Bandaríska leikkonan AnnaLynne McCord segir að það hafi hjálpað henni mikið að vinna úr fyrri áföllum að stunda BDSM með þáverandi kærasta sínum Dominic Purcell. Eftir áralanga þögn og vanlíðan hafi allt breyst með tilkomu Purcells í líf hennar.
McCord hafði áður sagt frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir. Það var fyrir tilviljun á viðburði þar sem hún sagði sögu sína uppi á sviði. Í nýlegu viðtali við Marisu Sullivan hjá Giddy sagði hún frá því hvernig hún vann úr áfallinu.
„Ég var 19 ára þegar ég var misnotuð kynferðislega af vini mínum sem fékk að gista heima hjá mér. Nakin. Ég vaknaði og hann var inni í mér, og ég fraus. Líkami minn slökkti á sér og ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Síðan kenndi ég sjálfri mér um því ég streittist ekki á móti. Ég reyndi ekki að stoppa hann,“ sagði McCord.
Mörgum árum seinna var hún enn að fá taugaáföll og fór í áfallameðferð. „Ég bókstaflega leiddist út í BDSM því ég fann ekki fyrir neinu.“
Sullivan spurði hver hefði brotið ísinn fyrir hana.
„Mjög, mjög stór og sterkur maður. Dominic Purcell. Þú þekkir hann kannski úr Prison Break? Hann var að lemja fólk og brjótast út úr fangelsi. Það þurfti stóran, sterkan, reiðan Ástrala. Ég var kynferðislega misnotuð svo hræðilega, svo ung, að líkami minn ákvað að þetta væri ekki örugg tilfinning fyrir mig. Svo ég fann ekki fyrir neinu,“ sagði McCord.
McCord og Purcell eru hætt saman en þau eru enn mjög góðir vinir. „Það eru margar ástæður fyrir því að hann verður manneskjan mín að eilífu. Hann er heima hjá mér núna, við erum ekki saman en við erum fjölskylda.“
Hún segir að hann hafi ekki leyft henni að komast upp með neitt kjaftæði og þess vegna hafi hún treyst honum. Fram að því treysti hún ekki karlmönnum eða fólki í karlorkunni.
McCord og Purcell hófu ástarsamband árið 2011 og hættu fyrst saman 2014. Þau hafa tekið saman og hætt saman nokkrum sinnum í gegnum árin.