Róbert „Royal“ Gíslason tónlistarmaður missti föður sinn, leikarann Gísla Rúnar Jónsson, fyrir rúmu ári þegar faðir hans svipti sig lífi. Gísli Rúnar barðist við áfengisvandamál og andleg veikindi en í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu segir sonur hans bræðrunum Gunnari og Davíð Wiium frá því hvernig hann hefur sjálfur þurft að takast á við eigin djöfla.
Róbert „Royal“ fetaði í fótspor foreldra sinna og lærði leiklist í Los Angeles og þykir líkur föður sínum. Hann byrjaði snemma að berjast við fíknina og hefur náð tímabilum þar sem hann er edrú. Þegar faðir hans Gísli dó hafði Róbert verið edrú í tvö ár. Áfallið sem fólst í að koma að föður sínum látnum ofan á hið hefðbundna sorgarferli við að missa nákominn varð honum ofviða sem þýddi að þremur mánuðum eftir að Gísli lést datt Róbert Royal í það.
Áður en hann féll aftur í gin alkóhólismans upplifði hann varnarviðbrögð hugans sem einkenndust af algjörum samkenndarskorti. Á þessum tíma upplifði hann það eins og það hefði verið klippt á alla samkennd, allar tilfinningar. Hann upplifði þetta svo sterkt að hann fann ekki til væntumþykju né sá raunir annarra, var í algjöru frosti. Hann segist hafa haldið að hann væri einfaldlega siðblindur.
Þegar jarðarförin var búin og lífið hélt áfram stóð Róbert á krossgötum og tilfinningar komu upp á yfirborðið. Á þessum tíma var hann ekki í ástandi til þess takast á við sorgina og því fór sem fór, hann datt hreinlega í það eftir rúmlega tveggja ára edrúmennsku. Hann féll inn í hrikalegan spíral sem hann upplifði sem varnarviðbrögð taugakerfisins gagnvart úrvinnslu sorgar og áfalls.
Fallið stóð ekki lengi yfir, einhverja mánuði. Hann náði að koma sér aftur í meðferð og í þetta skiptið var eins og eitthvað hafði brotnað innra með honum. Eitthvað sem gerði það að verkum að hann var tilbúinn í vissa endurfæðingu. Hann fór í öfluga vinnu með hjálp Píeta og Sorgarmiðstöðvarinnar. Hann segir þessi samtök hafa gert kraftaverk hvað varðar upphaf á þessu gríðarlegu sorgarferli sem þarf að fara af stað. Róbert vildi koma því skýrt til skila hversu miklu máli þessi samtök skiptu í vinnu hans.
Róbert „Royal“ hóf einnig djúpstæða tólf spora vinnu sem skilaði sér í algjörri hugarfarsbreytingu. Hann finnur fyrir sterkri köllun til að láta gott af sér leiða og er meðal annars tilbúinn að deila sinni reynslu með þeim sem þurfa. Bent er á heimasíðu Píetasamtakanna og Sorgarmiðstöðvarinnar.
Hægt er að hlusta á þetta einlægta viðtal í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.
Ef einstaklingar upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.