Hvetjandi að sjá uppskeruna eftir mikla vinnu

María Lena Heiaðarsdóttir Olsen einkaþjálfari og stofnandi M Fitness ásamt …
María Lena Heiaðarsdóttir Olsen einkaþjálfari og stofnandi M Fitness ásamt dóttur sinni í nýja verslunarrýminu.

María Lena Heiðarsdóttir Olsen, stofnandi íþróttavörumerkisins M Fitness, segir að það sé ekki auðvelt að reka eigið fyrirtæki og eiga tvö lítil börn.

Hún eignaðist sitt annað barn í ágúst síðastliðnum þegar þau stóðu í framkvæmdum á nýju verslunarrými á Stórhöfða. Með því að leggja hart að sér og skipuleggja sig vel hefur allt gengið upp og stefna þau á að opna núna í nóvember. 

María stofnaði M Fitness árið 2016 og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað síðan þá. Í upphafi var hún með einfalt vöruúrval af íþróttafötum sem María hannar sjálf. Með tíð og tíma hefur hún bætt inn fleiri vörulínum og fataúrvalið hefur aldrei verið meira.

Fengu afhent tæpum mánuði fyrir settan dag

„Framkvæmdirnar hafa gengið vonum framar. Við settum okkur markmið að opna um mánaðarmótin desember/janúar 2022 en mér sýnist á öllu að við séum að ná að opna núna í nóvember. Við fengum húsnæðið afhent 3. ágúst, tæpum mánuði fyrir settan dag hjá mér,“ segir María í viðtali við Smartland.

„Við byrjuðum að gera húsnæðið fokhelt, rífa niður alla veggi, allt gólfefni, rafmagn og pípulagnir áður en uppbygging hófst. Við vorum rétt byrjuð í uppbyggingu þegar ég fór af stað sex dögum fyrir settan dag.“

Það var mánuður í settan dag hjá Maríu Lenu þegar …
Það var mánuður í settan dag hjá Maríu Lenu þegar þau fengu húsnæðið á Stórhöfða 15 afhent.

Flytja frá Lambhagavegi

Þau tóku vikufrí eftir fæðingu barnsins og hófust svo handa á ný. „Síðan þá höfum við unnið hörðum höndum, fengið góða hjálp frá fjölskyldu og vinum og getum ekki beðið eftir að halda opnunarpartý.“

María Lena opnaði fyrst lagerrými í Reykjavík á Esjumelum í aðeins 60 fermetra plássi. Það varð of lítið um leið og þá fluttu þau í 205 fermetra húsnæði á Lambhagavegi og hafa verið þar undanfarin ár. 

„Þegar við tókum við því rými fannst okkur það svo stórt að við ákváðum að stúka af litla verslun og nota hana sem tilraunaverkefni. Vöruúrvalið jókst hratt og verslunin varð eiginlega orðin of lítil áður en við náðum að opna hana. Síðan þá höfum við verið að breyta, bæta og færa til inn á lager til að búa til meira pláss.

Þegar við vorum búin að bæta við millilofti, fá annað 205 fermetra bil við hliðina á því og fylla allt upp í topp þá var ekki annað í stöðunni en að flytja. Það var ekki hlaupið að því að finna húsnæði sem hentaði bæði sem lager og verslun. Eftir nokkra mánaða leit fundum við loksins húsnæði sem hentaði og við getum ekki beðið eftir að flytja.“

Nýja rýnið er 700 fermetrar að stærð, en þar af verður verslunin um 200 fermetrar.

Mikilla framkvæmda var þörf í nýja húsnæðinu.
Mikilla framkvæmda var þörf í nýja húsnæðinu.

Aukin sala í heimsfaraldrinum

María fann vel fyrir heimsfaraldrinum en þá jókst salan mikið. 

„Fram að því höfum við alltaf verið að auka jafn og þétt við okkur svo það er erfitt að segja hvað það er. Það var erfitt að laga sig að heimsfaraldrinum þar sem ástandið í öllum heiminum var erfitt. Við lentum í að þurfa að bíða margfalt lengur eftir vörum, verksmiðjur lokuðu, flutningskostnaður hefur margfaldast svo eitthvað sé nefnt. Þetta ástand var mjög krefjandi en lærdómsríkt,“ segir María Lena.

Rétt áður en faraldurinn skall á og líkamsræktarstöðvum var gert að loka voru þau nýbúin að taka inn lóð og ketilbjöllur. Það kom á fullkomnum tíma enda margir sem keyptu sér lóð og bjöllur til að brúka í stofunni heima á meðan ræktin var lokuð.

Samhliða íþróttafatnaðinum hefur M Fitness selt aukahluti á borð við lóðin og hefur það gengið vel. 

„Við vorum aðeins farin að selja aukahluti eins og rúllur fyrir endurheimt, æfingateygjur, brúsa og aðra smáhluti snemma. Ég hef alltaf verið með skýr markmið hvert ég ætla með fyrirtækið og hvaða vörur ég sé fyrir mér í sölu. Aukahlutirnir voru eitt af því. Ég hef svo reynt að bæta smám sama við vörulínurnar eftir því sem fyrirtækið stækkar og fjármagn leyfir. Mér finnst skipta miklu máli að allir geti fundið eitthvað sem hentar hjá M fitness,“ segir María Lena.

Ekkert Helvítis Frí

María bjó á Egilsstöðum og var einstæð móðir þegar hún stofnaði fyrirtækið. Í dag býr hún í Reykjavík ásamt kærasta sínum Hannesi Erni Ívarssyni og eignuðust þau dóttur sína saman í ágúst.

„Ég vil meina að maður getur allt sem maður ætlar sér ef maður vill það nógu mikið og skipuleggur sig vel,“ segir María Lena, spurð hvort það sé ekkert mál að reka sístækkandi fyrirtæki samhliða því að eiga stækkandi fjölskyldu. 

M Fitness hefur á undanförnum árum skapað sér sess á markaði íþróttavörumerkja og er í dag eitt vinsælasta merkið þegar kemur að íþróttafatnaði. Þegar María lítur til baka yfir árangurinn sem hún hefur náð segir hún að það sé gaman að sjá uppskeruna eftir margra ára vinnu. 

„Þegar maður leggur á sig, sér vinnuna skila sér þá er varla hægt að fá betri hvatningu – mann langar alltaf að gera betur og gera meira. Foreldrar mínir, sem hafa átt fyrirtæki síðan ég var lítil, sögðu við mig þegar ég byrjaði í þessu fyrir fjórum árum að EHF (einkahlutafélag) standi fyrir Ekkert Helvítis Frí. Ég get hér með staðfest það,“ segir hún og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda