Hvað á að gera við gamla flugfreyjubúninga?

Starfsmenn Play í einkennisfatnað félagsins sem er lýst sem „þægilegum …
Starfsmenn Play í einkennisfatnað félagsins sem er lýst sem „þægilegum og nútímalegum“. Play

Ragna Sara Jónsdóttir og Rakel Eva Sævarsdóttir eru nágrannar í vesturbænum sem eiga það sameiginlegt að vera umhverfisvænar í hugsun og háttum. Þær eru viðmælendur Margrétar Stefánsdóttur og Lenu Magnúsdóttur í hlaðvarpsþættinum Ekkert rusl. 

Ragna Sara vinnur í hönnunargeiranum en Rakel Eva í flugbransanum. Sú fyrrnefnda rekur fyrirtækið Fólk Reykjavík sem hannar og selur vandaðar hönnunarvörur undir vörumerkinu hérlendis og erlendis. Rakel Eva starfar sem yfirmaður sjálfbærni hjá flugfélaginu Play.

Ragna Sara telur að neytendur eigi að geta fengið að vita kolefnisfótspor vöru og ber þetta saman við matvæli.

„Við gerum æ ríkari kröfu um að vita hvaðan matvælin koma og hvernig þau eru meðhöndluð. Þetta á líka að eiga við um ýmsar vörur svo sem húsbúnað og húsgögn sem við kaupum,“ segir Ragna Sara.

Ragna Sara Jónsdóttir og Rakel Eva Sævarsdóttir.
Ragna Sara Jónsdóttir og Rakel Eva Sævarsdóttir.

Rakel Eva hefur líka dýft tánum í veitingabransann en hún gerði á sínum tíma skemmtilega tilraun og rak veitingastaðinn Borðið. Þangað mátti koma með eigin vínflösku og greiða tappagjald. Hún segir fólk ekki hafa verið tilbúið fyrir þessa hugmynd þá. Nú hefur hún sem fyrr segir tekið við þessari nýju stöðu hjá Play og heyrir þar beint undir forstjóra. Hún segir reglurnar í fluggeiranum hamla ýmsu sem snýr að sjálfbærni en það sé engin afsökun og flugfélög um allan heim séu að hugsa leiðir til þess að auka við sjálfbærni og umhverfisvænni rekstur.

Fæstir farþegar vita að allt rusl sem myndast um borð í flugvél þarf að brenna, hvort sem um er að ræða umbúðir sem hafa komið í snertingu við mat eða drykki.

Margréti og Lenu, sem eitt sinn voru báðar flugfreyjur, órar við því að það þurfi að brenna allt þetta magn.

Ragna Sara segir að ef hún hefði vitað þetta með brennsluna myndi hún nota sama glasið út flugið og borða vel áður en hún færi um borð – það verði hennar nýi háttur á. Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð hafa verið Rögnu Söru hjartans mál frá því að hún var ung og hefur hún komið víða við. Þegar hún var í draumstöðunni sinni hjá Landsvirkjun þar sem hún stýrði þessum málaflokki ákvað hún að segja upp starfinu og stökkva út í djúpu laugina og stofna Fólk Reykjavík. Hana langaði til þess að vinna í því frá a-ö að hanna vörur með völdum hönnuðum eingöngu úr endurnýtanlegum efnum. Vörur sem aldrei fara í urðun.

Í þættinum sýndi hún Lenu og Margréti fallega hannað borð þar sem textíll hefur meðal annars verið nýttur í hönnunina og til þess að endurnýta textílinn þurfti til að mynda ekki að nota neitt vatn.

„Gamlar sængur eru nýttar sem fyllingar í púðana,“ segir Ragna Sara.

Rakel Eva segir að hún heyri það oftar í dag en áður að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það ákveði að ferðast til útlanda. Hún telur þetta vera vegna ríkari umhverfismeðvitundar en vissulega vilja flestir halda áfram að upplifa ævintýri og aðra menningarheima en mikilvægt sé að skoða hjá sjálfum sér hvernig megi gera það á umhverfisvænni máta. Hún segir að Play leiti allra leiða til þess að sporna við slæmri þróun en flugvélaflotinn þeirra samanstendur af nýjum vélum sem eru mun sparneytnari en eldri vélar.  

Óvæntir möguleikar á samstarfi á milli þessara tveggja fyrirtækja komu upp í þættinum þar sem Play er í vanda með að losa sig við einkennisklæðnaðinn eftir að hann er orðinn slitinn og ónothæfur en Ragna Sara mun mögulega finna út úr því hvernig megi endurnýta fatnaðinn ásamt með hönnuðum sínum. Ónothæf einkennisföt færu annars í urðun og landfyllingu. Við spyrjum eftir þennan þátt „Hvernig getum við hannað okkur inn í betri heim?“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Margrét Stefánsdóttir og Lena Magnúsdóttir stýra hlaðvarpinu, Ekkert rusl.
Margrét Stefánsdóttir og Lena Magnúsdóttir stýra hlaðvarpinu, Ekkert rusl.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda