Gerir upp vanrækslu í æsku með sveppaferðalögum

Hugvíkkandi efni hafa verið að ryðja sér til rúms á …
Hugvíkkandi efni hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum misserum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hugvíkkandi efni hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum misserum. Viðmælandi mbl.is sem prófað hefur að fara í svokölluð ferðalög á hugvíkkandi efnum segist hafa öðlast innri ró og betri skilning á sjálfri sér eftir að hafa farið í nokkur ferðalög. Þá hafa sveppaferðalög einnig dýpkað ástina milli hennar og eiginmanns hennar. 

„Ég fór í fyrsta ferðalagið fyrir einu og hálfu ári. Ég lagðist í mikla rannsóknarvinnu og viðaði að mér upplýsingum í um níu mánuði,“ segir konan sem við skulum kalla Önnu. Anna hafði hlustað á viðtöl við helstu sérfræðinga landsins í hugvíkkandi efnum og ákvað því að kynna sér þau betur og hvort þetta gæti verið leiðin fyrir hana. 

Ráðstefna um hugvíkkandi meðferðir, Psychedelics as Medicine, fer fram dagana 12. til 13. janúar næstkomandi í Silfurbergi í Hörpu. 

Var vanrækt sem barn

„Ég var í öngstræti með tilfinningar. Ég átti erfiða æsku, ég var vanrækt sem barn. Ég er yngst af fimm systkinum og var mjög vanrækt. Foreldrar mínir lentu í alvarlegum áföllum í sínu lífi sem mótaði mjög heimilislífið. Það var mikil drykkja og mikil sorg inni á heimilinu,“ segir Anna. 

Hún segir föður sinn hafa fengið taugaáfall þegar hann var fimmtugur og aldrei hafa náð sér af því náði sér aldrei af því. 

„Þessi miklu læti heima hjá mér fór illa í mig. Það voru mikil öskur og læti. Það var ekki ofbeldi, en ég varð fyrir miklu andlegu ofbeldi af hálfu systkina minna. Systkinaeinelti sem er bara ofboðslega alvarlegt. Ég fattaði það ekki fyrr en seinna,“ segir Anna. Allt þetta fylgdi henni úti í lífið en hún vill þó taka fram að hún eigi í góðu sambandi við systkini sín í dag þó uppvöxturinn hafi verið erfiður. 

Anna segist alltaf hafa brugðist við öllu áreiti og samskiptum við með því að fara árás. „Ég upplifði líka að allir væru að ráðast á mig. Fólk var kannski bara að spyrja og ég las strax að tónninn var ekki eins og ég vildi hafa hann. Ég oftúlkaði og ég rangtúlkaði,“ segir Anna. 

Í gegnum ævina hefur hún verið mikið hjá sálfræðingum en segist aldrei hafa náð að greina hvað væri kjarninn. Hvað væri rótin að hennar vanlíðan og hegðun. 

Ljósmynd/Unsplash/Emma Miller

Lenti í einelti á vinnustað

Árið 2020 var örlagaríkt ár hjá Önnu. Þá lenti hún í alvarlegu einelti á vinnustað. Yfirmaður hennar var sá sem lagði hana í einelti og ákvað hún að tilkynna það. „Ég ákvað að standa með sjálfri mér og tilkynna það. Þetta hafði alveg rosalegar afleiðingar. Ég var bara tekin fyrir. Ég var útilokuð.“

„Út frá þessu var ég komin upp á vegg með allt mitt tilfinningalíf. Þess vegna fer ég að garfa í þessu. Þetta leitaði mig uppi, þetta segir maður eftir að maður fer í svona sveppaferðalög. Stjörnurnar raða þessu saman,“ segir Anna. Hún kom sér í samband við konu sem hefur verið að leiðbeina fólki í sveppaferðalögum. Tveimur mánuðum seinna hittust þær og konan leiðbeindi henni í gegnum ferðalagið. 

„Ég myndi segja að helsti ávinningurinn er að sjá og átta mig á því hver ég er. Maður kallar þetta að sjá sig,“ segir Anna og segir það geta verið mjög erfitt að sjá sjálfan sig eins og maður er. 

Sálfræðingurinn forvitinn og áhugasamur

Anna var búin að vera í mikilli sjálfsvinnu áður en hún fór í fyrsta ferðalagið. Það var skýrt í huga hennar að hún ætlaði að ná andlegri heilsu. 

Undanfarið hefur hún verið hjá sálfræðingi og hefur rætt ferðalögin við sálfræðinginn. „Ég sagði við sálfræðinginn: Þekkirðu til hugvíkkandi efna? Hefurðu eitthvað á móti því, því ef þú hefur eitthvað á móti því þá getur þú ekki verið sálfræðingurinn minn“. Hann sagðist ekki hafa prófað hugvíkkandi efni, en að hann hefði mikinn áhuga á þeim og vildi gjarnan fá að vera sálfræðingurinn minn til að fá að heyra hvernig þetta virkar,“ segir Anna. 

Þannig vinnur Anna með sálfræðingnum sínum úr því sem kemur til hennar í gegnum ferðalögin. Anna notar ferðalögin núna sem viðhaldsmeðferð þegar hún finnur að hún þarf að greiða úr einhverjum flækjum í lífinu. 

Ljósmynd/Pexels/Mikhail Nilov

Hjónin fara í ferðalög saman 

Anna og eiginmaður hennar fara líka í sveppaferðalög saman. Hún segir ferðalögin hafa haft mjög jákvæð áhrif á manninn hennar. Hann hafi átt góða æsku og ekki þurft að gera upp fortíðina. Hann hafi hins vegar verið mjög óöruggur með sjálfan sig og verið feiminn. 

Eftir að hafa prófað að fara í sveppaferðalög finnur hann fyrir mun meira öryggi í lífinu með sjálfan sig. 

„Þetta hefur líka dýpkað ástina á milli okkar, sem er mjög áhugavert. Nú veit ég ekki hvernig fólk er að gera þetta. Ég á nokkra vini sem ég fer í ferðalög með. Allir vinna með sitt. En í mínu tilviki þegar ég fer með manninum mínum, þá dýpkar ástin. Við skiljum betur hvernig við getum verið góð saman og góð við hvort annað. Við erum gagnrýnin og allt það, við hættum ekki að rífast og fara í fýlu. En nálgunin á rifrildi er orðin allt önnur í dag,“ segir Anna. 

Sveppaferðalögin eru ekkert leyndarmál innan fjölskyldunnar og ræðir Anna þau við börnin sína. „Sonur minn, sem er á þrítugsaldri. Við ræddum þetta nýlega og ég sagði við hann gamla Anna og nýja Anna. Og hann sagði við mig: „Veistu mamma, þú getur alveg notað það, því þú ert allt önnur manneskja“,“ segir Anna og segir alla fjölskylduna finna mun á viðbrögðum hennar.

„Þetta er bara kristalsglas“

Með betri skilningi á því hver hún er og hvaða manneskju hún hefur að geyma hefur allt líf Önnu breyst. Öll smáatriðin og litlu samtölin sem hefðu getað valdið hvirfilbyl í höfði Önnu sem og lífi hennar eru orðin að því sem þau eru, smáatriði og lítil samtöl.

„Eins og núna um áramótin þá brotnaði kristalsglas sem ég erfði eftir mömmu. Einhvern tíman hefði ég brjálast, en núna varð „Æ hvað er þetta, þetta er bara kristalsglas“,“ segir Anna.

Hún segist þó líka kunna betur að setja sér í mörk í samskiptum við annað fólk. Þegar hún finnur að einhver fer yfir hennar mörk hikar hún ekki við að staldra við og taka í taumana og segja frá því.

„Ég lenti nýverið í alvarlegu atviki þar sem gengið var yfir mín mörk. Vegna sjálfsvinnunnar var ég skýrar í því að stoppa og segja að hér liggi mín mörk. Við sem ólumst ekki upp við skýran ramma, við verðum oft óskýr í að setja fólki mörk sem getur reynst erfitt í samskiptum. En ég veit núna miklu betur hver mín mörk eru, sem auðveldar samskipti,“ segir Anna.

Anna segist eiga sér draum um það að hugvíkkandi efni geti orðið verkfæri fagaðila. „Ég hefði gjarnan viljað að þegar ég var að taka mín fyrstu skref að þetta hafi verið eitt af þeim verkfærum sem minn sálfræðingur eða geðlæknir hafði á sínum tíma,“ segir Anna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda