Tónlistarmaðurinn Justin Bieber er hættur að ganga með farsíma á sér. Bieber lærði að endurhaga lífi sínu þannig á síðasta ári að hann hefur sjaldan eða aldrei fundið fyrir jafnmikilli ró og fyrirsjáanleika sem stuðlar að betri andlegri líðan. Í viðtali við Billboard segist hann kunna vel við nýja lífið.
Kanadíska stjarnan hættir að vinna klukkan sex á daginn og ver kvöldunum á sófanum með eiginkonu sinni, fyrirsætunni Hailey Bieber. Hann fer að sofa á skikkanlegum tíma og vaknar klukkan átta. Þegar hann vaknar heyrir hann í starfsmönnum sínum til þess að komast að því hvað gerðist á meðan hann sinnti ekki poppstjörnustörfum.
Bieber hefur að undanförnu lært að setja sér mörk. Stór liður í því er að ganga ekki með farsíma. Stjarnan segist ekki eiga farsíma. Hann notar ipad til þess að eiga í samskiptum við fólk. Með því að ganga ekki með farsíma nær hann að stjórna því hver nær í hann og hver ekki.
„Ég lærði hvernig ég átti að setja mörk og mér finnst ég ekki skulda neinum neitt,“ sagði Bieber. „Það hefur hjálpað mér að segja nei og vera ákveðinn og átta mig á að hjarta mitt vill hjálpa fólki en ég get ekki gert allt. Mig langar stundum til þess en það gengur ekki upp til lengdar.“