Þórunn Thors Jónsdóttir kynntist fyrst kannabis í lækningaskyni fyrir tíu árum þegar vinur hennar var að takast á við fjórða stigs krabbamein í hálsi. Í dag er Þórunn eða Tóta eins og hún er kölluð algjör viskubrunnur á þessu sviði. Hún er gestur bræðranna Gunnars Dan og Davíð Karls Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu.
Æxlið á vini Tótu bókstaflega stóð út úr hálsinum á honum. Tóta smurði kannabisolíu á æxlið með þeim afleiðingum að það einfaldlega dróst saman og fyrir vikið urðu síðustu mánuðirnir í lífi hans mun bærilegri en ella. Í kjölfarið fóru hjólin að snúast og krabbameinssjúklingar fóru að hafa samband við Tótu í von um ráð hvað varðar meðhöndlun á krabbameini með hjálp kannabis.
Í gegnum bróður sinn kynnist Tóta stofnanda og framkvæmdarstjóra Medical Marjuana Incoperation, dr. Stuart Titus, sem er oft kallaður „afi CBD“ í Bandaríkjunum. Dr. Stuart og Tóta urðu miklir vinir. Hann hjálpaði Tótu og mörgum sjúklingum hér heima á Íslandi ýmist með símafundum með henni og sjúklingum eða einfaldlega sendi olíu frá Bandaríkjunum til Íslands.
Það sem Tóta hefur séð á þeim sjúklingum sem hún hefur verið í samskiptum við síðustu ár er að þeir sem hafa ásamt hefðbundnum krabbameinsmeðferðum notað ýmist CBD eða THC virðast koma mun betur út úr veikindum sínum. Virðast þeir koma betur út hvað varðar aukaverkanir og endurheimt að meðferð lokinni en þeir sem fara einungis í hefðbundna meðferð.
Hún segir að rannsóknir sýni að CBD einfaldlega drepi og útrými ákveðnum krabbameinsfrumum. Í því samhengi segir hún að við hormónakrabbameini myndi viðkomandi fara í meðferð með háu innihaldi af CBD og lágu af THC en ef ekki væri um hormónatengt krabbamein að ræða þá myndi meðferðin einkennast af háu THC-innihaldi og lágu af CBD.
Tóta talar einnig um mikilvægi réttrar fæðu fyrir líkamann. Til dæmis þurfi þurfi fólk að hreinsa lifrina svo hún sé í stakk búin til að takast á við lyfjagjöf sem fylgi hefðbundnum krabbameinsmeðferðum. Hún talar um hvernig hún upplifir að sjúklingarnir leggist oft kylliflatir fyrir framan lyfjalausnina eina sér. Byrja að dæla í sig lyfjum og einhvern veginn afsali sér allri ábyrgð sem fylgir að vera með alvarlegan sjúkdóm og bíði eftir að læknirinn eða kerfið bjargi sér.
Hún nefnir einnig í því samhengi að nýlega hafi hún séð í fréttum að krabbameinslyf væru búin á Íslandi eða af skornum skammti. Þessi skortur leiðir af sér mikla aukningu söluhópa á Facebook þar sem fólk kaupir eða skiptist á lyfjum fram hjá öllu eftirliti. Ástæðan fyrir þessum skorti segir Tóta að sé viss kvóti á lyfjum og að aðeins sé keypt inn fjórum sinnum á ári.
Á sama tíma og það er skortur á lyfjum við til dæmis krabbameini þá er algjörlega litið fram hjá rannsóknum og reynslu margra nágrannaþjóða okkar á meðhöndlun með ýmist CBD eða THC gegn krabbameini. Hún telur að Íslendingar séu aftarlega á merinni og í raun um tuttugu árum á eftir mörgum öðrum þjóðum í þessum málum.
Árið 2019 stofnaði Tóta Hampfélagið ásamt öðru góðu fólki og hefur Hampfélagið síðan unnið ötult starf í að kynna fyrir stjórnvöldum hina nánast óendanlegu möguleika hampsins sem og að stuðla almennt að vitundarvakningu í þeim efnum með mjög góðum árangri. Meira má sjá um starfsemi Hampfélagsins á heimasíðu þess og þar er einnig hægt að skrá sig í félagið ef áhugi er fyrir hendi.
Þáttinn er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.