Af hverju fær fólk tábergssig?

Lára G. Sigurðardóttir læknir.
Lára G. Sigurðardóttir læknir. Ljósmynd/Saga Sig

„Þótt árin færast yfir er hugurinn ekkert endilega að fylgja tímatalinu. Þess vegna kemur alltaf jafn mikið á óvart þegar líkamleg einkenni öldrunar gera vart við sig. Fyrir nokkrum árum bankaði eitt slíkt upp á hjá okkur hjónum og sýndi ekkert fararsnið,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli: 

Við vorum samstíga með tábergssig okkar og á tímabili við það að ganga af göflunum. Tábergssig er afskaplega hvimleiður kvilli, tala nú ekki um ef maður er mikið á ferðinni um fjöll og firnindi. Við hvert fótmál var eins og verið að senda rafstraum fram í tærnar. Sjálf hafði ég ósjaldan greint tábergssig á læknastofu en hafði ekki hugmynd um hve verkurinn var slæmur. Talandi um að geta ekki sett sig í spor annarra! 

Héldum við hjónin því í rómantíska ferð til stoðtækjafræðings, sem staðfesti gruninn og sendi okkur heim með innlegg og tóma buddu. En mér fannst þetta innlegg aldrei gera nógu mikið fyrir mig og fann alltaf hve veikburða fóturinn var - hann var alltaf að minna á sig. Allt benti til þess að við þyrftum að nota innlegg til æviloka, herða okkur upp og hætta vælinu. Það var samt eitthvað sem hvíslaði að mér að þetta þurfti ekki að vera svona. 

Af hverju fær maður tábergssig?

Algeng orsök tábergssigs er mikið álag á fætur. Ég hafði verið að hlaupa löng náttúruhlaup þegar það mætti á svæðið. Skekkja á fótum eða skór sem passa illa geta einnig ýtt undir eða flýtt fyrir komu þess. 

Fætur eru hálfgerð dvergasmíði. Hvor fótur samanstendur af 26 beinum, 33 liðamótum og meira en 100 vöðvum, sinum og liðböndum. Þessi samsetning vinnur að því að bera vigtina okkar, veita stuðning, jafnvægi og hreyfanleika. Lengst af í þróunarsögunni þurftu fæturnir að bera okkur á ójöfnu undirlagi, jafnvel á harðahlaupum undan hættu. Þá mátti virkja alla þessa vöðva til að halda okkur á tánum. Hlutfallslega er afar stutt síðan við fórum að ganga í sóluðum skóm - eða síðustu 100 eða 200 ár af þeim 300.000 árum frá því að hinn viti borni maður kom fram á sjónarsviðið. 

Það segir sig sjálft að fætur eru ekki hannaðir til að ganga í flötum skóm og á flötu undirlagi þar sem þorri vöðvanna liggur í dvala áratug eftir áratug. 

Engin lækning

Á læknastofunni voru gefnar hálf gagnslausar ráðleggingar, komst ég fljótlega að. Ég lagðist samt í smá rannsóknarvinnu í veikri von um að finna lækningu en einungis til að komast að því að það var engin alvöru lækning. Kæla með ís, vera í góðum skóm og nota innlegg. Og halda áfram að beita alls ekki fótunum eins og skaparinn hafði ætlað. 

Ég trúi því að líkaminn bili sjaldnast upp úr þurru. Það er oftast einhver orsök fyrir veiki þó vissulega vitum við ekki alltaf hver hún er. Oft er það eitthvað í hegðun okkar sem á í hlut.

Aftur að okkur hjónum. Tíminn leið. Allavega margir mánuðir. Kannski nokkur ár. Örugglega fimmtán innleggjum síðar. 

Óvænt lækning

Haust eitt vorum við hjónin stödd í klifurleiðangri í Montserrat fjallgarðinum á Spáni. Eins og stundum þegar við ferðumst saman, villtumst við af leið. Við enduðum á að þvælast upp og niður skógi vaxnar fjallshlíðar. Ég var í flip-flops sandölum (hér vantar íslenskt orð) og þurfti að virkja alla vöðvana í fótunum til að missa ekki sandalana af mér eða renna á lausum laufblöðum niður hlíðina. 

Mér til undrunar var verkurinn horfinn seinna þennan dag. Í fyrsta sinn í langan tíma voru fæturnir ekki að angra mig. Líklega er það ímyndun að hluta en mér fannst strax meira hold í fótunum, svolítið eins og maður upplifir að vöðvar þrútna eftir að maður tekur vel á því. Fótaaðgerðarfræðingurinn minn staðfesti svo tilfinningu mína. Hún sá greinilega mun á holdinu. 

Merkilegast var að verkurinn hvarf og kom ekki aftur fyrr en ég fór aftur að ganga í lokuðum skóm. En hann lagaðist um leið og ég fór í sandalana og kreppti iljar meðvitað, t.d. þegar ég var að stússast í eldhúsinu. Nú eru liðin mörg ár og á meðan ég held mig á tánum eða í flip-flops sandölum þá eru fæturnir eins og hugur minn. 

Vöðvar sem við notum ekki rýrna. Öll þyngd líkamans hvílir á fótunum og því ekki að undra að við förum að finna til þegar holdið minnkar og hættir að veita stuðning við bein og taugar.  Ég held því að okkur sé hollt að vera stundum á tánum á ójöfnu yfirborði, til dæmis með því að ganga um berfætt í náttúrunni eins og forfeður okkar. Prófaðu að horfa á fótinn þegar þú gengur í opnum flip-flops sandölum og sjáðu hvernig vöðvar fótanna byrja að vinna. 

Eins og api

Mig langar að deila með ykkur ráði sem fótaaðgerðarfræðingurinn Ásdís Sveinbjörnsdóttir gaf mér og ég nota óspart. Ef þú missir hlut á gólfið notaðu tærnar til að taka hann upp, ef þú getur. Ég hef reyndar gert þetta frá því ég var krakki af því að ég nennti ekki að beygja mig en hafði hætt því þar sem maðurinn minn var alltaf að gera grín að mér og líkja mér við apa. Kannski þurfum við einmitt að haga okkur stundum eins og apar. Hann er allavega steinhættur að gera grín að mér núna. 

Með þessu er ég samt ekki að segja að ég telji að allir geti læknað sig af tábergssigi á sama hátt og við hjónin en það sakar ekki að reyna.

Lifið heil og haldið ykkur reglulega á tánum! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda