Lárus Logi Elentínusson er með þúsundir fylgjenda á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann er þekktur undir nafninu Eldgosi. Fylgjendur hans eru vanir að sjá þar grín og glens en fæstir vita að ástæða þess að Lárus byrjaði á TikTok var sjálfsvígstilraun.
„Miðað við karakterinn minn á TikTok þá býst fólk ekkert við því að mér líður illa, bara eiginlega alltaf,“ segir Lárus Logi í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar þar sem hann opnar sig um þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfsvígstilraun.
Lárus lýsir því að hann hafi verið að glíma við sjálfsvígshugsanir frá því í 6. bekk og átti í svo miklum erfiðleikum með að halda sér á lífi að hann reyndi að sofa sem mest.
„Ég var að sofa um það bil 16 klukkustundir á hverjum einasta degi. Ég fór í skólann, tók lúr og fór á körfuboltaæfingu og fór svo beint heim aftur að sofa. Ég svaf í 13 tíma á næturnar og 4-5 tíma á daginn. Þetta var ekki unglingur að stækka. Það var enginn annar unglingur sem sleppti öllu félagslífi til að sofa [...] Ég var að ströggla það mikið við að halda mér á lífi,“ segir Lárus.
Hann hafi þó ekki fengið að vita að hann væri að glíma við þunglyndi fyrr en kvöldið sem hann gerði sjálfsvígstilraun. Þá hafi hann fengið uppáskrifuð þunglyndislyf og hafið fyrir alvöru vinnu með sálfræðingi.
Lárus losnaði þó ekki undan erfiðleikunum og lýsir því að hann hafi upplifað marga daga þar sem erfitt var að finna lífsneistann.
„Það var endalaust af dögum sem ég vaknaði og mig langaði ekkert að lifa,“ segir Lárus en segir að TikTok myndböndin sem hann byrjaði að framleiða hafi haldið í honum lífinu.
„Ég fer að pósta tvisvar til þrisvar á dag [á TikTok] [...] og þetta var í rauninni eina sem hélt mér á lífi.“ Hann segist hafa lifað fyrir viðbrögð fólks og elskað að sjá likes og comment.
Lárus segir eitt það mikilvægasta sem hann hafi lært sé að vera opinn um líðan sína og leyfa öðrum að hjálpa sér. „Það er enginn að fara að hugsa, oh Lárus er þunglyndur, leyfum honum bara að líða illa ég nenni ekki að díla við það. Það vilja allir hjálpa, það er alltaf einhver tilbúinn til þess.“
Þótt Lárus viðurkenni að oft komi erfiðir dagar inn á milli, hafi hann lært að erfiðu tímabilunum ljúki alltaf. „Ég hef fengið að upplifa hamingju inn á milli leiðinlegu tímabilanna og það sem lætur mér líða vel er að ég er búinn að fara í gegnum nokkur leiðinleg tímabil og þau enda alltaf. Maður sér það kannski ekki í miðju tímabili en þau enda og ég veit það bara.“
Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.
Ef þú upplifir sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.