Lenti í fangelsi í Brasilíu og er nú heimilislaus

Ragnar Erling Hermannsson er gestur hlaðvarpsins, Sterk saman.
Ragnar Erling Hermannsson er gestur hlaðvarpsins, Sterk saman.

Ragnar Erling Hermannsson er orkumikill og kröftugur. Hann byrjaði í neyslu 13 ára gamall og náði ákveðnum botni þegar hann var tekinn með sex kíló af kókaíni í Brasilíu árið 2009. Þá var hann 24 ára. Hann var í fjögur ár í fangelsi þar í landi og er nú heimilislaus. Hann er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

Ragnar er oft kallaður Raggi Turner en hann segir Tinu Turner hafa bjargað lífi sínu þegar hann upplifði mikið einelti, alla sína skólagöngu. 

„Ég veit ekki hvort ég get kallað þetta skóla. Fyrir mig voru þetta pyntingar í tíu ár, ég var lagður í svo mikið einelti. Tina Turner bjargaði mér því ég gat þá komið heim og sett diskinn á og gleymt mér í tónlistinni hennar,“ segir Raggi.

Móðir Ragnars var ung þegar hún eignaðist hann, svo fyrstu árin bjó hann hjá móðurömmu sinni en eftir það hjá móður sinni.

„Mamma gerði allt eins vel og hún gat, það þekktist ekkert einelti eða kvíði. Ég grenjaði og vildi ekki fara í skólann en það sem ég veit í dag er að það gerðu allir sitt besta.“

Raggi byrjaði í neyslu aðeins 13 ára gamall en segir að það hafi í raun ekki hafa verið lausn. Hann upplifði mikla vanlíðan og var í uppreisn. Eins og hjá svo mörgum öðrum, þróaðist neyslan hratt og einn daginn var hann kominn í fangelsi í Brasilíu. 

„Ég man að ég hélt alltaf að ég væri á leiðinni heim, ég trúði þessu ekki.“

Hann upplifði sig sem mikið fórnarlamb á þeim tíma og bætir við að á ákveðnum tímapunkti hafi hann tekið ákvörðun um að draga lærdóm af þessu fyrst hann þyrfti að vera þarna og gæti engu breytt.

Ragnari verður heitt í hamsi þegar umræða um fólk með vímuefnavanda er annars vegar. Hann býr á götunni og heldur til í gistiskýlinu úti á Granda. Hann sparar ekki fallegu lýsingarorðin um starfsfólk skýlisins.

„Þetta eru englar í mannsmynd og svo langar mig að hrósa lögreglunni sem hefur heldur betur breytt sínum viðhorfum.“

Gistiskýlin eru opin frá fimm á daginn til tíu á morgnana. Ragnar segir þetta ekki mönnum bjóðandi. Það sé ekki í lagi að henda fólki út í hvaða veðri sem er. 

„Þann 12. október ætlum við ekki að fara út klukkan tíu. Við munum vera kyrr. Reykjavíkurborg hefur einn mánuð til þess að gera ráðstafanir. Þetta eru sjö klukkustundir á dagvinnutíma sem þeir vilja ekki hafa opið. Það er kominn tími á okkur núna, fólkið sem er með fíknisjúkdóm,“ segir hann. 

Ragnar gagnrýnir meðferðarúrræðin sem í boði eru, segir allt vera í eina átt, þetta sé eins og skólakerfið. Allir eigi að vera edrú.

„Ef þú passar ekki inn í kassann þá ertu ekki velkominn,“ segir Ragnar og bætir við að hann sé kominn með nóg af því að biðjast afsökunar á því hver hann sé. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda