„Stórt hlutfall innlagna á gjörgæsludeild tengt áfengisneyslu“

Þóroddur segir áfengisneysla valdi alvarlegum slysum og alvarlegum byltum hjá …
Þóroddur segir áfengisneysla valdi alvarlegum slysum og alvarlegum byltum hjá eldra fólki. Ljósmynd/Colourbox

Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk fær áminningu um mikilvægi góðrar heilsu alla daga en skyldi starfsstéttin huga betur að eigin heilsu en aðrir landsmenn? Þóroddur Ingvarsson, gjörgæslu-og svæfingalæknir, segir að langvarandi áfengisneysla valdi alvarlegum langvinnum sjúkdómum. 

„Það er rosalega mikilvægt að passa upp á heilsuna bæði andlega og líkamlega. Hjá mér er þetta alltaf svolítil togstreita. Það væri þægilegt ef þetta væri ómeðvitað, fast í daglegri rútínu og meðvitundin þyrfti aldrei að rökræða við skynsemina varðandi það að setja þessi atriði í fremsta forgang. Sjálfan langar mig afskaplega mikið að vera laus við mestalla kviðfitu, vera léttari á mér og geta farið hraðar á skíðum – vera þindarlaus, orkubolti. Mig langar að vera í kjörþyngd, samkvæmt skilningi mínum á henni,“ segir Þóroddur Ingvarsson, svæfingalæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, spurður út í sínar eigin heilsuvenjur.
Þóroddur Ingvarsson ásamt eiginkonu sinni.
Þóroddur Ingvarsson ásamt eiginkonu sinni.

Hann segir að helst myndi hann vilja fá ótruflaðan svefn í átta klukkustundir hverja nótt, fara á æfingu fimm sinnum í viku fyrir vinnu og fá sér trefjaríkan, fitu- og próteinríkan morgunmat. Þá vildi hann borða salat í hádeginu og borða fjölbreyttan kvöldmat gerðan frá grunni fyrir kl. 18.00 á hverju kvöldi og ekkert eftir það. Sleppa áfengi, forðast sykur og fara í sund. Eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum, skipuleggja næsta dag og vera farinn í rúmið klukkan 22.

„En hvað geri ég af þessu? Jú, eitthvað af og til, og sumt á hverjum degi. Ég nota aldrei tóbak, drekk sjaldan áfengi. Hreyfi mig, hugleiði annað slagið, reyni að fá nægan svefn. Reyni að vera skipulagður og forðast stress. Sú hreyfing sem ég vel er sú sem mér finnst skemmtilegust. Í mínum huga er ekki til betri heilsubót en skíðaganga og hjólaskíði á jafnsléttu á sumrin. Átök fyrir allan líkamann en á sama tíma án mikils álags á liði og meiðslahætta lítil.“

Telur þú að læknar hugsi almennt betur um heilsuna en aðrir?

„Ég veit ekki hvort læknar hugsa meira um heilsuna en aðrir. Jú, líklega heldur meira en meðaleinstaklingur. Merkilegt nokk er nær engin kennsla um þetta í læknadeild og eða í flestu sérnámi eftir því sem ég veit best. Námið hefst með grunnþekkingu og þá er farið yfir starfsemi heilbrigðs líkama. En svo er fljótlega allur fókus á að láta fólki í té þekkingu um hvernig eigi að greina sjúkdóma og helst lækna þá en ekki er eytt einum heilum degi í vísindin um hvernig eigi að hindra að fá sjúkdóma. Samfara fræðslu um sjúkdóma er að sjálfsögðu farið yfir þekkta áhættuþætti hvers sjúkdóms en ég ætla samt að leyfa mér að segja að læknar sem hópur útskrifast ekki með neina sérstaka þekkingu á því hvað er heilsusamlegt. En svo lengi lærir sem lifir og í starfinu fær maður einnig fljótlega á tilfinninguna hvað er heilsusamlegt og hvað ekki. Með árunum hefur áhuginn á þessu einnig aukist og flestir heilbirgðisstarfsmenn reyna líklega að tileinka sér nýjustu rannsóknir innan síns fags og þá einnig hvað hægt er að gera til að halda í góða heilsu,“ segir Þóroddur.

Hann bendir á að heilsuiðnaðurinn og markaðurinn honum tengdum er ógnarstór og fjárhagslegir hagsmunir miklir. Af þessu geti stafað ákveðin ógn og mikið til af rannsóknum innan þessa sviðs þar sem ákveðnar niðurstöður eru dregnar sem fara svo í umfjöllun og oft dregnar frekari ályktanir sem í sumum tilfellum eru of viðamiklar.

„Í dag held ég að það sé hægt að styðja óteljandi mismunandi skoðanir um heilbrigði með einhverjum rannsóknum. En flestar þeirra eru stakar, litlar rannsóknir og ein slík rannsókn sannar ekkert. Flestir læknar búa yfir þekkingu til að rýna í rannsóknir og eru því sjaldan höfundar eða vitnað í þá í fyrirsögnum um heilsu. Til dæmis hafa rannsóknir ekki getað með óyggjandi hætti bent á neitt ákveðið mataræði umfram annað sem bætir heilsu. Í mínum huga eru eftirfarandi atriði staðreyndir sem studdar eru stórum endurteknum rannsóknum sem falla einnig vel inn í það sem ég hef séð í starfi mínu sem svæfinga- og gjörgæslulæknir. Hreyfing bætir heilsu. Reykingar, offita og langvarandi stress er slæmt fyrir heilsuna. Þá er áfengi slæmt fyrir heilsuna og eru ekki til nein lægri öryggismörk þar sem segja má að áfengi sé ekki skaðlegt heilsu.“

Hann segir þetta vissulega engar nýjar fréttir nema kannski hvað varðar áfengisneysluna, því sú mýta sé lífseig að eitt og eitt rauðvínsglas sé jákvætt fyrir heilsuna.

„Í mínu starfi er til dæmis ótrúlega stórt hlutfall innlagna á gjörgæsludeild tengt áfengisneyslu og það hjá öllum aldurshópum. Áfengi veldur alvarlegum slysum og alvarlegum byltum hjá eldra fólki. Langvarandi áfengisneysla veldur alvarlegum langvinnum sjúkdómum eins og til dæmis lifrarbilun, heilabilun og eykur líkur á krabbameinum. Aukin tíðni er um alvarlegar sýkingar sem þurfa meðferð á gjörgæslu hjá einstaklingum sem drekka áfengi. Heilbrigðiskerfið í Svíþjóð ráðleggur til dæmis algjört bindindi 4 vikum fyrir og 4 vikum eftir allar aðgerðir til að draga úr líkum á aukaverkunum. Í mínum huga er það jákvætt fyrir heilsuna sem bætir líf okkar í gegnum árin en bætir ekki bara árum við lífið og hvað það er verður nú hver og einn að finna út úr sjálfur á endanum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda