Jóhanna Helga byrjaði að neyta fíkniefna þegar hún var aðeins 18 ára gömul. Æska og uppvöxtur Jóhönnu er lituð af áföllum og ofbeldi. Hún var misnotuð aðeins fjögurra ára gömul og var send í varanlegt fóstur þegar hún var fimm ára. Móðir hennar var fíkill og seldi aðgang að líkama sínum til að eiga fyrir næsta skammti.
Jóhanna Helga var gestur Eddu Falak og Fjólu Sigurðardóttir í hlaðvarpsþættinum Eigin konur.
Jóhanna missti fljótt stjórn á neyslunni og var farin að sprauta sig fljótlega. Um tíma var hún heimilislaus og fór nokkrum sinnum í meðferð, meðal annars til Svíþjóðar, áður en hún náði stjórn á vandanum og fór að vinna úr áföllum sínum.
„Fyrst vorum við sendar í sveit. Eitthvað saman og eitthvað í sundur. Eitt skipti var ég ein og þá komu hún [systir Jóhönnu] og mamma og rændu mér þaðan. Ég man ekki alveg hvernig þær gerðu þetta. Mig rámar bara í þetta. Hún var rosaleg. Mamma var svona krimmi en ég ætla að taka það fram að hún var besta sál sem ég veit um. Bara ótrúlega veik en var alltaf að reyna sitt besta,“ segir Jóhanna.
Þegar hún var 22 ára fór hún í meðferð til Svíþjóðar. Hún var staðráðin í því að hún þyrfti að fara til annars lands til að verða edrú. Hún lét öllum illum látum á meðferðarstöðinni og stal meðal annars bát.
„Ég lendi í mjög brutal nauðgun þarna úti í Svíþjóð. Það er svona „pause house“ , hús í öðrum bæ sem maður var sendur í til að „cool off“. Ég var náttúrlega eins og hvirfilbylur og var að fokka í fólki. Bara algjör dólgur. Var ekki að virða tilfinningar annarra. Ég er send þangað og þar er ég bara eitthvað að drekka. Þar lendi ég í þessari nauðgun. Þetta var bara ógeðslegt,“ segir Jóhanna. Maðurinn sem nauðgaði henni var veitingamaður.
„Ég og önnur stelpa vorum þarna eftir lokun. Við römbuðum þarna ég og önnur stelpa sem var með mér í meðferðinni. Hún fer með einhverjum öðrum kalli og hann fer bara og gaf henni að borða. Þegar þau eru farin segir gaurinn „ef þú ríður mér ekki þá stúta ég þér“ og ég bara fraus,“ segir Jóhanna.
Viðtalið í heild sinni má finna á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.