Vala Kristín Eiríksdóttir er ein fremsta leikkona landsins hvort sem horft er til sjónvarps- eða leikhúsvinnu. Hún og samstarfskona hennar, Júlíana Sara Gunnarsdóttir, eru að hefja framleiðslu á Venjulegt fólk, sjöttu þáttaröð, sem er algjört einsdæmi í framleiðslu fyrir sjónvarp á Íslandi.
Hún stendur í hverju aðalhlutverkinu á fætur öðru í Borgarleikhúsinu, auglýsingum og svona mætti lengi telja. En hún er líka búin að takast á við veikindi frá því í grunnskóla þegar fyrstu einkenni átröskunar mættu henni. Sjúkdómur sem hún náði ekki tökum á fyrr en mörgum árum seinna, á síðasta árinu sínu í Listaháskóla Íslands.
Vala Kristín er gestur Einars Bárðarsonar í nýjast þætti hlaðvarpsins Einmitt en þar ræðir Vala Kristín um velgengnina og hvað hún telur að sé lykillinn að þessari velgengni. Hvernig samfélagið tekur þessari velgengni þeirra Júlíönu.
Samstarfsfólkið hjálpar þeim að láta þættina verða að veruleika. Þau ræða hvernig söguþráðurinn er eitt risastórt grín sem gert er að samfélaginu okkar þar sem allir þykjast hafa það betra en þeir gera og allir glíma við sjálfsefa og áskoranir samtímans sem flestar virðast vera búnar til af okkur sjálfum.
Vala talar líka um hvernig það tók hana mjög langan tíma að átta sig á því að hún ætti við átröskun að stríða. „Ég veiktist fyrst í níunda bekk en fór í raun ekki að taka á við veikindin fyrr en í lok námsins í Listaháskólanum,” segir Vala.
Hún segir að vegna þess að einkennin hafi ekki verið hefðbundin, svo sem uppköst og svelti, hafi hún reynt að fela þetta fyrir öllum. „Ég byrjaði á því að taka út hveiti, svo sykur, svo mjólkurvörur sem endaði í því að ég var farin að borða örfáar tegundir af grænmeti.“
Vala hefur komið sér upp leið til að halda sjúkdómnum niðri. Það gerir hún með því að hugsa um hann eins og gamla frænku sem er alltaf að skipta sér af henni. Það sé þannig best að setja hana inn í herbergi, ekki loka eða læsa, leyfa henni að tuða þar og svara henni.
Með því að læsa hana inni og gleyma henni bjóði hún hættunni heim. Einn daginn mölvi frænkan bara hurðina og þá sé voðinn vís. Einar og Vala spjalla einnig um það hvernig starf leikarans geti ýtt undir sjúkdóma sem þennan.
Þá ræða þau hver lykillinn var að því hvernig þær Júlíanna unnu agað og skipulega að því að ná þeim árangri sem þær nú njóta. Það vekur athygli hve ungar þær eru miðað við þann árangur sem þær hafa náð. Vala Kristín er einungis 31 árs en hún segir Júlíönu hafa keyrt þetta í gang þegar þær vöru að klára sitt leiklistarnám með því að mæta heim til hennar klukkan átta á hverjum morgni. Hún bjó ein og í íbúðinni hennar skrifuðu þær niður hugmyndir og drög að þáttum þangað til að þáttaröðin Þær tvær kviknaði sem var nokkurs konar undanfari Venjulegs fólks.
Þáttinn má nálgast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.