Opnuðu Crossfit-stöð í Snæfellsbæ

Kristfríður Rós Stefánsdóttir og Gestheiður Guðrún Sveinsdóttir, eigendur CF SNB.
Kristfríður Rós Stefánsdóttir og Gestheiður Guðrún Sveinsdóttir, eigendur CF SNB. Ljósmynd/Aðsend.

Vinkonurnar Gestheiður Guðrún Sveinsdóttir og Kristfríður Rós Stefánsdóttir opnuðu fyrstu Crossfit-stöð Snæfellsbæjar, CF SNB, fyrir þremur árum. Í dag er stöðin full af duglegum iðkendum, en þær segja lítið samfélag hafa myndast innan stöðvarinnar sem hafi aukið fjölbreytileika félagslífs og stuðli að aukinni samheldni bæjarbúa á öllum aldri. 

Einstakt útsýni í CF SNB.
Einstakt útsýni í CF SNB. Ljósmynd/Aðsend.

Gestheiður og Kristfríður eru báðar með BS-gráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands, en Kristfríður mun útskrifast með mastersgráðu jólin 2022. Þær vinna báðar í Crossfit-stöðinni þar sem þær þjálfa og sinna rekstri fyrirtækisins. Samhliða vinnur Gestheiður á hjúkrunarheimilinu Jaðri, þar sem hún sér meðal annars um leikfimi heimilismanna, og Kristfríður var nýlega ráðin íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar. 

„Hugmyndin um að opna Crossfit-stöð hér heima í Snæfellsbæ kom upp þegar við vorum báðar að klára námið í háskólanum og hugurinn fór að leita heim. Við höfðum báðar verið að æfa Crossfit fyrir sunnan og höfðum mikinn áhuga á íþróttinni.“

„Við fórum og skoðuðum húsnæði á Rifi, sem stóð autt og hafði verið það lengi. Okkur leist vel á húsnæðið þar sem það uppfyllti kröfur um tvo búningsklefa, sturtur og bauð upp á mikið gólfpláss.“

Frábær aðstaða í CF SNB.
Frábær aðstaða í CF SNB. Ljósmynd/Aðsend.

Í kjölfarið fóru vinkonurnar, ásamt kærustum þeirra, Jóni Steinari og Heimi Þór, á fullt að skoða hvort leyfi gæfist fyrir því að opna Crossfit-stöð í húsnæðinu. 

„Við tvær skelltum okkur svo á Crossfit Level 1 þjálfaranámskeið og fórum á fullt að panta búnað. Um það bil tveimur mánuðum síðar, eða í maí 2019, opnuðum við svo stöðina með fyrsta grunnnámskeiðinu. Við fengum Evert Víglundsson, meðeiganda og yfirþjálfara Crossfit Reykjavík, til að koma vestur og aðstoða okkur með það. Crossfit var þarna nýtt fyrir bæjarbúum heima svo aðsóknin var vonum framar og mikill áhugi meðal fólks,“ segja þær. 

„Í dag er stöðin okkar full af ótrúlega duglegum iðkendum, sem mæta á æfingu 4 til 5 sinnum í viku. Fyrir utan almennu tímana okkar höfum við verið með námskeið fyrir konur, börn, nýbakaðar mæður og eldri borgara.“

Ljósmynd/Aðsend.

Aðspurðar segja Gestheiður og Kristfríður fjölbreytileika Crossfit vera mikinn kost. „Allir eiga að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Við höfum alltaf sagt og segjum það enn að Crossfit er fyrir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda