Beggi elskar lífið í Bandaríkjunum

Bergsveinn Ólafsson mælir með því að taka eitt skref í …
Bergsveinn Ólafsson mælir með því að taka eitt skref í einu. mbl.is/Árni Sæberg

Bergsveinn Ólafsson, doktorsnemi í sálfræði, sérhæfir sig meðal annars í því að hjálpa fólki að yfirstíga áskoranir sínar. Beggi Ólafs, eins og hann er kallaður, mælir með að byrja á einu verkefni í einu og hann minnir fólk á að það getur oft meira en það heldur.

Finnst þér einhver leið betri en önnur til þess að gera breytingar á lífinu?

„Ef ég ætti að gefa heilræði sem nær til massans væri það að setja sér hæfilega krefjandi markmið sem fólk á raunverulegan möguleika á að ná. Alls ekki of há, því þá er ansi líklegt að fólk detti aftur í sama farið eftir nokkra daga og ekki of lág því þá eru þau ekki nógu spennandi og krefjandi fyrir okkur. Það hefur reynst mér afar vel í gegnum tíðina að einblína á eitthvað eitt í einu, koma því hægt og rólega í venju og svo einblína á næsta hlut þegar sá fyrri hefur orðið að vana. Þann hring endurtekur maður svo út lífið. Stöðugleiki trompar kraft.“

Finnst þér fólk byrjað að átta sig á hvað andleg heilsa skiptir miklu máli?

„Það virðist vera eins og það sé meira talað um geðheilsu í samfélaginu í dag og það þykir nú venjulegt að verja tíma með gjörhygli á núverandi augnabliki, setja sér markmið, efla hugrekki sitt með því að gera það sem maður óttast, sýna seiglu við hindranir, tala við gott fólk um erfiðleika sína, tjá þakklæti sitt og að gera góðverk svo eitthvað sé nefnt.

Geðheilsan þín veltur á svo mörgu. Lífið er erfitt og að mæta því af festu og heiðarleika og það er það sem geðheilsan þín er að fara að hjálpa þér að gera. Hún er eins og auðlind sem þú getur unnið markvisst í til þess að verða betri einstaklingur en á sama tíma byggir upp góðan grunn fyrir það sem mun mæta þér í framtíðinni. Ef þú fjárfestir í henni samviskusamlega er ansi líklegt að þú munir ráða betur fram úr erfiðleikunum sem munu eiga sér stað í lífi þínu.“

Skiptir andlega heilsan jafnvel meira máli en líkamleg heilsa?

„Ef svefninn þinn er í rugli, þú hreyfir þig ekkert og borðar eintóma óhollustu er ansi líklegt að þér líði ekki vel í lífinu. Að sama skapi, ef þú hefur engan tilgang í lífinu, ert stressuð eða stressaður eða þér líður illa, þá hefur það áhrif á þína líkamlegu heilsu. Líkamleg, andleg og félagsleg heilsa helst í hendur. Þess vegna er sterkur leikur að verja tíma, orku og erfiði í að efla þessa þrjá þætti eins vel og maður getur.“

Bergsveinn Ólafsson er á réttri hillu.
Bergsveinn Ólafsson er á réttri hillu. Árni Sæberg

Getum við náð meiri árangri en við höldum?

„Það býr svo ótal margt í hverjum og einum einstaklingi og mín reynsla er sú að margir gera sér ekki grein fyrir því hvers megnugir þeir geta orðið. Það er alltaf hægt að bæta sig og það geta allir bætt sig. Sama á hvaða stað þeir eru á, hvaðan þeir eru að koma og hvert þeir vilja fara. Það getur tekið hellingsvinnu og langan tíma en í enda dagsins er það í þínum höndum.“

Ertu með einhverjar góðar leiðir sem geta hjálpað fólki að ná árangri?

„Ég held að það sé mikilvægt að setjast niður með sjálfum sér og sjá fyrir sér manneskjuna sem maður vill verða og lífið sem maður vill lifa og skrifa síðan niður það sem þú ímyndaðir þér. Eflaust getur verið gott að spyrja sig hvernig markmiðum maður vill ná í vinnu, hvers konar vini maður vill eiga að, hvernig maður vilji að sambandið sitt sé við fjölskyldumeðlimi og maka, hvernig maður vill verja frítímanum sínum og hvernig maður ætli að takmarka óheilbrigði og hámarka heilbrigði. Eftir þessa íhugun er maður mögulega kominn með einhverja sýn til að fylgja. Þar á eftir er sterkur leikur að setja sér mælanlegri markmið sem hjálpa þér að uppfylla þessa sýn.

Ein spurning sem mér finnst gott að kasta á fólk til að kveikja á meiri vitund um það sem það getur bætt og að taka lítið skref í áttina að því að bæta þann hlut er þessi: Hvað er eitthvað eitt sem þú getur gert (sem þú gerir ekki nú þegar) sem þú veist að myndi bæta líf þitt ef þú myndir koma því í framkvæmd?“

Hvernig er lífið í Bandaríkjunum?

„Það er yndislegt. Ég stunda doktorsnám í sálfræði ásamt því að þróa fyrirtækið mitt hérna úti. Ég er í þessum leik sem lífið er til þess að leggja allt mitt í sölurnar til að hafa góð áhrif á fólk og ég er að finna út nákvæmlega réttu leiðirnar til að gera það hérna úti.“

Ertu búinn að uppgötva skemmtilega hreyfingu eða holla fæðu síðan þú fluttir?

„Ég er mestmegnis að rífa í járnin núna. Ég ætla síðan að fara byrja hlaupa meira þar sem ég skráði mig í þriðja sinn í Laugaveginn næsta sumar. Ég hef prófað boxtíma og að surfa, sem mér finnst bæði tvennt rosalega skemmtilegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál