„Rosalega margir kannast við þessi 5 til 10 aukakíló. Eða hvað eigum við að kalla þau, þessi sem sitja sem fastast og neita að yfirgefa teboðið? Kannski ekki aukakíló heldur bara kíló, hundleiðinleg kíló, sem eiga ekkert skilið að vera neitt auka,“ segir Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti í nýjasta pistli sínum:
En allavega, hvernig í skrambanum stendur á því að þau sitja föst?
Hugsanlega ertu að hreyfa þig, borða „hollan“ mat og allt það, en ekkert gerist. Hvað er málið?
Það geta auðvitað verið ýmsar ástæður fyrir þessu, en mig langar að ræða þá algengustu. Það er líklegt að líkaminn þinn sé bara hreinlega ekki í fitubrennsluformi. Hann er bara ekki stuði fyrir það form eins og staðan er.
Þó er alveg hægt að breyta því og kippa kroppnum í gírinn, það er nú það skemmtilega við þetta.
Mannslíkaminn er svo mögnuð maskína og hann bregst yfirleitt mjög vel við breytingum til batnaðar. Það er í langflestum tilfellum auðvelt að semja frið við kroppinn, með örlítið útsmognum leiðum.
Til að koma þér í fitubrennsluform þá þarftu að semja um blóðsykursfrið. Það er, að koma lagi á blóðsykurinn, sem mun svo koma þér út úr veseninu. Staðreyndin er nefnilega sú að ef að hann er ekki í jafnvægi, þá eru litlar líkur á að þú getir losað þig við kílóin.
Þarna skiptir máli að huga að samsetningu máltíðanna, þannig að þær geri ekki allt vitlaust.
Hér eru dæmi:
Morgunmatur – dæmi 1.
Hafragrautur með banana og eplum – þarna erum við með „hollan“ morgunmat, við getum alveg verið sammála um það. Hins vegar eru hafrar stútfullir af kolvetnum ásamt banana og eplum. Það þýðir að blóðsykurinn ríkur upp úr öllu valdi við svona samsetta máltíð. Það skapar ófrið.
Morgunmatur - dæmi 2.
Hafragrautur með chia og graskersfræjum, söxuðum möndlum, kanil og smá hnetusmjöri og svo jafnvel smá rjóma út á. Þarna erum við aftur með hafragrautinn en núna erum við búin að klæða kolvetnin úr höfrunum í kápu. Já svona kolvetnakápu sem kemur í veg fyrir að blóðsykurinn fari á flug. Fræ, möndlur, hnetusmjör og rjómi eru kolvetnakápur. Kanillinn er svo fínn fyrir blóðsykursjafnvægið. Við sleppum bara ávöxtunum, fimm á dag hvað! Notum þessa fimm í grænmetið frekar.
Þetta er málið, samsetning máltíðanna er svo mikilvæg þegar kemur að fitubrennsluforminu og þarna sérð þú hvernig „holl“ máltíð getur samt ruglað blóðsykursjafnvæginu og þar með fitubrennslunni.
Þegar þú sest niður til að borða næst, spáðu þá í hvort þú sért með einhverjar kolvetnakápur á diskinum.
Prótein, fita, grænmeti, trefjar. Fæða rík af þessu, kemur í veg fyrir ójafnvægi í blóðsykri, sem leiðir af sér minni fitubrennslu, mikla sykurlöngun og allskonar vesen.
Þú þarft ekkert að fara á ketó eða klippa öll kolvetni út, bara klæða þau almennilega og þá gera þau engan skandal.