Björn Leifsson eigandi World Class lá greinilega ekki uppi í sófa og borðaði sælgæti þegar líkamsræktarstöðvar voru lokaðar vegna veirunnar. Hann sýndi það rétt í þessu að hann er nautsterkur og hefur nú deilt myndbandi af sjálfum sér taka 225 kíló á kjötinu í réttstöðulyftu.
Það að taka 225 kíló þykir gott fyrir manneskju á þessum aldri en Björn er fæddur 1959 og því 62 ára. Það að taka það á kjötinu þýðir að hann var ekki í lyftingabúnaði sem getur aukið styrk. Hann lyfti þessari þyngd með kraftlyftingabelti og á sokkaleistunum.
Hvað Björn tekur í bekk er þó ekki vitað en það sem alþjóð veit eftir síðustu viku er að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tekur 120 kíló í bekk á kjötinu. Það þykir gott fyrir hefðbundinn skrifstofumann að geta lyft slíkri þyngd.