Inga Kristjánsdóttir, næringarþerapisti, hefur í mörg ár hrifist af öllu sem snertir blóðsykurstjórnun, sykurlöngun og hvaða afleiðingar mikil sykurneysla hefur á líkamlega og andlega líðan.
„Maður sér svo mikinn árangur og það er hægt að fullyrða það kynroðalaust að það hentar öllum,“ sagði Inga um blóðsykurstjórnun en hún var gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum á dögunum.
„Það er enginn sem hlýtur skaða af því að taka blóðsykursveiflunum og koma blóðsykrinum í jafnvægi,“ sagði Inga.
Inga hefur aðstoðað ófáa við að efla og stuðla að bættu heilbrigði í gegnum tíðina. Í haust og vetur mun Inga bjóða upp á ýmsa fræðslu í þessum efnum en hún verður bæði með einkanámskeið fyrir litla hópa og stærri námskeið í samstarfi við einkaþjálfarann Guðríði Erlu Torfadóttur, betur þekkt sem Gurrý.
„Það góða við þetta er það að fólk getur haldið svolítið sömu innkaupum í ísskápnum, fyrir utan kannski sykurinn, kökurnar og kexið og þennan sýnilega sykur því þetta snýst um það hvernig maður raðar máltíðum saman á diskinn,“ sagði Inga sem hvetur alla þá sem upplifa einhvers konar vanlíðan að prófa að koma blóðsykrinum í jafnvægi, það hefur skilað mörgum miklum árangri.
Líkt og áður hefur komið fram var Inga Kristjánsdóttir viðmælandi Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum en þar ræddu þær um sykurneyslu og neikvæð áhrif hennar á andlega og líkamlega heilsu. Viðtalið við Ingu má nálgast í heild sinni hér.