Það þarf líka að hugsa um fæturna

Sterkir fætur, iljar og ökklar eru mikilvægir.
Sterkir fætur, iljar og ökklar eru mikilvægir. mbl.is/Getty Images

Oft vill það gleymast að huga að fótaheilsunni. Sérfræðingar mæla með ýmsum æfingum til þess að fyrirbyggja ýmis vandamál.

„Fleiri og fleiri koma til mín vegna ýmissa vandamála tengda stoðkerfinu sem rekja má til óstöðugleika í ökkla og fæti. Það sem margir átta sig ekki á er að maður þarf að æfa þessa vöðva annars leiðir þetta upp allan líkamann. Tær, iljar, ökklar, neðri fætur, hné, læri og mjóbak eru öll hluti af sömu keðjunni. Ef einn hlekkurinn er veikur þá hefur það áhrif á alla keðjuna,“ segir Dalton Wong sem þjálfað hefur stjörnur á borð við Olivia Coleman og Jennifer Lawrence.

Passa upp á bilið á milli tánna

„Það er ýmislegt lagt á fæturna. Skór sem eru asnalegir í laginu og kyrrseta fer illa með fætur. Ef ökklarnir eru stífir þá hefur það áhrif á hvernig þyngdin dreifist þegar þú gengur. Fæturnir eru oftast í skóm allan liðlangan daginn og það hefur mikil áhrif á líkamsbeitinguna. Það þarf að hreyfa tærnar og gera æfingar sem stuðla að því að jafnt bil sé á milli tánna.“

Stóra táin þarf að vera sterk

„Stóra táin segir allt sem segja þarf. Ef maður getur ekki hreyft stóru tánna, beygt hana og rétt úr henni þá hefur það áhrif á líkamsstöðuna og hreyfingunni mun hraka.“

Æfa berfættur

Sérfræðingar mæla með því að fólk geri æfingar berfættir að minnsta kosti einu sinni í viku. „Við erum svo sjaldan berfætt að jafnvel 20-30 mínútur nokkrum sinnum í viku geta gert gæfumuninn. Það tekur tíma að byggja upp vöðvana þannig að stundum er gott að fara ekki of geyst af stað heldur byrja með fimm til tíu mínútur.“

Æfingar fyrir fætur sem allir ættu að gera:

Hnébeygja sem endar uppi á tám

Stattu berfættur með fætur í mjaðmabreidd. Beygðu hnéin, þegar þú reisir þig upp aftur þá skaltu fara alla leið upp á tær. Haltu í tvær sekúndur og svo aftur niður. Endurtaktu tuttugu sinnum.

Þræddu sokk á milli tánna

Það að hafa gott bil á milli tánna er gott og styrkjandi. Sérfræðingar mæla með að fólk þræði sokk á milli tánna. Yfir eina tá og undir aðra, þannig koll af kolli. Leyfðu svo sokknum að vera í átta mínútur. Svo má taka sokkinn og glenna tærnar meira í sundur í tvær mínútur. Þetta skal gera í tíu mínútur á hverju kvöldi.

Ökklaæfingar

Sestu á gólfið og settu teygjuband utan um miðju iljarinnar. Haltu svo í hinn endann eða festu við eitthvað stöðugt eins og til dæmis borðfót. Svo áttu að beygja og rétta fótinn í átt að sköflungnum tíu sinnum fyrir hvorn fót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál