„Vildi ekki upplifa mig sem minni mann“

Það munaði ekki miklu að Breki Þórðarson hafi komist inn …
Það munaði ekki miklu að Breki Þórðarson hafi komist inn á heimsleikana í crossfit á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á skömmum tíma hefur Breki Þórðarson náð ótrúlegum árangri í crossfit. Hann rétt missti af sæti á heimsleikunum crossfit á síðasta ári en stefnir á að komast inn á leikana á þessu ári.

Breki fæddist einhentur, en það var eitthvað sem gerðist í móðurkviði sem olli því. „Einhver bönd í maganum á mömmu ófust utan um höndina þegar ég var pínulítill og stoppuðu allt blóðflæði í handlegginn sem var að myndast. Læknarnir voru með einhverjar efasemdir um heilsuna mína þegar ég kom svona í heiminn en mamma og pabbi segjast ekki hafa efast um mig í eina sekúndu,“ segir Breki.

Hann segist vera með mikið keppnisskap, enda ólst hann upp með eldri bróður og reyndi eftir fremsta megni að gera allt í keppni við hann. „Ég þurfti að vera betri í íþróttum, tölvuleikjum og öllu saman. Þar kemur sennilega inn í að ég vildi ekki upplifa mig sem einhvern minni mann, bara af því að ég var einhentur.“

Breki er 24 ára gamall og var að klára sína fimmtu önn í byggingaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Þess á milli æfir hann af miklu kappi í Mjölni.

Breki æfði borðtennis áður en hann byrjaði í crossfit og …
Breki æfði borðtennis áður en hann byrjaði í crossfit og segir íþróttina merkilega góðan grunn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borðtennis góður grunnur

„Ég byrjaði einhvern tímann í ágúst 2019. Þá hafði ég í raun verið íþróttalaus í næstum ár en fyrir crossfit æfði ég borðtennis. Það var, þótt fólki kunni að finnast það skrítið, sjúklega góður grunnur fyrir íþróttina. Borðtennis er gríðarlega tæknilega flókin íþrótt og maður hættir aldrei að vinna í tækninni. Ég var þannig mjög meðvitaður um það hvernig ég var að hreyfa líkamann þegar ég var að feta mín fyrstu spor í crossfit sem varð til þess að ég var frekar fljótur að ná færni í grunntækninni,“ segir Breki.

Þar sem Breki er einhentur þarf hann að aðlaga margar æfingar og hreyfingar í crossfit. Í dag veit hann að hann getur framkvæmt flestar hreyfingar en í fyrstu var þetta allt mjög flókið. „Mér til stuðnings var samt alltaf Bensi [Benedikt Karlsson] sem hjálpaði mér að finna út úr því hvaða hreyfingu ég ætti að framkvæma til að fá svipað út úr æfingunni og sett var fyrir. Stuttu seinna fann ég strák á Instagram sem var nákvæmlega eins og ég, með litla vinstri hönd, og hann var eiginlega bara búinn að finna út úr þessu öllu. Ég fékk þetta þannig svolítið upp í „hendurnar“ ef það á við,“ segir Breki.

Hugarfarið er stærsti þátturinn að mati Breka.
Hugarfarið er stærsti þátturinn að mati Breka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó hann væri kominn með lausnirnar þurfti hann samt að læra að framkvæma æfingarnar sjálfur og það var einna erfiðast. „Ég hugsa að ég hafi eytt hundruðum klukkutíma úti í bílskúr að æfa snörun með svo gott sem tóma stöng,“ segir Breki.

Breki getur snarað 100 kílóum. Spurður hvort hann sé aldrei hræddur við að fá þau í höfuðið, segir hann jú. „Sem betur fer bý ég að hundruðum klukkustunda af því að koma snörun í vöðvaminnið út í bílskúr svo að ég kann nokkuð vel á hvenær ég er að ná og hvenær ég er að klúðra. Keppnisskapið getur samt farið með mann og maður lendir í því að fara aðeins fram úr sér á æfingu. Enn sem komið er hef ég ekki slasað mig alvarlega svo bara, sjö, níu, þrettán.“

Æfir mikið einn

Hann segir fyrstu æfingarnar hafa verið mjög erfiðar, fyrst og fremst því íþróttin er erfið. „Ég var ekki alveg byrjaður að pæla í umhverfinu þá, en svo þegar tíminn leið fannst mér ég fá aðeins of mikla athygli fyrir minn smekk. Augnagotur og svona í ræktinni urðu þreytandi til lengdar sem varð til þess að ég fór að æfa mikið einn. Ég var samt alltaf með ómetanlegan stuðning frá öllu því yndislega fólki sem er í kringum mig og svo skemmir ekki fyrir að ég er ekki mjög feiminn að eðlisfari,“ segir Breki.

Hann ákvað að fara að keppa í crossfit þegar hann sá að það var kominn flokkur fyrir einhenta á heimsleikunum í crossfit. Spurður hvort það hafi ekki verið ógnvekjandi tilhugsun að keppa svarar Breki neitandi. „Maður er alltaf stressaður um hvernig maður stendur sig en ég bara lifi fyrir adrenalínið sem maður fær á keppnisgólfinu,“ segir Breki. Mótunum fyrir einhenta hefur fjölgað í heiminum en flest þeirra eru í Bandaríkjunum. „Það var mót í Barcelona fyrir stuttu og í Madríd. Nú er crossfit að búa til flokkunarkerfi til að gefa íþróttamönnum alþjóðlegan flokk sem aðrir mótshaldarar geta síðan nálgast á vef þeirra. Markmiðið er að gera flokkunina auðvelda og aðgengilega svo að mótshaldarar eigi auðvelt með að hafa flokkinn á sínu móti,“ segir Breki.

Fyrstu mánuðirnir fóru í að finna út hvernig Breki gæti …
Fyrstu mánuðirnir fóru í að finna út hvernig Breki gæti framkvæmt allar æfingarnar en hann naut góðrar aðstoðar Benedikts Karlssonar þjálfara. Kristinn Magnússon

Borðar meira en minna

Um þessar mundir æfir Breki í um 12 til 14 klukkustundir á viku en þegar nær dregur opna mótinu í crossfit hyggst hann fara upp í 20 klukkustundir á viku. „Ég er enn þá að feta mín fyrstu spor í þessu þannig að ég er klárlega enn þá að læra á líkama minn og hvernig ég geti æft af miklum krafti svona mikið. Ég gerði þau mistök í fyrra að æfa 20 klukkustundir á viku af allt of mikilli ákefð og ég var að brenna út á þremur vikum.“

Þegar kemur að endurheimt segist hann aðallega hugsa um að sofa nógu vel og lengi. „Ef ég er mjög aumur einhvers staðar þá mana ég kærustuna í að nudda með nuddbyssu þann part af líkamanum. Aðallega snýst þetta samt um svefn,“ segir Breki.

Hann er ekki á neinu matarprógrammi en reynir að borða frekar meira en minna. „Ég er svolítið í því að fá mér risastóra máltíð tvisvar til þrisvar á dag svo ég reyni að fjölga skiptunum sem ég borða og minnka skammtastærðir.“

Hugarfarið lykillinn

„Hugarfar er alltaf stærsti parturinn í þessu, svo myndi ég segja að reynsla kæmi skammt á eftir. Eins og ég kom inn á áðan þá geta allir æft 20 tíma í viku í tvær vikur en mjög fáir geta æft 20 tíma í viku í hálft ár. Maður þarf að læra á líkama sinn og hlusta á hann þegar hann segir manni að eitthvað sé í ólagi. Ekki nóg með það þá þarf maður líka að læra hvenær á að segja líkamanum að halda bara kjafti þegar hann er að væla að ástæðulausu,“ segir Breki spurður hver sé lykilinn að árangrinum.

Breki ætlar að tryggja sér farmiða á heimsleikana á þessu ári. „Hvernig ég afreka það er síðan annað mál,“ segir Breki en á síðasta ári lenti hann í 7. sæti í heiminum. Aðeins fimm komust inn í hans flokki og var hann því ansi nálægt því að komast alla leið.

Spurður að því hvernig hann setji sér markmið fyrir tímabilið segist Breki almennt ekki gera það en mega vera duglegri við það.

„Ég fæ meira mjög óheilbrigða þráhyggju fyrir því að ná einhverju þangað til ég er búinn að ná því. Að öllu gríni slepptu er ég samt alltaf með einhverjar hugmyndir um það hverju ég stefni að og hvernig ég ætla að ná því. Þau markmið verða síðan erfiðari eftir því sem ég næ þeim. Ég mætti samt sem áður vera miklu duglegri að skrifa hluti niður. Í þau fáu skipti sem ég hef gert það hefur það margborgað sig,“ segir Breki.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál