Ætlaði að verða besti dópistinn

Inga Hrönn Jónsdóttir.
Inga Hrönn Jónsdóttir.

Inga Hrönn Jónsdóttir er 26 ára móðir og gengur nú með sitt annað barn. Inga Hrönn eignaðist sitt fyrsta barn aðeins 16 ára gömul og byrjaði að neita fíkniefna aðeins nokkrum vikum eftir að hún fæddi dóttur sína í heiminn. Í dag hefur hún verið edrú í 13 mánuði. Inga Hrönn er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman. 

Inga Hrönn segist vera heppin að vera á lífi. „Það er ekki sjálfgefið að ég sé enn þá hérna megin og dragi andann, miðað við hvernig líf mitt hefur verið,“ segir Inga. 

Þegar hún var um 10 ára gömul kom veikur maður inn í líf hennar og móður hennar. Hann glímdi við áfengisvanda og beitti þær ofbeldi. Eftir að móðir hennar sleit sambandinu við hann sat hann um þær og braust inn til þeirra. Í kjölfarið þróaði Inga með sér kvíða og finnur hún enn fyrir áhrifunum í dag. 

„Ég finn stundum fyrir því að ég verð vör um mig og horfi í kringum mig til að athuga hvort ég sjái hann þegar ég labba Laugaveginn eða eitthvað svoleiðis,“ segir Inga og bætir við að á þessum tíma hafi hún breyst úr gömlu, hressu og glöðu Ingu.

Sextán ára gömul varð hún ólétt að dóttur sinni eftir stutt kynni við barnsföður sinn. „Ég gerði mér enga grein fyrir því að ég væri barn að eignast barn, ég sá fyrir mér lítið barn og einhvern dúkkuleik. Ekki ábyrgðina sem fylgir,“ segir Inga. 

Aðeins nokkrum vikum eftir fæðingu dóttur hennar var hún farin út að skemmta sér. Hún fann sig í vafasömum félagsskap og tók ákvörðun um að prófa kannabis. Á þeim tímapunkti fann hún lausn við öllum sínum vandamálum, hún ákvað að prófa öll efni sem hún kæmist í.

„Ég setti mér markmið, hræðilegt markmið, ég ætlaði að verða besti dópistinn“, segir hún og brosir út í annað.

Inga Hrönn missti dóttur sína frá sér í fóstur og segir að það hafi verið léttir því þegar fíknin hefur tekið öll völd kemst ekkert annað að. „Ég elska dóttur mína meira en allt í þessum heimi en eins erfitt og það er að viðurkenna það þá var léttir þegar hún var send í fóstur því þá gat ég verið handtekin án þess að það væri vesen með barnavernd til dæmis.“

Inga Hrönn var edrú í 28 mánuði áður en hún féll árið 2019. Á þeim tíma leið henni samt sem áður ekki vel, hún náði ekki þeim bata sem hún hefur náð í dag.

Hún hefur lifað lífi sem margir geta einungis ímyndað sér, lífið á götum Reykjavíkur, notað vímuefni í æð og upplifað mikla fordóma frá samfélaginu, lögreglu, heilbrigðisstarfsfólki og hinum almenna borgara. „Ég skil best fordómana hjá fólkinu sem er að labba úti og sér fólk sem er kannski heimilislaust vegna þess að fréttir og fjölmiðlar gefa fólki ástæðu til að vera hrætt við okkur en fordómarnir hjá lögreglunni eða á spítalanum eru óþolandi og ég skil þá ekki.“

Inga Hrönn hefur verið í bata frá vímuefnavanda í 13 mánuði og upplifir hversdagslega hluti áhugaverða og spennandi, eitthvað sem var óspennandi og óhugsandi áður fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda