Björgvin Páll Gústavsson, markvörður og bakari, er nýjasti gestur bræðranna Gunnars Dan og Davíð Karls Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu. Björgvin mætti í þáttinn sem afreksíþróttamaðurinn sem hann er en fór samt sem áður yfir sögu sína. Rótlaus æska og brostið uppeldi leiddi hann inn í alls konar úrræði hjá hinu opinbera fyrir „svokölluð“ vandræðabörn og -unglinga.
Björgvin er maður sem ræðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur. Í viðtalinu ræðir hann hvernig hann hefur náð að tækla sína sjálfsvinnu og sjálfsuppeldi með taktískri sókn í ljósið sem hann sá glitta í, í kjölfar þeirrar þjáningar sem hann upplifði fyrir ekki svo mörgum árum áður.
Björgvin hefur rýnt í sjálfið og með það að leiðarljósi að koma auga á lygina sem svo hægt er að losa úr lífi sínu. Hann notar til þess alls konar verkfæri sem hann hefur svo rammað inn í það sem hann kallar „vopnabúrið“. Vopnabúrið er svo eitthvað sem hann notar óspart á sjálfan sig sem og opnar upp á gátt til þeirra sem hann leitast eftir að hjálpa í sínu starfi með ungum sem öldnum.
„Handboltamaður er rosa mikið ég þegar ég var yngri. Eitthvað sem ég ég greip í. Ég var alltaf handboltamaðurinn þegar ég þurfti þess,“ segir Björgvin er hann er beðin um að lýsa því hver hann nú er. „Síðan seinna meir verð ég faðir og allt hefur snúist við, núna er ég fyrst og fremst faðir, svo eiginmaður og svo handboltamaður,“ bætir Björgvin við.
„Ég átta mig svo seint á reiðinni. Ég er sex ára gaurinn sem beit kennarinn minn, átta ára gaurinn sem endaði á barna- og unglingageðdeild og tíu ára strákurinn sem er sendur í sveit og fæ þar umsögnina að ég sé barnið sem erfitt er að elska,“ segir Björgvin í lýsingum sínum eftir að hafa fyrir aðeins þremur árum lesið öll barnaverndarskjölin sín sem hann hafði aðgang að við átján ára aldurinn.
Í kjölfar lesturs þessara skjala áttaði hann sig á því hvernig svona valkvæðar minningar geta virkað. „Ef ég spila handboltaleik sem gengur vel man ég hann alveg mínútu fyrir mínútu. Spila ég hann illa hverfur hann bara.“ Í því samhengi las hann um mál sér beintengd sem maður myndi halda að ekki væri möguleiki að ekki muna en samt sem áður var sem málin og atburðirnir hefðu verið hreinsuð úr minni hans.
Árið 2019 krassar Björgvin í miðju HM í Köln í Þýskalandi. Hann var elstur í sínu liði og tók að sér að vera einn í hótelherbergi sem annars er alls ekki mælt með á mótum sem þessum. Hann finnur sig þarna einn með öllum sínum hugsunum og finnur að hann er með tvo karaktera á lofti. Handboltamaðurinn undir geðveikri pressu á stórmóti á meðan konan er heima á Íslandi með þrjú börn og eitt af þeim orðið veikt.
„þá byrjar bara allt að vinda upp á sig, ég fer út og fæ mitt fyrsta ofsakvíðakast, án þess að fatta það, í miðju móti, og krassa algjörlega,“ segir Björgvin. Hann yfirgefur hótelið um miðja nótt því hann átti erfitt með að ná andanum og fer þá inn í ranghugmyndir sem snúa að yfirvofandi hryðjuverki sem fæli í sér að aðallestarstöðin yrði sprengd í loft upp. Hann hleypur í gegnum lestarstöðina og er hann nær að þrepum dómkirkjunnar í Köln brotnar hann alveg niður, brotnar og brestur í grát. Strax í kjölfarið þarna um nóttina byrjaði Björgvin að grafa eftir svörum við þessu vitundarástandi sem hann fann sig í.
Björgvin hefur síðan hann upplifði sitt ofsakvíðakast í Köln náð sér í ótrúlega reynslu og sankað að sér miklu vopnabúri í baráttu sinni við kvíða, athyglisbrest, ofvirkni og þunglyndi.
Í viðtalinu fer hann yfir mikilvægi réttrar næringar, reglu hvað varðar svefnvenjur, rétta öndun og almennt rétta og gilda nálgun innan allra sviða lífsins hvort sem sé í leik eða starfi.
Þáttinn er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.