Sara María Júlíusdóttir er fyrsti Íslendingurinn í mastersnámi í hugvíkkandi efnum. Sara, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar segist sannfærð um að hugvíkkandi efni séu mesta bylting geðlæknisfræðinnar í áratugi.
„Ég er í fjögurra ára mastersnámi núna og ætla svo í doktorsnám. Ég á mér þann draum að samfélagið eigi alvöru samtal um þessi efni, að þetta hætti að vera tabú og að fagfólk komi meira að þessu á næstu árunum. Það er gríðarlega mikið af venjulegu fólki að prófa hugvíkkandi efni núna, af því að fólk er komið á endastöð með aðrar lausnir. Það hefur í raun orðið sprenging og veldisvöxtur í þessu að undanförnu. Það eru að dreifast út um allt Ísland jákvæðar reynslusögur frá venjulegu fólki og ég er sannfærð um að það sé að gjörbreyta landslaginu.
Það er gríðarlega stór hópur af fólki á Íslandi í mikilli vanlíðan og ef fólk finnur lausn á sinni vanlíðan getur ekki verið rétt að banna það. Það hefur verið mikið af röngum upphrópunum um þessi efni undanfarna áratugi, allt frá því að Richard Nixon hóf„ stríðið gegn fíkniefnum“. Munurinn á þessum efnum annars vegar og fíkniefnum hins vegar er að hugvíkkandi efni færa mann nær sjálfum sér og láta mann mæta sjálfum sér á meðan fíkniefnin hjálpa manni að flýja sjálfan sig. Nú eru rannsóknirnar sem sýna fram á virkni þessara efna við þunglyndi, kvíða, áfallastreitu og fleiri hlutum taldar í þúsundum og það er ekki lengur hægt að loka augunum. Þetta er mesta bylting í geðlæknisfræðinni í 50 ár,” segir Sara, sem tekur þó fram að hugvíkkandi efni séu ekki töfralausn og sérlega mikilvægt sé að nota efnin undir réttri handleiðslu og í réttum aðstæðum.
„Þessi efni eru misnotuð, ofnotuð og notuð í röngum tilgangi og eins og með allt annað er þetta ekki hættulaust. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að fagaðilar komi að þessu og að hægt sé að koma því við að fólk noti þessi efni undir réttri handleiðslu í réttu umhverfi. Ég sé ekki rökin fyrir því að fólk muni nota þessi efni meira eða á óábyrgari hátt ef þau verða lögleidd, heldur þvert á móti.“
Sara segir landslagið á Íslandi hafa gjörbreyst undanfarin ár og nú sé mikið af bæði löggæslufólki og heilbrigðisfólki orðið mjög opið eftir að hafa séð það sem er að gerast.
„Hreint MDMA í réttum skömmtum ýtir undir samkennd hjá fólki, en svæfir árásargjarna hlutann í heilanum. Það er bara einföld staðreynd að ef fólk væri á réttum skömmtum af MDMA í miðbænum um helgar í staðinn fyrir áfengi, þá væru ekki hnífsstungur eða líkamsárásir. Ég fullyrði það. Auðvitað er það viðkvæm umræða að tala um skaðsemi áfengis af því að við notum það svo mörg og það er svo inngróið í samfélagið. En ef við horfum á það sem er að gerast í miðbænum um helgar hljótum við að geta verið sammála um að það sé ekki eðlilegt. Óorðið sem var komið á hugvíkkandi efni í langan tíma var ekki síst af því að fólk var að nota þessi efni á djamminu ofan í áfengi, amfetamín, kókaín og svefnleysi. Það mun auðvitað ekki enda vel. Ég finn það á samtölum mínum við bæði þingmenn, heilbrigðisstarfsfólk og fleiri að það er vitundarvakning í gangi.“
Núna í byrjun janúar eru margir af helstu sérfræðingum heims í hugvíkkandi efnum að koma til Íslands á ráðstefnu sem Sara stendur fyrir, sem haldin verður í Hörpunni 12. og 13. janúar. Sara segist vilja að ráðstefnan stuðli að alvöru samtali í samfélaginu og að ráðamenn og fagfólk muni vonandi láta sjá sig.
„Ég bind miklar vonir við að sjá bæði ráðherra, þingmenn, lögregluna og heilbrigðisstarfsfólk á þessa ráðstefnu. Það geti svo vonandi orðið upphafið að alvöru samtali í samfélaginu og kannski fyrsta skrefið í lögleiðingu. Það er ekki hægt lengur að horfa á bann sem einhverja heildarlausn og láta eins og það sé ekki búið að rannsaka þessi efni. Þegar fólk segist vilja sjá rannsóknir er hægt að benda á að rannsóknirnar núna skipta tugum þúsunda og það er búið að gera meira en 10 þúsund rannsóknir bara á psílosíben, virka efninu í sveppum. Ég er að vinna að því að tengja saman fyrirlesarana á ráðstefnunni og yfirvöld á Íslandi, til þess að það geti átt sér stað heildstætt samtal. Ég trúi því að Ísland geti orðið leiðandi í rannsóknum á hugvíkkandi efnum og veit og finn að það er ákveðin bylting að eiga sér stað hér á landi.“
Þáttinn með Sigurjóni Erni og alla aðra hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á vef þáttanna.