Hollywoodstjarnan Mark Wahlberg ætlar að bæta á sig nokkrum kílóum á næstu vikum. Hann er nú þegar búinn að bæta á sig níu kílóum en ætlar að gera enn betur. Ástæðan er bíómynd sem hann er að leika í. Þetta er nýtt fyrir Wahlberg sem er þekktur fyrir að vakna um miðja nótt og taka æfingu.
Wahlberg greindi frá því í spjallþætti Jimmys Kimmels í byrjun apríl að hann ætlaði að bæta á sig tæpum 14 kílóum á aðeins sex vikum fyrir mynd sem hann er að leika í. Í myndinni leikur hann hnefaleikakappa sem gerist prestur. Wahlberg gat ekki byrjað að bæta á sig fyrr en búið væri að taka upp hnefaleikaatriðin.
Á síðustu þremur vikum hefur honum tekist að bæta á sig fjölda kílóa. Hann sýndi fyrir-og-eftir-mynd af sér í vikunni á instagram og þakkaði kokkinum sínum fyrir hversu vel tókst til.
Í byrjun maí greindi leikarinn frá því að hann hefði bætt á sig níu kílóum og ætlaði að bæta tæpum níu kílóum á sig til viðbótar. Hann stefnir greinilega á aðeins meira en hann greindi frá í spjallþættinum fyrir mánuði.
Wahlberg var á mjög ströngu mataræði áður en hann byrjaði að fita sig. Hann hlakkaði því mikið til þess að gúffa í sig. Í spjallþættinum fyrir mánuði sagðist hann hlakka til að fara í bakarí, fá sér pönnukökur og hreinlega borða allt sem hann sæi.