Þjálfarinn Indíana Nanna Jóhannsdóttir tók óvænta u-beygju snemma í lífinu, en eftir að hafa klárað grunnám í lögfræði fann hún ástríðuna í óhefðbundinni styrktarþjálfun og mataræðispælingum. Á nýju ári ætlar hún að taka stórt stökk og láta langþráðan draum rætast þegar hún opnar dyrnar að glænýrri og hlýlegri æfingastöð á Kársnesi í Kópavogi.
Indíana hefur getið sér gott orð í þjálfunarheiminum síðustu ár fyrir heilbrigða nálgun að heilsu, en þar að auki hefur hún komið einstöku netþjálfunarfyrirkomulagi á laggirnar sem hún hefur verið að þróa síðustu ár með góðum árangri. Þá hefur Indíana einnig boðið upp á netnámskeið um næringu og svefn þar sem hún leggur áherslu á raunhæfa og ánægjulega nálgun án allra öfga.
Það er því óhætt að segja að líf Indíönu hverfist um heilsu og hreysti, en hún leggur mikla áherslu á gæði og heilbrigðan hugsunarhátt í allri sinni þjálfun. Við fengum að skyggnast inn í líf Indíönu sem ræddi meðal annars um þjálfunina, áramótaheit og nýju æfingastöðina.
Hreyfing hefur alla tíð verið partur af lífi Indíönu sem spilaði handbolta fram á fullorðinsaldur, en þegar hún lagði handboltaskóna á hilluna um tvítugt upplifði hún sig svolítið týnda þegar kom að hreyfingu. „Þá byrjaði ég að prófa mig áfram í ræktinni og smám saman kviknaði á frekar óvæntum ofur áhuga á þessu öllu saman. Svo kynntist ég manninum mínum um svipað leyti, en hann er og hefur alla tíð verið mjög heilsumiðaður svo það hafði líka góð áhrif og kynti undir frekari pælingar í mataræðinu,“ útskýrir Indíana.
Síðan þá hefur Indíana eytt miklum tíma í að stúdera hreyfingu og næringu, en hún segir áherslur sínar sannarlega hafa breyst í gegnum árin. „Það er einmitt það sem mér þykir svo skemmtilegt, að vera opin fyrir nýjum fróðleik eða hugmyndum og finna svo út sjálf hvað hentar mér,“ segir Indíana.
Í dag leggur Indíana áherslu á heildarmyndina og að næra andlegu hliðina jafn mikið og þá líkamlegu. „Ég reyni markvisst að taka hlutunum ekki of alvarlega, án þess þó að kasta öllu sem ég veit eða hef lært út um gluggann í einhvers konar „fokk it“ hugsunarhætti. Það skiptir mig máli að vera hraust og í stakk búin til að tækla lífsins verkefni eins vel og ég get, þess vegna geri ég mitt besta til að hreyfa mig, næra mig, forgangsraða svefninum mínum og einblína á gæðastundir með fólkinu mínu,“ segir hún.
Í gegnum árin hefur Indíana þróað með sér ákveðnar þumalputtareglur sem hún hefur að leiðarljósi í mataræði sínu. Ein af þeim kallast NÁST-formúlan, en hún dregur að stórum hluta saman hennar hugmyndafræði í mataræði. Þar einblínir hún á næringu, ánægju, seddu og tilfinningu.
Nú þegar janúar er genginn í garð hafa margir sett sér markmið fyrir nýja árið, en líklega kannast einhverjir við þá tilhneigingu að setja sér háleit markmið og ætla sér að breyta öllu á einu bretti. Spurð út í áramótaheit segir Indíana mestu máli skipta að fólk finni sína leið.
„Það er frábært að finna fyrir löngun eða vissu um að þú viljir nú markvisst fara að hreyfa þig reglulega, næra þig betur eða prófa þig áfram með eitthvað nýtt sem þú telur að verði þér til heilsubóta. Við þekkjum auðvitað þessa viðvörun um að fara ekki of geyst af stað, og ég er sammála henni að einhverju leyti, en hver og einn verður þó að finna sinn farveg í þessu,“ útskýrir Indíana.
„Sjálf hef ég farið í áttir sem ég sé eftir á að voru kannski ekki svo skynsamar, en ég myndi þó ekki vilja breyta því vegna þess að ég var bara að reyna að átta mig á því hvað hentaði mér best sem er gullna reglan í þessu auðvitað. Það hafa ekki allir gaman af sömu hreyfingunni, það hafa ekki allir smekk fyrir grænum djúsum og kannski er hugleiðsla ekki leiðin að hugarró fyrir alla. Hver verður að finna sitt, en á endanum verður það varanlegt sem þér þykir ánægjulegt,“ bætir hún við.
Spurð hvort hún setji sér áramótaheit segist Indíana sjálf vera hrifnari af því að einblína á og vinna í að halda í gildin sín frekar en að setja ofur áherslu á markmiðasetningu. „Gildin mín virka eins og akkeri fyrir flest allt, ef ekki allt, sem ég geri. Ef við tengjum verkefni, markmið eða langanir við gildin okkar gefum við þeim mun meiri vægi,“ útskýrir Indíana.
„Sem dæmi er fjölskyldan eitt af mínum gildum því ég veit að strákarnir mínir, maðurinn minn og fjölskyldan mín er það sem skiptir mig lang mestu máli í þessu lífi. Þannig ég myndi ekki gera margt sem færi gegn þessu gildi. Annað gildi er heilsa eða hreysti, og út frá því koma allar mínar gjörðir eins og að sveifla ketilbjöllum, því mér þykir það skemmtilegt og það eykur mitt hreysti,“ bætir hún við.
Indíana er eigandi GoMove Iceland þar sem hún býður upp á heilsueflandi netnámskeið tengd hreyfingu, næringu og svefni. „Mér þykir gríðarlega vænt um netþjálfunina í rauninni. Með netþjálfunarfyrirkomulaginu sem ég hef þróað síðustu ár hef ég geta aðstoðað sífellt fleiri við að halda sér í ánægjulegri og raunhæfri æfingarútínu,“ segir Indíana og bætir við að fyrirkomulagið henti fjölbreyttum hópi þar sem hún fylgir iðkendum sínum í gegnum allar æfingarnar frá a til ö.
Á nýju ári mun langþráður draumur Indíönu rætast þegar hún mun opna dyrnar að glænýrri og hlýlegri æfingastöð á Kársnesinu. „Þetta er stærsta og mest taugatrekkjandi verkefni sem ég hef hent mér út í hingað til, en á sama tíma hef ég aldrei verið jafn spennt,“ segir Indíana sem er spennt fyrir þessum næsta kafla í þjálfun sinni.
„Ég og maðurinn minn, Finnur Orri Margeirsson, settum það að opna eigin stöð fyrst upp í hugmyndaskjal í júní 2018. Síðan þá hef ég eignast tvö börn og á skall heimsfaraldur. Ég var því búin að setja þennan draum á ís og hélt í raun að við myndum ekkert kynda undir hann aftur. En það var maðurinn minn sem hvatti mig af stað í þessu aftur, enda enginn sem hefur jafn mikla trú á mér og hann,“ útskýrir Indíana.
„Stór ástæða fyrir því að ég hafði ekki keyrt á þetta áður var líka sú að ég var hrædd um að tapa gleðinni í þjálfun ef þetta færi eingöngu að snúast um tölur og rekstur. En Finnur er fjármálamenntaður og er sterkur þeim megin, hann hefur því áhuga á að einblína meira á þá hlið og ég get haldið mér meira í því sem ég er góð í og þykir skemmtilegt - að þjálfa og skapa,“ bætir hún við.
Í stöðinni munu Indíana og aðrir flottir þjálfarar bjóða upp á fjölbreytta styrktarþjálfun, jóga, heilsufarsmælingar og þjálfun fyrir fólk á besta aldri. Þá mun hún halda í gildi GoMove sem eru gæði, gleði og hugsun. „Gott kaffi og hlýlegur andi verður ríkjandi í gullfallegu og heimilislegu rými þar sem allir eru velkomnir,“ segir hún og bendir áhugasömum á Instagram síðu sína og heimasíðu GoMove Iceland.