Aðeins 6% fullorðinna Íslendinga fóru í ljósabekk einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum. Þetta kemur fram niðurstöðum árlegrar könnunar um notkun ljósabekkja á Íslandi og framkvæmd er af Gallup fyrir hönd samstarfshóps Geislavarna, Embætti Landslæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.
Sama hlutfall fullorðinna Íslendinga notaði ljósabekki á síðasta ári, en árið 2019 notuðu 11% fullorðinna Íslendinga ljósabekki. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá því árlegar kannanir hófust árið 2004.
Hlutfall þeirra sem höfðu notað ljósabekki var hæst hjá aldursbilinu 18 – 24 ára, eða um 21%. Um 12% karla og um 30% kvenna á aldrinum 18-24 ára höfðu notað ljósabekki á síðustu 12 mánuðum.
Niðurstöðurnar sýndu einnig að um 12% svarenda höfðu brunnið a.m.k. einu sinni af völdum ljósabekkja eða sólar á síðastliðnum 12 mánuðum. Það er sama hlutfall og í fyrra og það lægsta frá árinu 2013, þegar þessi spurning var fyrst lögð fyrir. Árið 2019 var sama hlutfall 19% en var 27% árið 2013.
Frá árinu 2004, þegar mælingar á notkun ljósabekkja hófust, hefur dregið verulega úr notkun þeirra. Árið 2004 höfðu um 30% fullorðinna notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði, en frá árinu 2013 hefur þessi tala verið um 10%, þar til í fyrra og í ár þegar hlutfallið er komið niður í 6%.
Geislavarnir fagna þessum áfanga að því er fram kemur í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins, enda fylgir notkun þeirra aukin hætta á húðkrabbameini. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt.