Embla Ordal er kynsegin og upplifir sig hvorki sem karl né konu. Embla ræddi hin ýmsu kyn og kynjatvíhyggju í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu við bræðurna Gunnar Dan og Davíð Karl Wiium.
Flest fólk upplifir kyn sitt í samræmi við það kyn sem því var úthlutað við fæðingu, og er því sís. Andstæðan við sís er trans, en transfólk upplifir kyn sitt ekki í samræmi við úthlutað kyn við fæðingu og kýs þá oft að fara í kynleiðréttingarferli. Kynseginfólk fellur að einhverju leyti undir transskilgreininguna. „Ég er kynsegin, sem þýðir að ég upplifi mig hvorki sem karl né konu og skil eiginlega ekki alveg hvað fólk sem gerir það er að tala um,“ segir Embla og bendir á að öll upplifum við hvers kyns við séum og þurfum ekki að athuga eigin líffræði til þess. „Er ekki kyn að rosa miklu leyti huglægt?“
„Mér finnst ótrúlega skrítið að við lítum á einstakling, nýfætt barn og út frá því hvernig kynfæri barnsins líta út þá bara gjörðu svo vel, hér eru allar væntingarnar og allar hugmyndirnar hvernig þú átt að vera. Það er bara búið að ákveða það,“ segir Embla varðandi upplifun sína af kynjatvíhyggjustýrðu samfélagi.
Í umræðum um skilgreiningar, stimpla og kassa segist Embla líta á kyn sem róf sem spanni marga ása eða jafnvel hnit, þar sem möguleikarnir eru nánast óendanlegir. „Frá því að ég byrjaði að fara með hinseginfræðslu árið 2012 þá hef ég sagt að við erum sjö milljarðar á þessari jörð og við erum öll jafn ólík, og þannig lagað er í raun til stimpill fyrir okkur hvert og eitt.“ Þótt Embla upplifi kyn ekki sem mikilvægan þátt í tilverunni segir hán mikilvægt að fólk hafi rými til sjálfsskilgreiningar, og að nauðsynlegt sé að eiga orð yfir skilgreiningar fólks til að lýsa upplifunum og raunveruleika þess. Embla bendir á vefsíðuna Hinsegin frá Ö til A fyrir hinsegin orðabók með aðgengilegum skýringum.
Hvað varðar hinsegin réttindabaráttu segir Embla að þótt Ísland standi að mörgu leyti framarlega sé mörgu ábótavant og mikilvægt að sofna ekki á verðinum. ILGA Europe gefur árlega út svokallað regnbogakort þar sem lagaleg réttindi hinseginfólks eru metin, og hefur Ísland ekki skorað hátt undanfarin ár. Nýleg lög um kynrænt sjálfræði voru mikil réttarbót, en enn vantar til að mynda upp á rétt intersex fólks til líkamlegrar friðhelgi, og mega karlar sem stunda kynlíf með öðrum körlum enn ekki gefa blóð. Einnig þurfi að gera úrbætur innan heilbrigðiskerfisins og tryggja viðeigandi læknisþjónustu. „Eins og stendur er ekkert starfandi teymi sem tekur á móti transbörnum og -unglingum,“ segir Embla.
Í lokin var útskriftarverkefni Elísabetar Rúnar, heimildamyndasögubókin Kvár, kynnt. Bókin nýttist bræðrunum vel til að kynna sér kynsegin veruleika því hún er einföld og skýr og sett upp í myndasöguformi, þar sem tekin eru viðtöl við nokkra kynsegin einstaklinga um þeirra upplifun af að vera kynsegin. Bókin fæst í verslunum Eymundsson.
Embla notar bæði persónufornöfnin hán og hún. Orðið hán beygist eins og „lán“ og tekur með sér hvorugkyns beygingarendingar. Margt kynsegin fólk notar fornafnið hán, en þó ekki allt.
Viðtalið við Emblu er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is, auk þess má horfa á þáttinn á YouTube.