„Við sjáum þetta í fjölmiðlum, raunveruleikaþáttum og hjá áhrifavöldum“

Konur um allan heim keppast nú við að hrista af …
Konur um allan heim keppast nú við að hrista af sér kílóin til að fylgja Y2K-tískunni. Samsett mynd

Uggs-skór, low-rise gallabuxur og klemmur í hárið hafa komist aftur í tísku árið 2022. Það er fleira sem komist hefur í tísku að mati tískuspegúlanta um heim allan og er því tískutrendi ekki tekið jafn fagnandi og öðrum. Það er heróínútlitið sem tröllreið tískuheiminum í kringum aldamótin.

Trendið er nátengt tískunni sem fengið hefur nafnið Y2K-tískan og ýtir undir að fólk, þá sérstaklega konur séu svo grannar að hægt sé að telja í þeim rifbeinin. Silja Björk Björnsdóttir rithöfundur segir greinilegt að Y2K sé með ákveðna endurkomu.

„Við sjáum þetta í fjölmiðlum, raunveruleikaþáttum og hjá áhrifavöldum, fólki og þá sérstaklega oft hjá frægum konum sem voru mýkri, þyngri og með þéttari línur sem eru núna að einblína á það að halda sér eins léttum, grönnum og litlum og hægt er. Og í flestum tilfellum er þetta ekki gert í nafni heilbrigðara lífernis, heldur vegna þess að núna er líkamstískan að sveiflast í átt að ofurfyrirsætulúkkinu fyrir aldamót,“ segir Silja í samtali við mbl.is.

Silja Björk Björnsdóttir rithöfundur.
Silja Björk Björnsdóttir rithöfundur.

Tískan að vera sem mjóust

Silja segir enn fremur að umræðan sé flókin. Fyrir ekki svo löngu þótti meira aðlaðandi að vera með stærri rass og brjóst, og almennt mýkri línur.

„Jákvæð líkamsmynd eða hlutlaus líkamsmynd gengur náttúrulega út á það að allir líkamar séu fallegir, hvort sem það eru ofurgrannir líkamar eða feitir en á sama tíma er mikilvægt fyrir fólk að útliti þeirra, líkömum og litarhætti séu gerð góð og sanngjörn skil í poppmenningunni, að það sé ekki eitthvað eitt útlit sem hafið er yfir annað. En það er auðvitað erfitt, þegar ákveðnar líkamstýpur eða útlit er í tísku – og sérstaklega ef líkamstýpan eða útlitið er í svona erfiðum og rauninni, óviðráðanlegum skorðum. Við erum ekki að tala um að lita hár eða kaupa sér gallabuxur, við erum að tala um að núna er líkamstískan að sveiflast í þá átt að best er að vera í sem lægstri kílóatölu, með sem lægsta fituprósentu, vera sem grennst. Þetta er að mínu mati mjög erfið þróun,“ segir Silja.

Skaðleg áhrif

Silja segir að þegar megrun, mataræði, útlit og líkamar eru í tísku á þennan hátt, og þegar það er sífellt verið að ræða um þessa hluti upphátt og opinberlega geti það haf mjög skaðleg áhrif. 

Verið sé að búa til ósanngjarnar forsendur til samanburðar og að samfélagsmiðlar geri okkur auðveldara fyrir að detta í þennan samanburð. 

„Það gleymist svo oft að þessar manneskjur, sem eru í svona rosalegu formi eða eru svona rosalega mjóar – hafa ekki bara allan tímann í heiminum, heldur aðgang að lýtalæknum, næringarfræðingum, einkaþjálfurum og kokkum, aðgang að hreinum og góðum mat, fæðubótaefnum og aðgerðum sem við hin höfum ekki. Þess vegna er þetta svo óraunverulegt og ófáanlegt markmið, alveg sama hvort það er í tísku að vera með stóran rass eða lítinn, þá er engin leið fyrir okkur meðaljónin að ná þessu útliti án þess að hafa þetta aðgengi sem ríkidæmi þessara stjarna veitir,“ segir Silja.

Blaðamaður spyr hvort það sé eitthvað eðlilegt við það að ákveðinn vöxtur, líkamsgerð, sé í tísku. Það er jú eitthvað sem ekki er hægt að breyta nema með því að fara í fegrunaraðgerð.

„Jú, það er auðvitað algjörlega galið og það er klárlega rótin að vandanum – að einn ákveðinn líkami sé í tísku fram yfir annan,“ segir Silja og bendir á að það sé í raun samt ekkert nýtt. Hún bendir sömuleiðis á að kvenlíkamar verði oftar skotspónn óréttmætrar gagnrýni frekar en karllíkamar. 

„Man fólk ekki eftir því þegar „dadbod” eða „pabbalíkaminn” var í tísku hérna fyrir nokkrum árum? Þá máttu karlar vera með smá bumbu, smá skegg, smá svona bangsalegir og heimilislegir. Slíkt hefur ekki verið í tísku hvað varðar kvenlíkama lengi, það er frekar þessi þráláta mýta um að „smella til baka” í „gamla formið” eftir barnsburð. Heilu greinarnar og blöðin sem hafa verið undirlögð fáránlegum megrunarkúrum frægra kvenna sem hafa „smollið til baka” á örfáum mánuðum eftir fæðingu, eins og það sé eðlilegt,“ segir Silja.

Khloé Kardashian.
Khloé Kardashian. Skjáskot/Instagram

Áhrif Kardashian

Það er óhjákvæmilegt að ræða um frægustu konur heims, Kardashian-systurnar, í þessari umræðu. Fyrr á árinu ræddi Silja við Smartland um það sem hefði átt að vera stærsta tískuaugnablik ársins, þegar Kim Kardashian klæddist kjól leikkonunnar Marilyn Monroe á Met Gala-kvöldinu. Öll athyglin beindist hins vegar að því hversu hratt og mikið Kardashian grenntist til þess að komast í kjólinn. 

Á þeim tíma benti Silja á að þau áhrif væru skaðleg. Annað augnablik sem tröllriðið hefur tískuheiminum er þegar fyrirsætan Bella Hadid gekk, svo gott sem nakin, á tískupallinum á tískuvikunni í París, og kjóllinn var spreyjaður á hana. Spurð hvaða áhrif svona augnablik hafa og hvernig þau verða að táknmynd segir Silja að það sé flókið samband á milli okkar sem neytenda og táknmynda fegurðar, tísku og kvenleika. 

„Það er erfitt að segja hver ber ábyrgð og hver ekki, en það er eitthvað í okkur manneskjunni sem veldur því að að eðlisfari þá treystum við betur þeim sem við metum „falleg”, við eigum auðveldara með að meðtaka upplýsingar frá fólki sem er „fallegt” og það er einhvernvegin þægilegra fyrir okkur. Hvort að það sé eitthvað í okkar genamengi eða hreinlega eitthvað í menningunni okkar er ekki gott að segja,“ segir Silja. 

Kim Kardashian á Met Gala-kvöldinu.
Kim Kardashian á Met Gala-kvöldinu. AFP

Silja, sem er með BA-gráðu í kvikmyndafræði, segir að táknmyndir úr skemmtanabransanum blæði yfir í poppmenninguna. Þannig eru illmenni í kvikmyndum oft með einhver lýti eða fatlanir, en góða fólkið fallegt og með „fullkomna“ líkama. Neytendunum finnist betra að horfa á „góða og fallega“ fólkið og þannig sé þeirri hugmynd haldið að okkur að „venjulega“ fólkið geti orðið fallegt eins og Kim, Bella, Gigi eða Kate Moss.

„Svo fær þetta fallega fólk gríðarleg völd, völd sem eru oftar en ekki notuð til þess að viðhalda þessari hugmynd um að fegurð og ákveðið útlit sé betra en annað. Það eru fáir sem nota þessi forréttindi sín og þessi völd til þess að tala gegn megrunarmenningunni, útlitsdýrkuninni. Það verða bara einhver tengslarof milli raunveruleikans sem við búum í og þau búa í, glansmyndin er svo sterk og svo björt og aðlaðandi að við getum ekki annað en starað beint á hana og brennt í okkur heilana í leiðinni,“ segir Silja.

Eitt af stærstu tískuaugnablikum ársins þar sem Bella Hadid gekk …
Eitt af stærstu tískuaugnablikum ársins þar sem Bella Hadid gekk tískupallinn á nærbuxunum einum saman. AFP

En bera þær ábyrgð?

Blaðamaður bendir á að fyrir nokkrum árum hafi Kardashian-systur komið þeirri bylgju af stað að mýkri línur þættu fallegri, þá sérstaklega stórir rassar. Á árinu hafi útlit þeirra systra, þá sérstaklega Kim og Khloé, farið að breytast og þær orðið grennri. Fjölskyldan hefur auðvitað alltaf verið upptekin af útlinu og í gegnum árin reynt auglýst og selt hinar ýmsu töfralausnir. 

En bera þær einhverja ábyrgð á því hvert umræðan er komin og þessari tísku?

„Já, auðvitað gera þær það, að mínu mati alla veganna. Þó að þær séu algjörlega afkvæmi þessarar megrunarmenningar og útlitsdýrkunnar sem viðgengist hefur í árþúsundir, eins og við flest – þá hafa þær eitthvað sem við Jón og Gunna höfum ekki, þær hafa völd. Þær hafa ótrúleg völd sem þær eru ekki að nýta til þess að knýja fram neinar breytingar í þessum málaflokki. Það er stundum eins og þær annað hvort geri sér ekki grein fyrir eða hreinlega neiti að gera sér grein fyrir valdi sínu þegar kemur að megrunarmenningu og tískustraumum, því þó þær kvarti og kveini undan ósanngjörnum stöðlum og álagi að líta vel út, þá gera þær ekkert til að sporna við því heldur og þvert á móti,“ segir Silja. 

Hún bendir á að nýjustu raunveruleikaþættir fjölskyldunnar séu gott dæmi. Umræða hafi skapast um að heilu senurnar og söguþræðirnir séu undirlagðir af megrunarumræðu, mataræðisumræðu og skotum af þeim að skiptast á að hrósa hvorri annarri fyrir að vera mjóar. Silja segir þetta hræðilegt skref aftur á bak. 

„Það sést vel á þeim systrum Kim og Khloé Kardashian til dæmis, konur sem hafa lengi vel umfaðmað mýkri vöxt sinn, stór brjóst og stóra rassa, lítið mitti og fyllri línur en eru núna farnar að svelta sig, fara í skyndimegranir og eru orðnar tágrannar, allt til að passa í einhver fyrirfram ákveðin mót frá tískuiðnaðinum og samfélaginu. Þetta gerir það auðvitað að verkum að þær konur og ungu stelpur sem líta upp til Kardashian-systra og annarra áhrifavalda, halda að þær geti einnig breytt líkömum sínum svo um munar á stuttum tíma. Þetta ýtir undir átraskanir, óheilbrigt samband við mat og eigin líkama,“ segir Silja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda