Guðni Gunnarsson, eigandi Rope Yoga-setursins, býður lesendum mbl.is upp á 14 daga vitræna áskorun. Áskorunin snýst um að auka vellíðan og vitræna nálgun á huga og sál í nokkrum skrefum.
„Athygli er auðlind og athygli er ást. Áskorun dagsins snýst um að vakna til vitundar og veita því athygli sem skiptir þig máli. Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar,“ segir Guðni.
Vaknaðu til vitundar og veittu því sérstaka athygli hvert þú, sem einstaklingur, beinir þinni athygli. Þjálfaðu hugann í að vera í fullri vitund. Þjálfaðu þig í að vera í núinu en þjálfaðu þig líka í að vera fjarstaddur.
Taktu fyrsta skrefið í átt að vellíðan og upphafi andlegrar vegferðar þinnar með því að vakna til vitundar. Njóttu ferðalagsins með þér og reyndu að láta þér líða vel í eigin návist.
Við bjóðum þér í 14 daga ferðalag þar sem þú þróar þína velsæld út frá nokkrum skrefum. Leyfðu þér að vera ást. Leyfðu þér að njóta hamingjunnar.