Sigríður Ragna Árnadóttir er látin 32 ára að aldri. Hún lést hinn 4. mars eftir tæplega árs baráttu við krabbamein. Sigríður lætur eftir sig tvær dætur sem eru 12 og 9 ára gamlar.
Sigríður, sem alltaf var kölluð Sigga, var fædd á Blönduósi hinn 24. febrúar árið 1990. Hún var næst elst sex systkina. Móðir hennar er Herdís Helga Sigríðardóttir en faðir hennar lést úr krabbameini þegar Sigríður var sextán ára gömul.
Sigríður sagði Smartlandi sögu sína í janúar á þessu ári. Hún greindist með brjóstakrabbamein á lokastigi í maí á síðasta ári. Greindist hún eftir að hafa gengið til lækna í eitt og hálft ár. Seinna greindist hún með hjartabilun, Cushing heilkenni, og æxli í heila, eitlum og lifur.
„Ég vissi ekkert hvað var að mér. Ég vissi ekki af hverju ég fór úr því að vera aldrei veik yfir í að vera alltaf veik. Ég var alveg fegin, en ég hugsaði líka hvað ef það hefði verið hlustað á mig fyrir einu og hálfu ári?“ sagði Sigríður í viðtalinu. Það var henni skýrt í huga að kerfið hefði brugðist henni því ítrekað var henni sagt að hún væri of ung til að fá brjóstakrabbamein og henni bent á að létta sig.
Þegar Smartland ræddi við hana hafði hún farið í brjóstnám og beið eftir að hún næði heilsu til að fara í brjóstnám á hinu brjóstinu.
Útför Sigríðar verður gerð frá Seljakirkju hinn 16. mars klukkan 15. Fjölskylda hennar hefur hafið söfnun vegna útfararinnar og þau sem vilja leggja þeim lið er bent á reikning 0123-26-034517, kennitala 030812-2630. Afgangurinn af söfnuninni mun renna til dætra hennar.
Athugið reikningurinn er skráður á Alexöndru Árný Kristófersdóttur, dóttur Sigríðar.