„Eftir langan vetur má búast við því að farið sé að ganga á birgðirnar af sólskinsvítamíni. D-vítamín er eitt af fituleysanlegu vítamínunum sem eru hormón og líkaminn getur geymt fyrir dimma daga í fitufrumum. Þrátt fyrir birgðahaldið er D-vítamínskortur algengur. Rannsókn sem birtist fyrir tæpu ári í Læknablaðinu sýndi að meirihluti íslenskra barna var með gildi undir viðmiðunarmörkum. Þá man ég ófá tilfelli af verulega lækkuðum D-vítamíngildum hjá fullorðnum frá því ég vann á heilsugæslu, en D-vítamínskortur er algengari eftir því sem aldurinn færist yfir,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Dökk eða ljós á 66 gráðum
Á 66. breiddargráðu getur sólin í fyrsta lagi byrjað að hjálpa húðinni að framleiða D-vítamín í maí. Það stendur svo fram í september, svo lengi sem sólin er nógu hátt á lofti.
Ef húð þín er náttúrulega dökk þá er þér enn hættara við skorti. Í dökkri húð keppir litarefnið melanín við kólesteról (sem breytist í D-vítamín) um að grípa útfjólubláu geislana. Dökk húð framleiðir því allt að 90% minna af D-vítamíni en hvít húð.
Til hvers þetta sólskinsvítamín?
Þá spyr maður sig – af hverju þurfum við allt þetta D-vítamín og getum við ekki bara dælt því inn í líkamann í risaskömmtum ef við erum í skorti?
Því er nú verr og miður.
D-vítamín þarftu meðal annars fyrir sterk bein. Ef þig skortir D-vítamín þá losnar hormón sem segir beinunum þínum að losa kalk. Það getur valdið beinþynningu. Síðan eru vísbendingar um að D-vítamín verji okkur gegn fjölda annarra sjúkdóma.
Nú skulum við skoða ástæðuna fyrir því af hverju þú vilt ekki taka inn stóran skammt af D-vítamíni.
Herra K2 opnar fyrir Kalk
D-vítamín sér til þess að hleypa kalki og fosfór inn í kroppinn gegnum þarmana. En nú vandast málið. Kalk fer ekki í beinin nema þú hafir K2-vítamín, sem er eins konar dyravörður fyrir kalk inn í beinin. Ef þú átt ekki nóg af K2-vítamíni er hætt við að kalkið komist ekki til beinanna heldur hlammi sér í mjúkvefina þína og jafnvel æðaveggi. Að merjast auðveldlega getur verið vísbending um skort en þarf ekki að vera. Kólesteról-lækkandi lyf geta einnig minnkað upptöku K-vítamíns án þess að vitað sé nákvæmlega með hvaða hætti.
Þetta er ekki búið.
Sá sem startar D-vítamíninu
D-vítamín sem þú ert nú búinn að taka inn samviskusamlega er gagnslaust í því formi sem þú tekur það inn. Til að það geti byrjað vinnuna sína þarf magnesíum fyrst að ræsa það í gang.
Margt getur lækkað magnesíum í kroppnum. Jarðvegurinn er orðinn snauður af magnesíum þannig að við fáum minna af því með plöntufæði en fyrir fimmtíu árum. Síðan geta ýmis lyf eins og magalyf minnkað magnesíum í kroppnum. Þegar sýrustig magans hækkar losnar magnesíum ekki greiðlega frá prótínum og partur af því endar í bauknum.
Síðast en ekki síst
Það gefur augaleið að þú þarft einnig að fá kalk með matnum til að hafa eitthvað til að vinna með og þörfin fyrir A-vítamín eykst sömuleiðis. Sardínur, lax, tófú, grænt laufgrænmeti og mjólkurvörur innihalda kalk en lifur er afar A-vítamínrík.
Tökum þetta saman
Til að kalkið sem D-vítamín hleypti inn í kroppinn endi ekki í mjúkvefjum þarftu K-vítamín, og magnesíum þarftu til að gera D-vítamín starfhæft. Hafðu samt hugfast að sum lyf geta flækt málið. Þá er spurning hvernig við getum tryggt nóg af næringarefnum?
Á dimmum dögum getur gert gæfumuninn að nærast vel, en gæfan felst líka í að gera það skynsamlega. Eins og að taka inn hæfilega mikið af D-vítamíni til að kalka á réttum stöðum.