Davíð Máni er tvítugur strákur með einhverfu, hann varð fyrir einelti í grunnskóla og lenti í stóru áfalli þegar hann missti besta vin sinn af slysförum aðeins 12 ára gamall. Eftir að hann byrjaði að drekka fór hann út í harðari efni. Hann segir frá því í hlaðvarpsþættinum Það er von hvernig einhverfan átti þátt í þróun fíknivanda hans.
Davíð þakkar fyrir einhverfuna og segir frá því í þættinum að hann fái oft þráhyggju.
„Eineltið og það að missa besta vin minn gerði það að verkum að ég varð þunglyndur,“ segir Davíð. Hann byrjaði að drekka 18 ára fann að hann drakk meira og hraðar en aðrir. „Ég var kominn í sterkari efni eftir stuttan tíma og varð fljótt háður og þurfti strax næsta skammt.“
Aðspurður segir Davíð að einhverfan eigi stóran þátt í því hvernig fíknin þróaðist hjá honum. Hann á erfitt með tengslamyndun og þráði að vera samþykktur. Davíð segir einnig frá því hvernig hann missti af vinum sínum, neyslufélögunum, eitt skipti og var leiddur á fund. „Ég var eiginlega neyddur í 12 sporin en er ótrúlega þakklátur fyrir það. Ég horfði svo á þetta eins og að spila tölvuleik, svona level up.“
Davíð talar um það hversu dýrmætt það er að fá traustið til baka frá fjölskyldu og vinum og hvernig hann notar tónlist til að vinna úr erfiðum tilfinningum. 12 spora fundirnir hafa hjálpað Davíð með sjálfstraustið og aðstoðað hann mikið félagslega. Hann er mikil fyrirmynd og á hrós skilið fyrir að koma fram og segja sögu sína.
Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.