Hlaðvarp Lindu Pétursdóttur er vinsælt um þessar mundir og fór þrítugasti og níundi þáttur þess í loftið í vikunni. Í þættinum ræðir Linda um mikilvægi þess að setja sér markmið og halda áfram í stað þess að leita að auðveldum leiðum til að léttast.
„Eitt af því sem við verðum að læra er að leggja meiri áherslu á er hamingju okkar til langtíma í stað tafalausra umbunar. Freistingar og langanir eru á hverju strái og munu fylgja okkur hvert fótspor á þessari vegferð. Ég æfi mig persónulega daglega í að velja það sem er best fyrir mig til langtíma litið, eins og að mæta í ræktina, fara út að ganga og borða holla fæðu, þótt ég nenni því ekki endilega akkúrat þá stundina. Ég tek meðvitaða ákvörðun að velja það sem er best fyrir mig til langtíma litið. Það eru þessi litlu skref sem leggja grunninn að stóra markmiðinu, hvert sem það er,“ segir hún í hlaðvarpinu.
Konur munu aldrei sjá eftir því að trúa á sig að mati Lindu.
„Þú munt alltaf sjá eftir því að efast um þig. Það er aldrei eftirsjá í því að gera eitthvað af heilum hug. Þú nærð ekki alltaf árangri. Þú gætir þurft að reyna nokkrum sinnum og skuldbinda þig, en það verður þess virði.
Langanir naga okkur, þær fara í raun aldrei. En ef við hlustum á þær leiða þær okkur í átt að því lífi sem lætur okkur líða best. Þegar við hugsum um langanir okkar og þrár getum við búið til þær tilfinningar sem nauðsynlegar eru til að bregðast við þeim. Það er á endanum þú sem ákveður hvaða löngun fer með sigur af hólmi,“ segir hún.
Hún tekur dæmi um konu sem er með markmið um að losa sig við 13 kílógramm.
„Þú léttist um eitt til tvö kíló fyrstu dagana sem er vanalega vatnslosun, borðar síðan vel allan daginn og stígur á vigtina og hún hreyfist ekki. Þú hefur ekki grennst um gramm. Hjá mörgum okkar táknar það endalokin.
Við hugsum með okkur: Ef ég ætla að leggja svona mikið á mig er eins gott að vigtin fari niður!
Það er þá sem við ákveðum að gefast upp og borða allt sem okkur langar í. Sem er fljótlegasta leiðin til að missa ekki 13 kíló. Hluti af vandamálinu er að við einbeitum okkur of mikið að stóra markmiðinu og ekki nóg á brautina sem er vörðuð venjum sem leiða okkur að markmiðinu.
Við hugsum bara um kílóin 13 en ekki nógu mikið um alla daglegu hlutina, litlu skrefin sem koma okkur þangað. Það er vissulega mikilvægt að vera með stór markmið. Það er það sem knýr okkur áfram og vekur hjá okkur spennu fyrir framtíðinni. En það er heldur ekki hægt að ná því markmiði á einum degi.
Markmið sem þú getur náð á einum degi eru þessi litlu markmið sem leggja grunninn að stóra markmiðinu okkar. Settu þér endilega stór markmið og hugsaðu síðan um alla daglegu hlutina sem þú getur gert sem halda þér á ferðinni í áttinni að því.
Mundu að það eru hænuskrefin sem við tökum daglega sem skipta öllu máli og koma okkur á endanum að stóra markmiðinu. Þau er grunnurinn að stóra markmiðinu þínu,“ segir Linda.
Þáttinn má nálgast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.