Rakel Rún Reynisdóttir lenti í fyrsta sæti í sínum flokki á alþjóðlegu móti í Pole fitness um síðustu helgi. Rakel leggur áherslu á tæknilegar og erfiðar æfingar í dönsunum sínum og segir að það sé ekkert erótísk við dansana hennar.
Mótið sem nefnist Pole Sport Organazation og er haldið í Bandaríkjunum. Vegna kórónuveirufaraldursins sendi fólk inn myndbönd í stað þess að mæta á staðinn. „Fólk allsstaðar að úr heiminum gat gert það sama,“ segir Rakel en siguratriði hennar má sjá hér að ofan. Æfingafélagi hennar úr Pole Sport, Sól Stefánsdóttir, tók þátt í öðrum flokki og lenti í þriðja sæti.
„Ég byrjaði 2012 en hætti í fimm ár og byrjaði svo aftur. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Frá því að ég prufaði fyrsta tímann minn þá heltók þetta mig. Það mætti segja að ég hafi verið pínu „obsessed“ síðan þá. Mér finnst þetta skemmtilegra en ræktin. Mér hefur alltaf fundist gaman að hreyfa mig og þetta er öðruvísi form,“ segir Rakel sem segir dansinn og áherslan á styrk vera meðal þess sem gerir íþróttina skemmtilega.
Rakel tók sér hlé í fimm ár áður en hún byrjaði aftur af fullum krafti. „Ég hætti ekki að hugsa um þetta í allan þann tíma og byrjaði svo aftur,“ segir Rakel en það voru margir þætti sem spiluðu inn í að hún tók sér hlé frá æfingum. Hún var ung, flutti út á land og eignaðist svo barn. „Stuttu eftir að ég eignaðist fyrstu stelpuna mína dreif ég mig aftur. Eina skiptið sem ég hætti eftir það var þegar ég varð ólétt að yngri stelpunni minni.“
Var ekkert mál að koma aftur eftir barnsburð?
„Jú, alveg klárlega. Það var alveg mjög erfitt. Fyrir mig persónulega var það erfiðara andlega ef eitthvað var. Ég gat ekki hætt að hugsa um að einu sinni var ég svona sterk og eitthvað var einu sinni ekkert mál en núna get ég ekki loftað mér. En þetta var rosalega fljótt að koma aftur ef maður horfir til baka. En á leiðinni þangað var þetta mjög langur tími fannst mér. Ekkert að gerast en allt í einu fattar maður hvað maður er komin langt.“
Margir tengja pole fitness við erótískan súludans. Rakel segir dansa fólks vera mismunandi en hennar dansar eru ekki erótískir. „Ég persónulega dansa ekki erótískt. Það er alveg fullt af fólki sem gerir það. Eflaust hefur þetta alltaf verið staðalímyndin að þetta sé bara erótískt. En fyrir mér og mörgum öðrum er þetta bara íþrótt eins og hver önnur íþrótt. Það fer bara eftir því hvernig þú horfir á það og hvernig þú túlkar súluna. Ég held samt að í dag, miðað við fyrir 15 árum til dæmis, þá er fólk að samþykkja þetta meira en bara sem erótík.“
Rakel segir að á mótinu um síðustu helgi hafi verið allskonar dansar. „Í mínum flokki er fókusað á erfiðu trikkin, það er fókusað á flæði, hvernig ég dansa, hvernig ég fer úr einu trikki yfir í annað, meira heildarmyndin. Ég held að það sé meira segja hægt að skrá sig í erótískan flokk. Það voru stelpur þarna sem voru bara að hrista á sér rassinn. Það var minna um það í Champions-flokknum.“
„Við erum alltaf með fastar tvær æfingar í viku, tvo klukkutíma í senn. Þá byrjum við á þrekæfingu í klukkutíma og svo förum við á súluna og æfum okkur í öllu sem viðkemur súlunni. Fyrir keppnina vorum við að mæta á þessar venjulega æfingar og bættum við að minnsta kosti þrjár keppnisæfingar í viku og sérstaklega rétt fyrir keppni þá vorum við þarna alla daga,“ segir Rakel.
Rakel segir að það sé hægt að verða atvinnumanneskja í pole fitness. Þá ferðast fólk til þess að keppa, dæma og kenna. Sjálf er hún að taka skref í þá átt á næsta ári en hún fer bæði að kenna meira auk þess að sjá um stúdíóin hjá Pole Sport.
Er þetta vinsælt?
„Mér finnst þetta vera vinsælt, miðað við streymið sem kemur í gegnum okkar stúdíó. Fólk sem verður alveg húkt kemur ekkert til með að fara en svo eru alltaf einhverjir sem prufa og finnst skemmtilegt og dettur svo út og kemur svo aftur. Alveg eins og með mig sjálfa.“
Rakel segir að það þurfi mikinn styrk til þess að framkvæma erfiðari æfingarnar í Pole Fitness en fólk þarf þó ekki að vera mjög sterkt þegar það byrjar. „Ég hef alltaf sagt við fólk að maður þarf ekki að vera sterkur til að byrja, það kemur bara.“
„Ég kem til með að keppa meira, þetta er ógeðslega gaman. Ég vil endilega hvetja fólk til að koma og prófa ef það hefur einhvern tímann pælt í því. Maður tapar ekkert á því,“ segir Rakel að lokum.