Hlaðvarp Lindu Pétursdóttur er að slá í gegn um þessar mundir og fór átjándi þáttur þess í loftið í dag. Þátturinn fjallar um algengnar spurningar sem Linda fær frá hlustendum hlaðvarpsins. Tengdamömmur virðast vera ein ástæða þess að konur borða yfir tilfinningar sínar og svo geta konur greinilega verið harðar við sig þegar þær fara út af sporinu í mataræði.
„Spurningin um hvað er best að borða til að grennast er spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér. Sjálf hef ég prófað alls kyns megrunarkúra og aðferðir. Í dag er ég sannfærð um að heilbrigð skynsemi sé málið.
Sem dæmi finnst mér gott að hafa í huga möntruna: Ef það er framleitt af móður jörð – borðaðu það. Ef það er framleitt í verksmiðju – forðastu það.“
Dagar fitusnauðra megrunarkúra eru löngu liðnir hjá Lindu.
„Í dag vitum við betur. Líkami okkar þarf á fitu að halda til að starfa rétt. Fita er ákjósanlegasta eldsneytið fyrir heilann og hún er einnig ómissandi fyrir húðina. Þeir þrír helstu fæðuflokkar sem ég mæli með fyrir konurnar mínar eru grænmeti, fita og prótín.
Málið er nefnilega að ef þú elskar og sýnir líkama þínum ást og virðingu mun hann gera slíkt hið sama fyrir þig.
Einnig legg ég áherslu á að minnka hveiti og sykur í fæðu. Einfalt og gott ráð þegar þú þráir skyndilega eitthvað sætt er að fá sér frekar fitu. Sem dæmi má nefna lárperu (avókadó), eina teskeið af hnetusmjöri eða kókosolíu.
Með því að bæta við hollri fitu sem dæmi í heilsudrykkina okkar þá bætum við upptöku næringarefna og verðum mettari. Þannig höldum við matarlöngun í lágmarki og hjálpum líkamanum að halda blóðsykursgildum stöðugum.“
Linda leggur áherslu á að ekki sé öll fita góð fita.
„Við þurfum heldur ekki fitu í stórum skömmtum og ættum að velja gæði umfram magn. Fjórðungur úr lárperu, matskeið af hnetusmjöri eða kókosolíu eru skammtastærðir sem henta okkur flestum.“
Eftirfarandi eru dæmi um spurningar sem Linda hefur fengið að undanförnu:
„Ég á mjög leiðinlega tengdamömmu og við eigum hræðileg samskipti. Ég fer alltaf að borða þegar ég er búin að eiga samskipti við hana og get ekki hætt því. Hún hefur þessi áhrif á mig. Ég sé ekki hvernig ég get breytt þessu. Á ég að hætta að hafa samskipti við tengdamömmu til að ná árangri?“
„Í þessu tilviki vil ég benda þér á að einblína á muninn á hvað er staðreynd og hvað er hugsun. Staðreyndin hér er einfaldlega sú að þú átt tengdamóður en svo er það hugsun þín að hún sé mjög leiðinleg. Ég veit að það getur verið erfitt að átta sig á þessu en sem dæmi þá gæti mér líklegast alveg þótt tengdamóðir þín skemmtileg. Þegar þú áttar þig á því sérðu að það að þú eigir leiðinlega tengdamóður er ekki staðreynd.
Finndu hvaða hugsun þín er algengust og settu í hugsa-líða-gera-hringrásina sem ég tók fyrir í þætti númer ellefu. Þegar þú hugsar þetta um tengdamóður þína, hvernig líður þér? Þegar þér líður svona, hvað gerir þú? Sem í þessu tilfelli er að borða. Veltu þessu fyrir þér og sjáðu hvernig hugsun þín hefur áhrif á að þú ferð að borða. Þegar þú hefur áttað þig vel á þessari tengingu geturðu spurt þig hvort þú sjáir einhverja aðra leið til að hugsa um tengdamóður þína eða hvernig þér myndi vilja líða í kringum hana og hvað þú þyrftir þá að hugsa. Góðu fréttirnar eru að hugsanir eru valkvæðar þannig að þú getur ákveðið að hugsa öðruvísi um staðreyndina, sem er einfaldlega sú að þú átt tengdamóður, og með nýrri hugsun kemur önnur líðan sem framkallar aðrar aðgerðir, það sem þú gerir. Veldu því hugsanir þínar af kostgæfni,“ segir Linda.
„Ég hef þróað með mér mjög flókið samband við mat og megrun í gegnum árin. Ég get náð árangri í einhvern tíma með því að neita mér um flestallt og svo fell ég og þá fer ég beint í sjálfsniðurrif sem endar alltaf með því að ég borða á mig gat. Þetta er eitthvert mynstur sem ég næ mér ekki úr. Mér gengur mjög vel á virkum dögum núna en ég „fell“ alltaf um helgar og þá byrjar alltaf niðurrifið sem endar á því að ég borða mjög mikið og mjög óhollt alla helgina.“
„Ég vil byrja á að segja þér að í þessu prógrammi er ekkert sem heitir að falla. Það getur komið fyrir okkur allar að fara út af sporinu, við erum jú mennskar, en þá notum við tækifærið til að skoða huga okkar með umhyggju að leiðarljósi til að sjá hvað fór í gegnum hugann og hver líðanin var þegar þú ákvaðst að borða utan þess sem þú ætlaðir að gera. Ef þú brytir einn disk úr uppáhaldsmatarstellinu þínu myndirðu ekki henda restinni af stellinu í gólfið. Þú myndir líklegast byrja á því að reyna að líma diskinn. Gerðu það sama þegar kemur að þér. Ef þú ferð út af sporinu vertu þá forvitin og kannaðu hugann með hugsa-líða-gera-hringrásinni og komdu þér aftur á sporið,“ segir Linda.
Þáttinn má nálgast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.