Er meira um fíknisjúkdóma í sumum fjölskyldum en öðrum? Er hægt að vera óheppinn í genalottóinu og erfa fíknigenið? Er það kannski ríkjandi? Rannveig Borg Sigurðardóttir er starfandi lögfræðingur í Sviss, áhugamanneskja um heilbrigt líferni og nemi í alþjóðlegri fíknifræði við King's College.
Fordómar í samfélaginu og þekking á fíkn og hverjir geta lent í stjórnleysi hafa lengi vakið áhuga Rannveigar.
„Til þess að forðast flóknar skilgreiningar er hægt að segja að fíkn sé í stórum dráttum neysla eða hegðun sem hefur verulega slæm áhrif á líf einstaklingsins og viðkomandi upplifir eða hefur upplifað stjórnleysi gagnvart.
Fíkn getur tengst efnum eins og áfengi, eiturlyfjum og lyfseðilsskyldum lyfjum en einnig hegðun eins og spilafíkn, klámfíkn og lotugræðgi svo einhver dæmi séu tekin.
Almennt er talið að orsakir fíknar liggi í erfðum og umhverfi í um það bil jöfnum hlutföllum.
Ætlunin er ekki að gera lítið úr kenningum um fíkn sem tengist áfallasögu, eða að fíkn sé heilasjúkdómur. Fyrir þessum kenningum eru góð rök. Ummerki um neyslu er hægt að finna í heila einstaklinga er glíma við eða hafa glímt við til dæmis áfengisfíkn eða kókaínfíkn. Þá getur neysla raskað boðefnakerfi heilans. Jafnframt er áfallasaga hluti af orsökum sem liggja í umhverfi.
Erfðaþátturinn þýðir ekki að „fíknigenið“ sé til. Erfðaþátturinn er mun flóknari og fræðin í stöðugri þróun. Sannað er til dæmis að genaafbrigði ALDH2 veiti ákveðna vernd gegn áfengisfíkn einfaldlega vegna þess að áfengi fer illa í einstaklinga með þetta genaafbrigði sem finnst aðallega í Asíu. Kenningar eru uppi um að arfgerð af GABRA2-geni geti haft áhrif á tilhneigingu til fíknar. Jafnframt um samspil á milli ástar- snertihormónsins oxýtósíns og fíknar. Að oxýtósínkerfi einstaklinga sem alast upp við mikla áfallasögu sé skaddað og mögulega sé um að ræða víxlverkun á milli dópamíns-verðlaunakerfis heilans og oxýtósíns.
Sannað er að því yngri sem einstaklingur byrjar neyslu því líklegra er að viðkomandi þrói með sér fíkn. Framheilabörkurinn er enn að þroskast fram yfir tvítugt sem gerir unglinga enn viðkvæmari. Þróunin á Íslandi varðandi minnkandi drykkju unglinga síðastliðin ár er mikið fagnaðarefni.
Athyglisvert er að kyn getur skipt máli. Áfengi er til dæmis hættulegra fyrir konur en karlmenn ekki einungis vegna þess að konur þola oft minna magn vegna stærðar og þyngdar, heldur vegna ensíms í maga kvenna sem vinnur verr úr áfengi en ensím í maga karla. Auk þess er sannað að ákveðna prósentu brjóstakrabbameina kvenna má rekja beint til áfengisdrykkju.
Þá sýna rannsóknir mun meiri áhættu fyrir einstaklinga með athyglisbrest og ofvirkni eða mótþróaröskun á að þróa með sér fíkn og vísbendingar eru um að persónueinkenni eins og hvatvísi, nýjungagirni eða áhættusækni sé algengari hjá einstaklingum með fíknisjúkdóma.
Enn fremur geta andleg veikindi eins og þunglyndi og kvíðaröskun aukið áhættu á fíkn. Stress er jafnframt almennt talið áhættuþáttur.
Auk erfðaþátta hafa umhverfi og félagslegir þættir áhrif á fíknihegðun. Það gefur augaleið að sú áhætta er jafnbreytileg og umhverfi og félagslegir þættir eru. Fjölskyldustaða, fjárhagsstaða, trúrækni og menntunarstaða er til dæmis allt talið mikilvægir þættir. Umhverfisþættir virðast mikilvægari á unglingsárunum, en síðar vex erfðaþættinum ásmegin.
Þegar hinar ýmsu áhættur og mögulegir orsakavaldar eru tekin saman er ljóst að flestir falla einhvern tímann á ævinni inn í einhvern áhættuhópinn. Áhættuþættir í erfðum eða umhverfi auka vissulega líkurnar, en það er enginn óhultur.
Það má því segja að kenningar og hin ýmsu fræði megi ekki láta okkur missa sjónar á aðalatriðinu. Það geta allir ánetjast efnum eða hegðun. Fíkn er flókin og alls konar. Stöðug neysla er oftar en ekki vanabindandi og fíkn kemur aftan að fólki.
Það velur enginn að ánetjast efnum eða hegðun.
Mikilvægt er því að við séum á varðbergi gagnvart fíknisjúkdómum, alveg eins og við erum gagnvart til dæmis sumum hjartasjúkdómum eða sykursýki II sem enginn velur að veikjast af en eru taldir vera lífsstílssjúkdómar.
Af ofangreindu má sjá að fordómar eiga ekki rétt á sér ekki frekar en ef um aðra sjúkdóma væri að ræða. Sýnum umburðarlyndi og samkennd.
Að endingu má nefna að til þess að bregðast við vandanum væri æskilegt að skima fyrir neikvæðu neyslumynstri, til dæmis með stuttum inngripum hjá heilbrigðisstarfsfólki með það fyrir augum að grípa fyrr inn í. Eins þurfa að vera í boði fjölbreytt og einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði.“