Verkfræðingurinn, jógakennarinn og tantrarinn Helga Guðrún Snjólfsdóttir féll í gryfju þunglyndis og vonleysis fyrr á þessu ári. Helga var viðmælandi bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium sem fögnuðu fimmtugasta þætti sínum af Þvottahúsinu um helgina.
Helga var einnig viðmælandi þeirra bræðra í janúar á þessu ári og var þeirra fyrsti viðmælandi. Þar ræddi hún um nánd kynjanna, opin hjónabönd og jóga. Í þetta skiptið ræddi hún við þá um kulnun og þunglyndi en Helga hefur sjálf farið í kulnun í starfi. Kulnunin leiddi hana smátt og smátt inn á aðrar brautir eins og jóga og núvitund.
Helga hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum og auglýst öll sín námskeið og fyrirlestra þar. Fljótlega eftir viðtalið hvarf hún af samfélagsmiðlum en þá hafði hún aftur fallið í gryfju þunglyndis þrátt fyrir alla sína sjálfsvinnu.
Í þættinum ræddi Helga um muninn á kulnun og klinísku þunglyndi. Hún segist hafa fundið fyrir vissum létti þegar hún áttaði sig á því að hún væri einfaldlega veik. Boðefnaframleiðslan hafi af einhverri ástæðu verið komin úr jafnvægi, sem keyrði hana í kaf. Þessar hugmyndir sem við við höfum um okkur sjálf í stöðugum samanburði við allt og alla, eða öllu heldur sögurnar um allt og alla virka sem pressa á sjálfið sem svo smátt og smátt þyngir okkur, og tekur gleðina og léttleikann.
Helga er byrjuð að vinna sig út úr svartnættinu og ræddi um þessa sjúkdómsgreiningu sem hún þurfti að fá til að geta hafið lyfjagjöf. Í gegnum tíðina hefur hún unnið í sjálfri sér, hvort sem er með jóga eða smáskömmtum af psilosobin-sveppum. Hún segir sveppina hafa hjálpað til á sínum tíma við að skapa nýjar tengingar, en samt sem áður ekki náð að heila þessa grundvallarskekkju sem svo framkallaði þetta þunglyndistímabil sem hún hefur gengið í gegnum.
Hún notaði smáskammtana af sveppunum í um tvö ár og fannst þeir stundum rífa upp óttann og kvíðann.
„Allt reynt, tikkað í öll boxin með sjálfshjálp. En þegar það er svona mikið þá ert þú ekkert að leika guð. Það var einmitt „bæpassið“ sem ég sat föst í; ég á að geta lagað þetta með því sem ég kann,“ sagði Helga að lokum.
Þátturinn er aðgengilegur á hlaðvarpsvef mbl.is og á Youtube.