú hefur þessar utanaðkomandi skorður en um leið og þeim sleppir ertu sama manneskja og áður með sömu hugsanir, langanir og tilfinningar. Það sem þessi bók gengur út á er að taka þetta frá hinum endanum. Í stað þess að einbeita okkur að utanaðkomandi skorðum þá vinnum við þetta að innan. Hvernig get ég unnið með hugarfarið þannig að það eyðileggi ekki tilraunir mínar til að léttast? Það er oft talað um að það þurfi hugarfarsbreytingu til að grennast eða gera lífsstílsbreytingu en það fylgir ekki sögunni hvernig á að gera það.“
Sóley segir vissa eiginleika hafa valist úr hjá manninum og sé okkur eðlislægt að sækja í sæta og orkuríka fæðu og borða mikið þegar færi gefst þannig að við höfum varaforða til mögru tímanna. Fáar hömlur hafi þróast á áti enda gerðist þeirra ekki þörf á árum áður. Maðurinn á því í vanda í heimi allsnægta þar sem hann getur borðað eins og hann getur. Í þessu umhverfi gengur manninum oft erfiðlega að grennast og halda sér grönnum.
„Það má segja að ef maður öðlast innri stjórn skiptir minna máli hvers konar fæða er í boði eða hvað er um að vera. Þá nærðu að taka oftar réttar, heilsusamlegar ákvarðanir.“
Sóley mælir með því að forðast öfgar og setja sér frekar það markmið að gera vel í 80 prósentum tilfella. „Sumt höfum við vanið okkur á og stundum er þetta líka hugsunarleysi. Maður hefur kannski vanið sig á að borða ekki morgunmat og verður svo agalega svangur seinni partinn, drekkur of mikið gos eða eða hvað sem maður gerir sem kemur sér illa fyrir mann. Þannig að það þarf að taka þessar venjur til endurskoðunar. Það er merkilegt hvað við erum allt eða ekkert hvað varðar ofþyngd. Annaðhvort er ég í geðveiku átaki eða geri allt sem mér sýnist. Þá náum við aðeins tímabundnum árangri. Þannig erum við líka með hreyfingu; við erum öfgafull í hugsun og þar af leiðandi hegðun.“
Sóley mælir ekki endilega með ströngum megrunarkúrum þar sem hún segir ákveðið sveltiviðbragð ræsast þegar fæða verður af skornum skammti. Á megrunarkúrum hægir líkaminn á brennslu, hann tekst á við mataræði eins og um hungursneyð væri að ræða. Matarlyst stóreykst og ásókn í fæðu. Sóley segir sumt fólk ekki mega ekki hugsa til þess að fara í megrun og þá fer það að þyngjast. Það er betra ef fólk getur breytt venjum sínum smám saman.
Fólk notar stundum mat til þess að fást við líðan og þess vegna er sérkafli um líðan í bókinni. „Við notum stundum mat til þess að mæta þörfum okkar. Til dæmis ef ég finn fyrir einsemd eða mér leiðist þá gæti ég notað mat til þess að fylla upp í það, sem er ekki besta leiðin. Þess vegna er sálfræðimeðferð svo gagnleg, sérstaklega þegar um tilfinningaþætti er að ræða,“ segir Sóley og segir fólk þurfa að læra að bregðast öðruvísi við líðan sinni.
Hvað er fyrsta skrefið hjá okkur öllum?
„Það er að huga að smáatriðum daglegs lífs þar sem margt smátt gerir eitt stórt. Í staðinn fyrir öfgahugsun eins og að fara fimm sinnum í viku í ræktina og fara á ketó eru milljón tækifæri sem við fáum upp í hendurnar á hverjum degi. Hvort ég tek lyftuna eða stigann, legg bílnum nær eða fjær. Hvort ég borða eina kexköku eða tvær. Þú ert alltaf að fá tækifæri til þess að beygja til vinstri eða hægri í þessu völundarhúsi hreyfingar og mataræðis og því oftar sem þú tekur „rétta beygju“ á þessu sviði, því fyrr kemstu á leiðarenda. Þessar smáu en réttu ákvarðanir safnast saman. Einhvern tímann las ég rannsókn um að það að borða eina hrískúlu á dag umfram daglega orkuþörf skilar sér í þyngdaraukningu upp á eitt kíló á ári eða tíu kíló á áratug. Það er ekkert endilega svo að þótt maður sé í yfirþyngd sé maður að borða alltof mikið eða óhollt, öllu heldur þarf að skoða hvort svigrúm sé fyrir framfarir í þessum smáu ákvörðunum daglegs lífs, sem lítil fyrirhöfn er að breyta,“ segir Sóley og bendir á að það skipti máli hvort við stöndum eða sitjum og það eitt að sitja á gólfinu þegar við horfum á sjónvarpið fremur en í sófa skilar aukinni brennslu – og skemmri tíma í sjónvarpsáhorf! gerir Sóley ráð fyrir.