Erla Bolladóttir segir erfitt að lýsa þeirri tilfinningu að hafa haft Guðmundar- og Geirfinnsmálið hangandi yfir sér stóran hluta ævinnar. Erla segir í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar gæsluvarðhaldið vegna málsins vera eitt, en það hafi ekki síður haft mikil áhrif á sálarlífið að geta ekki gengið um göturnar sem venjulegur þjóðfélagsþegn í langan tíma eftir að henni var sleppt úr haldi.
„Það var Þorláksmessa þegar ég kom úr gæsluvarðhaldinu og það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á því að málið væri búið að vera í fjölmiðlum allan tímann. Ég sá hvernig fólk horfði á mig og áttaði mig á því að lífið yrði aldrei aftur eins. Eitt af því sem ég lærði alveg í blábyrjun var að ég yrði að læra að taka hlutum ekki persónulega. Ég man til dæmis enn eftir því þegar ókunnug kona á aldri við mömmu mína kom að mér úti á götu og hrækti á mig. Hún hafði aldrei séð mig og vissi ekkert nema það sem hún hafði lesið í blöðunum. Henni var mjög mikið niðri fyrir, en það gat ekki verið út af því sem ég átti að hafa gert, af því að ég gerði ekki það sem ég var sökuð um. En fyrir unga manneskju er það auðvitað stórt verkefni að lifa við það að ókunnugt fólk sé með svona mikið hatur og fyrirlitningu á þér.“
Erla Bolladóttir gat ekki gengið um götur Reykjavíkur í langan tíma eftir að hún losnaði úr fangelsi, án þess að verða fyrir aðkasti og hrópum frá ókunnugu fólki.
„Ég hugsa að góður sálfræðingur væri betri í að útskýra hvernig það er að hafa meirihluta ævinnar verið með þetta mál vofandi yfir sér. Ég hef ekki hugsað um þetta alveg á hverjum einasta degi, en þetta hefur litað allt mitt líf.
Þegar ég varð þess vör að ég væri svona hötuð og fyrirlitin af almenningi var það mikið högg. Eftir að ég kom úr gæsluvarðhaldinu vissi ég ekki strax hve mikið og hvernig hafði verið fjallað um málið í fjölmiðlum. En ég áttaði mig fljótt á því þegar ég varð ítrekað fyrir aðkasti við það eitt að láta sjá mig úti á götu. Þannig að ósjálfrátt fór ég að venja mig á að lifa lífi mínu þannig að ég læti lítið fyrir mér fara. Ég vildi helst aldrei koma á staði þar sem einhver ókunnugur væri, eða fólk sem þekkti mig lítið. Ég vandist því í öll þessi ár að lifa lífi mínu þannig og auðvitað hefur það haft miklar sálrænar afleiðingar.“
Erla segir að í áraraðir hafi almenningsálitið verið á þessa leið. Mikil fyrirlitning og neikvæðni í garð hennar og hinna sem voru sett í gæsluvarðhald. Það hafi einkum verið tvennt sem breytti því. Annars vegar heimildarmynd Sigursteins Másonar og hins vegar andlát Sævars Ciesielski.
„Það er eiginlega ekki fyrr en Sigursteinn Másson gerir heimildarmyndina um málið að ég fór að trúa því að einhver sæi málið með öðrum augum. Þá bjó ég í Suður-Afríku og hafði í raun ákveðið að ég gæti ekki lifað lífi mínu á Íslandi. Ég vissi af því að það væri verið að gera myndina og þegar ég kem heim í stutt stopp fljótlega eftir að hún kom út var ég í fyrsta skipti stoppuð af ókunnugri manneskju og fékk einhvers konar stuðning. Það tók langan tíma að trúa því, en ég sé núna að það varð mikill viðsnúningur í almenningsálitinu eftir að myndin kom út. Svo finnst mér eins og hrunið árið 2008 hafi líka haft áhrif, kannski af því að almenningur var að ganga í gegnum erfiða hluti. En svo er það þegar Sævar dó árið 2011 sem það varð sprenging í umræðunni og þá fyrst fannst mér allt breytast eftir öll þessi ár og fólk fór almennt að sjá málið allt með öðrum augum. Völd fjölmiðla eru mikil og eftir að Sævar dó breyttist umfjöllun fjölmiðla mikið.“
Erla segir líf sitt hafa markast af þessu máli og að hún hafi gert sér grein fyrir að stærð málsins væri þannig að það væri hæpið fyrir hana að lifa venjulegu lífi á Íslandi. En smám saman hefur hún fundið æðruleysi og frið í sálinni.
„Ég væri ekki svona brött núna ef ég hefði ekki þann stuðning sem ég hef. Ég átta mig á því núna að málið var sett þannig upp á sínum tíma að það var kannski eðlilegt að fólk myndaði sér mjög einhliða skoðun. En allt ferlið ætti kannski að kenna okkur öllum sem þjóð að það er ekki alltaf allt eins og það sýnist í fyrstu. Ég er að upplifa æðruleysi í dag sem ég hef aldrei þekkt áður í gegnum allt mitt líf. Nú er ég búin að fá þær upplýsingar frá læknum að ég sé með krabbamein í lunga sem þeir geta ekki læknað, en ég er ekki enn farin að upplifa neitt áfall í kringum það. Ég geri mér grein fyrir því að dagar mínir eru taldir, þó að enginn viti hvenær það verði. Ég er ekki alveg búin að gera allt sem ég ætla að gera áður en ég kveð, en ég er sátt og ætla bara að gera það sem ég get til að gera klárt í alla báta á meðan ég er enn hér.“
Þáttinn með Erlu og alla aðra hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á vef þáttanna.